
Rannveig Tenchi Ernudóttir fékk draumastarfið sitt þegar hún var ráðin forstöðukona Höfðaborgar, samfélagshúss og miðstöðvar öldrunarþjónustu í Stykkishólmi. Þetta var í maí árið 2023. Staðan var hins vegar lögð niður í lok apríl á þessu ári og að sögn Rannveigar var það endirinn á átta mánaða ferli af átökum sem einkenndust af eitruðum samskiptum, útilokun, njósnum, baktali og einelti. Hún gerir að hluta til upp þennan viðskilnað í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni um helgina. Þar segir meðal annars:
„Ég fann draumastarfið í einu fallegasta bæjarstæði landsins. Eftir eitt ár í starfi breyttist starfið í martröð. Það hefur tekið mig tíma að reyna átta mig á því hvað nákvæmlega gerðist. Ég get sagt með góðri vissu að sá þáttur sem snýr að sjálfum starfsstaðnum og starfsumhverfinu þar, snérist um það að ég setti mörk!
Og hvað segjum við um fólk sem kann ekki að virða mörk annarra?
En enn verra var að eiga við það hvernig minn ytri vinnustaður og yfirmaður brást við. Í marga mánuði þegar ég mætti til vinnu á morgnana, hugsaði ég áður en ég opnaði tölvupóstinn, ,,hvað bíður mín núna?“
Á hverjum degi þegar ég kom heim spurði Jói {eiginmaður} mig ,,Jæja, einhverjar nýjar árásir í dag?“
Þetta var ógeðslegt starfsumhverfi, slítandi og bugandi. Versta er þó hve óheyrilega ófaglega var staðið að öllu saman, hvort sem það var sveitarfélagið sjálft eða aðkeypt „þjónusta“. Fyrir utan áfallið við þessar árásir og allar lygarnar, og þá særindin sem fylgdi því, þá er ég mest svo vonsvikin. Reynsla sem þessi tekur frá mani ákveðið sakleysi og trú á að í fólki búi ávalt og almennt góður ásetningur, enda lítið traust eftir í konu eftir svona reynslu. En já, vonbrigði eru einnig lýsandi, ég hafði svo mikið álit á fólki sem brást svo illa að ég mun aldrei aftur geta séð það sömu augum.
En ég segi samt ennþá – Stykkishólmur er fallegur bær, og hér er fullt af góðu, vönduðu og afar skemmtilegu fólki. Okkur hefur liðið vel hér og við viljum ekki fara. Ég mæli enn með því að flytja hingað – en hvað svo sem fólk ætlar að fara gera, bara ekki ráða sig í stjórnendastarf hjá sveitarfélaginu!
En hvað er hægt að gera? Hvernig er hægt að uppræta eitraða menningu í heilum bæjarfélögum og á vinnustöðum?“
Er DV hafði samband við Rannveigu sagðist hún ekki vilja láta hafa mikið eftir sér um málið þar sem hún væri enn að gera átökin og reynsluna upp og vilji að hvað svo sem hún geri, þá stýrist næstu skref ekki af reiði eða hefndarhug. Hún hafi ekki áhuga á slíkri afgreiðslu en telji fulla þörf á að starfshættir í æðsta stjórnlagi í bæjarfélaginu verði rannsakaðir og gerðir upp.
„Ég er greinilega ekki eini erfiði stjórnandinn í Stykkishólmi því minnst 14 starfsmenn í stjórnunarstöðum hafa hætt störfum hjá bæjarfélaginu á undanförnum fjórum árum. Skiljanlega er ég sár og reið, en ég sækist ekki eftir hefnd, heldur vil ég að þessir stjórnarhættir, yfir höfuð, verði rannsakaðir. Ég vil bara að þessi mál og afgreiðsla þeirra séu réttlát, sanngjörn og fagleg. Ég er ekki að segja sögu um að allir séu vondir, þetta snýst ekki um það, enda er það ekki tilfellið,“ segir Rannveig. „En eitthvað er ekki í lagi, eða hvað? Hversu óheppið getur eitt sveitarfélag eiginlega verið?“
Henni gremst líka þegar talað er illa um samfélagið vegna slæmra stjórnarhátta og eitraðs andrúmslofts á einstökum vinnustöðum eða bæjarskrifstofunni. Stykkishólmsbúar eigi það ekki skilið, enda staðurinn yndislegur og þar vill Rannveig búa áfram með eiginmanni sínum og fjölskyldunni. Þau sem beri ábyrgð á eitraðri menningu séu þau sem eigi skömmina, ekki samfélagið sjálft.
Hvað sem ofansögðu líður finnst Rannveigu óhjákvæmlegt að draga fram ákveðna tímalínu í aðdraganda þess að hún missti starfið. Þann 1. maí birti hún eftirfarandi færslu á Facebook-síðu sinni:
Í tilefni dagsins, 1. maí – Baráttudags verkafólks
Á mánudaginn var mér tilkynnt að starf mitt sem forstöðukona Höfðaborgar væri lagt niður vegna skipulagsbreytinga.
Þar með lauk átta mánaða ferli sem hefur verið afar erfitt, ósanngjarnt, óréttmætt og átakamikið.
Á þessu tímabili var ég sökuð um vanhæfni og ósæmilega framkomu, áminnt þrátt fyrir vel rökstudd andmæli og gögn sem sýndu fram á annað, og svo sökuð um andlegt ofbeldi gegn starfsfólki.
Ég hef hafnað ásökunum af fullum þunga og lagt fram gögn og vitnisburði sem sýna að raunin var önnur.
En þannig lýkur mínu starfi fyrir sveitarfélagið.
Ég er ekki sú eina úr starfsmannahópnum á Höfðaborg sem fékk uppsagnarbréf í vikunni, en ein úr starfsmannahópnum, sem tók afstöðu með mér í gegnum allt ferlið, hefur einnig fengið uppsögn á hluta af sínu starfshlutfalli, einnig vegna skipulagsbreytinga.
Það hefur verið mikill heiður að sinna starfi mínu, þrátt fyrir allt saman. Mér þykir ómetanlega vænt um íbúa Höfðaborgar sem og aðra þjónustuþega og gesti, starfsfólkið og samstarfsfólk þvert á samfélagið.
Kærar þakkir öll fyrir samstarfið
Í dag, þegar við minnumst réttinda og kjara vinnandi fólks, vil ég lýsa stuðningi mínum við öll þau sem standa í baráttu fyrir réttlæti og mannsæmandi starfsumhverfi – hvort sem er í opinbera eða einkageiranum
Rannveig greinir DV frá því að hún hafi verið áminnt í starfi, þar sem hún var meðal annars sökuð um óstundvísi og ósæmilega framkomu og hegðun. Til að varpa ljósi á hve ófaglega áminningin var unnin, að hennar sögn, er gott að skoða meinta óstundvísi, þar sem Rannveig bendir á að í fyrsta lagi hafi verið sveigjanlegur vinnutími í ráðningarsamningi hennar, hvergi hafi komið fram á hvaða tíma hún ætti að vinna auk þess sem tímaskráningar sýndu að hún var mætt í vinnuna kl. 7 á morgnana og vann 20-25 yfirvinnutíma á mánuði, en greidd yfirvinna voru 15 tímar.
Eftir áminninguna barst svo ásökun um einelti og andlegt ofbeldi gegn ákveðnu starfsfólki af hennar hendi, og var mannauðs- og ráðgjafafyrirtæki fengið til að gera úttekt á meintri ofbeldishegðun hennar.
„Hvað varðar ásakanir um meinta ofbeldishegðun mína, var keypt þjónusta hjá ráðgjafastofu til að gera úttekt á mér, hegðun minni og framkomu. Niðurstaða þeirrar skýrslu var bara mjög afgerandi mér í vil og ég var hreinsuð af öllum ásökunum um ofbeldi. Eftir að sveitarfélagið fær sína kynningu á niðurstöðunni er ákveðið að leggja stöðuna mína niður! Þau bera fyrir sig skipulagsbreytingar og hagræðingu en það er augljóst hvað var raunverulega í gangi.“
Skýrslan lá fyrir um miðjan apríl, áður en ákveðið var að leggja stöðu Rannveigar niður, en hún hefur ekki enn fengið hana í hendur, eingöngu fengið að vita niðurstöðurnar hvað sig varðar.
„Það er nú ein af ástæðunum fyrir því að ég vil ekki tjá mig meira eins og er. Ég er búin að að heyra niðurstöðuna, en ég er ekki komin með skýrsluna í hendur, sem ég þó á skýlausan rétt á samkvæmt persónuverndarlögum. Bæjarstjóri vísar í ráðgjafafyrirtækið sem vísar til baka í bæjarstjóra. Ég er bara ennþá að bíða,“ segir Rannveig.