

Jóhann Haukur Gunnarsson, sem var með tekjuhærri mönnum landsins, á síðasta ári hefur fengið nóg af skattheimtu íslenskra yfirvalda og segist vera að íhuga að flytja af landi brott. Jóhann var með árstekjur upp á 120.898.660 krónur í fyrra sem skilaði honum í 370. sæti á Hátekjulista Heimildarinnar.
„Ég hef borgað allt of mikið í skatta og fengið gott sem ekkert í staðinn. Ég er korter frá því að flytja héðan. Hvað gerist þegar brain & tax drain fer að eiga sér stað á massavís?,“ spyr Jóhann í færslu á Twitter sem Mannlíf fjallaði fyrst um.
Sammála öllu þarna. Og ég hef borgað allt of mikið í skatta og fengið gott sem ekkert í staðinn. (Nr 370 mest af öllum hérlendis í fyrra samkvæmt lista Heimildarinnar.)
Ég er korter frá því að flytja héðan. Hvað gerist þegar brain & tax drain fer að eiga sér stað á massavís? https://t.co/vZbtsR1nqE
— Jóhann Haukur (@jhaukur) November 8, 2025
Færsla Jóhanns, sem starfaði um tíma hjá CCP og sat í stjórn Pírata í Reykjavík, vakti mikla athygli og brást hann við því með annarri færslu þar sem hann útskýrði mál sitt frekar.
„Ef ég í minni stöðu er að upplifa ákveðna uppgjöf á að vera hérna. Hvernig eru þá yngri menn og drengir að upplifa það? Þetta er ekki bara kostnaðurinn og skattarnir, eða skortur á þjónustu, heldur upplifun af óþoli, jafnvel hatri, gegn okkur sem við höfum fengið að mæta og þola árum saman og ekki mátt tala um. Á sama tíma eru karlmenn annarstaðar frá teknir inn í massavís umfram konur og börn,“ skrifaði Jóhann og lét fylgja með hlekk á heimasíðu Hagstofu.