fbpx
Fimmtudagur 30.október 2025
Fréttir

Ökuferð breyttist í martröð skammt frá Hvalfjarðargöngum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. október 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Til meðferðar í Landsrétti er dómur héraðsdóms sem sakfelldi mann fyrir að ráðast á þáverandi eiginkonu sína og slá hana með spjaldtölvu. Átti atvikið sér stað í vegkanti skammt frá Hvalfjarðargöngum en konan, sem hlaut áverka, sat þá í ökumannssæti bifreiðar og dætur hennar voru í fylgd með henni. Maðurinn krafðist þess að dómari við Landsrétt viki sæti í málinu þar sem hann hefði sýnt af sér hlutdrægni. Rétturinn varð ekki við þeirri kröfu og skaut maðurinn henni þá til Hæstaréttar sem hefur nú staðfest úrskurð Landsréttar.

Snýst málið um ákvörðun landsréttardómarans um fyrirhugaða skýrslutöku af vitni við meðferð málsins fyrir réttinum.

Um málavexti segir í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að með ákæru í maí 2023 var manninum gefið að sök brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot með því að hafa, í nóvember 2019, á vegarkafla milli Kjalarness í Reykjavík og Hvalfjarðarganga í Hvalfirði, á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð þáverandi eiginkonu sinnar þegar hann stóð utan við bifreið sem hún ók, slegið hana í andlitið með spjaldtölvu þar sem hún sat í ökumannssæti bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún hlaut sár og eymsli á nefi og bólgu á vör. Í ákæru kom jafnframt fram að dætur eiginkonunnar hefðu verið farþegar í bifreiðinni þegar framangreint brot átti sér stað og með því hefði maðurinn beitt þær ógnunum og sýnt þeim vanvirðandi hegðun, yfirgang og ruddalegt athæfi. Brot hans var talið varða við hegningarlög og barnaverndarlög.

Sakfelldur

Maðurinn var sakfelldur fyrir háttsemi gagnvart eiginkonu sinni sem heimfærð var til almennra hegningarlaga. Háttsemi hans gagnvart eldri dóttur hennar var talin varða við barnaverndarlög en hann var sýknaður af broti gegn yngri dótturinni. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið.

Maðurinn hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar. Undirbúningsþinghald var háð af umræddum landsréttardómara í lok ágústs síðastliðins. Hvorki ákæruvaldið né lögmaður mannsins óskuðu þar eftir að munnlegar skýrslur yrðu teknar fyrir Landsrétti. Var fært til bókar að rétturinn myndi ákveða hvort viðbótarskýrslutökur yrðu heimilaðar. Daginn eftir ákvað dómarinn að lögmönnum fjarstöddum að við aðalmeðferð yrði spilaðar upptökur af framburði mannsins og konunnar og dætra hennar fyrir héraðsdómi og í barnahúsi. Dómarinn tók síðar ákvörðun um að önnur dóttirin skyldi einnig koma fyrir Landsrétt og gefa skýrslu.

Í kjölfarið krafðist lögmaður mannsins þess að dómarinn viki sæti í málinu en Landsréttur hafnaði því og var þeirri niðurstöðu áfrýjað til Hæstaréttar og var upphafi aðalmeðferðar fyrir Landsrétti frestað á meðan.

Ekki viðstaddur

Vildi lögmaður mannsins meðal annars meina að sá annmarki hefði verið á meðferð málsins við skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi að lögmaðurinn sem verjandi mannsins hefði ekki verið boðaður þangað til að gæta hagsmuna hans heldur annar lögmaður. Sagði hann ákæruvaldið hafa ekki talið þörf á skýrslustökum við meðferð málsins í Barnahúsi og hann ekki sjálfur óskað eftir því. Með ákvörðun um að stúlkan myndi gefa skýrslu fyrir Landsrétti hefði dómarinn í reynd tekið sér stöðu með ákæruvaldinu við sókn málsins. Ekki hefði verið um að ræða tilmæli til ákæruvalds um að leiða fram vitni heldur ákvörðun dómarans um skýrslutöku fyrir Landsrétti þvert á skýra afstöðu ákæruvalds og verjanda um að ekki væri óskað eftir viðbótarskýrslum.

Þar með væri ríkt tilefni til að draga hlutlægni dómarans í efa og hann ætti því að víkja sæti.

Heimilt

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir meðal annars að vissulega sé það hlutverk ákæruvalds að afla allra nauðsynlegra gagna til að sanna sekt. Dómara sé hins vegar skylt að fylgjast með máli í öllum atriðum og kappkosta að við meðferð þess sé hið sanna leitt í ljós, þó að gættri jafnræðisreglu sakamálaréttarfars. Í samræmi við þetta sé dómara rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði ef hann teljo það nauðsynlegt til að upplýsa mál. Hæstiréttur segir einnig að dómara sé samkvæmt lögum heimilt að meina aðila um sönnunarfærslu ef hann telji bersýnilegt að atriði sem hann vilji sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.

Hæstiréttur bendir jafnframt á að Landsréttur geti endurskoðað alla þætti sakamáls sem dæmt hafi verið í héraði. Í því skyni sé meðal annars mögulegt að taka viðbótarskýrslur af ákærða og vitnum svo og leiða fram ný vitni. Dómara við Landsrétt sé því heimilt að hafa bæði frumkvæð að sönnunarfærslu og meinaa ákæruvaldi eða ákærða um sönnunarfærslu. Þegar komi að frekari sönnunarfærslu geti þó í ákvörðun dómara aldrei falist meira en tilmæli þar að lútandi til ákæruvalds.

Vill Hæstiréttur því meina að umræddur landsréttardómari hafi haft fulla heimild til þess að hafa frumkvæði að því að önnur dóttirin yrði kölluð fyrir réttinn. Ekkert bendi til annars en að dómarinn hafi eingöngu ætlað sér að leggja traustan grundvöll að endurskoðun Landsréttar á héraðsdómi í málinu. Það sé ekkert fyrir hendi sem renni stoðum undir að dómarinn hafi sýnt af sér hlutdrægni í málinu.

Landsréttardómarinn þarf því ekki að víkja sæti og aðalmeðferð málsins fyrir réttinum mun því væntanlega geta hafist.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Einar segir veðurspárnar hafa brugðist – „Mikil vonbrigði þessa vangeta reiknilíkananna og verulegt umhugsunarefni“

Einar segir veðurspárnar hafa brugðist – „Mikil vonbrigði þessa vangeta reiknilíkananna og verulegt umhugsunarefni“
Fréttir
Í gær

Ótrúleg uppákoma í Grafarvoginum – Keyrði utan í hjólreiðamann sem braut svo hliðarspegilinn

Ótrúleg uppákoma í Grafarvoginum – Keyrði utan í hjólreiðamann sem braut svo hliðarspegilinn
Fréttir
Í gær

Kviknaði í fjórhjóli í Garðabæ

Kviknaði í fjórhjóli í Garðabæ
Fréttir
Í gær

Framganga lögreglumanna sögð hafa verið ámælisverð – Húsleit án heimildar og mjög vafasöm valdbeiting

Framganga lögreglumanna sögð hafa verið ámælisverð – Húsleit án heimildar og mjög vafasöm valdbeiting
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jakub krefst skaðabóta frá sýslumanni og þeim sem komu að sölunni – „Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu“

Jakub krefst skaðabóta frá sýslumanni og þeim sem komu að sölunni – „Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Appelsínugulri veðurviðvörun aflýst en sú gula stendur eftir – Fólk áfram beðið að halda sig heima

Appelsínugulri veðurviðvörun aflýst en sú gula stendur eftir – Fólk áfram beðið að halda sig heima