fbpx
Mánudagur 10.nóvember 2025
Fréttir

Harðar deilur milli frændsystkina um arf – Rifust um hvern frænkan vildi arfleiða og hvort hún hafi verið of rugluð

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. nóvember 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóm Suðurlands í hörðu deilumáli á milli frændsystkina. Deila þau um arf eftir frænku sína en annars vegar deila fjögur börn systur konunnar og hins vegar sonur bróður hennar en samkvæmt erfðaskrá hinnar látnu var það vilji hennar að sá síðarnefndi myndi erfa eignir hennar en þar á meðal er jörð. Hin fyrrnefndu vildu hins vegar meina að frænka þeirra hefði ekki verið með réttu ráði þegar hún undirritaði erfðaskránna og að þetta hafi ekki verið hennar vilji en hefur ekki tekist að sanna það.

Úrskurður héraðsdóms féll í maí en málinu var fyrst skotið þangað árið 2023. Konan lést árið 2022 en í úrskurði héraðsdóms kemur fram að erfðaskráin hafi verið undirrituð árið 2020. Kemur þar fram að það sé einlæg ósk konunnar að bróðursonur hennar erfi allan eignarhluta hennar í íbúð og einnig jörð í hennar eigu. Kom fram að erfðaskráin hefði verið undirrituð á skrifstofu sýslumannsins á Suðurlandi að viðstöddum lögbókanda.

Börn systur konunnar kröfðust þess að erfðaskráin yrði úrskurðuð ógild og ekki tekin til greina við skipti á dánarbúi frænku þeirra.

Móðursystir þeirra var ógift og barnlaus og umrædd systkini hennar tvö, foreldrar málsaðila, létust bæði á undan henni. Vildu því börn systur hennar meina að börn og barnabörn systkina konunnar væru lögerfingjar hennar. Sögðu þau að auk fasteignanna hefði frænka þeirra átt um 20 milljónir króna í bankainnistæðum.

Illa áttuð

Vildu börn systurinnar meina að þeim hefði aldrei verið kunnugt um erfðaskránna fyrr en eftir að móðursystir þeirra var látin. Sögðu þau að á þeim tíma sem erfðaskráin var gerð og undirrituð hafi móðursystir þeirra ruglað mikið og verið haldin ranghugmyndum auk þess sem hún hafi þá verið orðin nánast alveg heyrnarlaus og í slæmu líkamlegu ásigkomulagi.

Eitt systkinanna sagðist hafa verið í miklu sambandi við móðursystur þeirra síðustu tvö árin sem hún lifði og verið skráð sem hennar nánasti aðstandandi. Hafi hún alls ekki viljað að bróðursonur hennar myndi erfa eignir hennar. Hafi hún haustið 2020 lagst inn á hjúkrunarheimili og lýst yfir áhyggjum af því að bróðursonurinn væri að reyna að hafa umræddar eignir af henni og einnig sagt það við starfsmenn heimilisins. Hafi móðursystirin þó verið svo illa áttuð að hægt hefði verið að fá hana til að skrifa undir hvað sem er en hún hafi samt fullyrt að hún hafi ekki skrifað undir neitt sem tengdist umræddum eignum.

Eftir andlát konunnar kröfðust börn systur hennar opinberra skipta á dánarbúinu og var orðið við því.

Skiptastjóri útvegaði læknisvottorð þar sem kom meðal annars fram að konan hafi ekki gert sér grein fyrir hvað það þýddi að undirrita erfðaskrá. Honum tókst ekki að sætta ágreining systkinanna fjögurra við frænda sinn um skiptin á búinu og vísaði því málinu í kjölfarið til héraðsdóms.

Stóðst prófið

Bróðursonur konunnar mótmælti kröfum frændsystkina sinna um ógildingu erfðaskrárinnar meðal annars á þeim grundvelli að þegar föðursystir hans undirritaði hana hafi lögbókandi áritað erfðaskrána með því fororði að föðursystirin væri með fullu ráði og rænu. Frænka hans hafi einnig mánuði síðar staðist minnispróf og ekki væri hægt að fullyrða að hún hafi ekki verið fær um að undirita erfðaskrána.

Dómkvaddur matsmaður, geðlæknir, komst að þeirri niðurstöðu að miðað við tiltæk heilsufarsgögn væri ekki hægt að fullyrða að konan hafi verið andlega hæf til að skrifa undir erfðaskrá. Ekki lægju heldur fyrir læknisfræðileg gögn þar sem skýrt væri að hún hafi vilja hafa erfðaskránna svona og skilið þýðingu hennar. Þegar hún hafi undirritað erfðaskrána hafi hún sýnt merki um glöp og heyrnardepru.

Í málatilbúnaði sínum fyrir dómi vildu systkinin fjögur meina að frændi þeirra hefði beitt móðursystur þeirra þrýstingi og nýtt sér ástand hennar þar sem hún hafi verið komin með heilabilun.

Því harðneitaði bróðursonurinn. Föðursystir hans hafi verið öll af vilja gerð til að arfleiða hann að þessum eignum sínum og raunar haft frumkvæðið að því. Erfðaskráin hafi verið undirrituð í votta viðurvist og hún hafi umræddan dag gert sér fyllilega grein fyrir hvað hún væri að gera. Gögn um hrakandi heilsu hennar mánuðinn eftir að erfðaskráin var undirrituð breyttu engu um það.

Ekkert sem sannar

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands í málinu er afar ítarlegur. Í niðurstöðu hans segir meðal annars að það sé ekkert sem sanni að lögbókandi hafi ekki verið fær um meta andlegt ástand konunnar þegar hún undirritaði erfðaskrána og ekkert hafi komið fram sem sanni að hann hafi séð eitthvað athugavert við ástand konunnar.

Dómurinn segir fjögur vitni hafa borið að konan hafi tjáð þeim að hún vildi að bróðursonur hennar erfði þessar fasteignir hennar og það sé fullnægjandi sönnun fyrir því að það hafi raunverulega verið hennar vilji.

Erfðaskráin var undirrituð í september 2020 og dómurinn segir gögn málsins sýna fram á að andlegri og líkamlegri heilsu konunnar hafi hrakað mjög í október það ár. Gögnin sýni hins vegar ekki fram á og heldur ekki framburður áðurnefnds matsmanns að hægt sé að staðhæfa að konan hafi ekki verið andlega fær um að undirrita erfðaskrána. Dómurinn taldi læknisvottorðið sem skiptastjóri útvegaði ekki sanna það heldur þar sem umræddur læknir hafi ekki skoðað konuna eða gert mat á andlegu ástandi hennar, á meðan hún lifði. Dómurinn sagði einnig að systkinunum fjórum hefði heldur ekki tekist að sanna að frændi þeirra hefði beitt móðursystur þeirra ótilhlýðilegum þrýstingi um að arfleiða sig að eignunum.

Landsréttur tekur að öllu leyti undir niðurstöður Héraðsdóms Suðurlands um að systkinunum fjórum hafi ekki tekist að sanna að móðursystir þeirra hafi ekki verið andlega fær um að ráðstafa eignum sínum þegar hún undirritaði erfðaskrána sem stendur því óhögguð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Gullgrafaraæði á bílastæðamarkaði: FÍB áætlar að tekjurnar hafi verið svona háar í fyrra

Gullgrafaraæði á bílastæðamarkaði: FÍB áætlar að tekjurnar hafi verið svona háar í fyrra
Fréttir
Í gær

Hinn 11 ára gamli Pétur er fundinn í Orlando – Móðursystir hans segir það búðarstarfsmanni að þakka

Hinn 11 ára gamli Pétur er fundinn í Orlando – Móðursystir hans segir það búðarstarfsmanni að þakka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stórleikarinn í dramatískri opinberri deilu við fyrrum ástkonu

Stórleikarinn í dramatískri opinberri deilu við fyrrum ástkonu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimmtug kona ákærð fyrir ofbeldi í Leifsstöð

Fimmtug kona ákærð fyrir ofbeldi í Leifsstöð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hæstaréttarlögmaður segir mál Karls Inga kalla á tiltekt

Hæstaréttarlögmaður segir mál Karls Inga kalla á tiltekt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Ég held að þetta fyrirkomulag sé einstakt á heimsvísu. Við erum alltaf til staðar fyrir allt fólkið í landinu“

„Ég held að þetta fyrirkomulag sé einstakt á heimsvísu. Við erum alltaf til staðar fyrir allt fólkið í landinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Páll flutti til Noregs og ber saman lífsgæði þar og á Íslandi – „Við eigum pening um hver mánaðamót“

Páll flutti til Noregs og ber saman lífsgæði þar og á Íslandi – „Við eigum pening um hver mánaðamót“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Nova flytur á Broadway

Nova flytur á Broadway