Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir í pistli á Facebook það afar slæm tíðindi að moskítóflugur hafi fundist í fyrsta sinn á Íslandi. Segist Sigmundur Davíð raunar hafa verið stunginn síðastliðið föstudagskvöld af flugu sem líkst hafi moskítóflugu og telur því mögulegt að hann sé fyrsti maðurinn sem verði fyrir stungu þessarar flugnategundar, á Íslandi.
Sigmundur Davíð segir um fréttir dagsins af moskítóflugum á Íslandi:
„Þetta eru agaleg tíðindi. Enn eitt af því sem gerði Ísland svo gott að breytast til hins verra.“
Hann segist hafa orðið fyrir barðinu á moskítóflugum erlendis:
„Ég hef alveg sérstaka óbeit á moskítóflugum en það er því miður ekki gagnkvæmt því þær laðast mjög að mér. Í fyrra var ég ógöngufær um tíma og komst ekki í skó eftir kvöldstund með sænskum moskítóflugum (þær stungu léttilega í gegnum sokka og buxur).“
Enn komst Sigmundur Davíð í hann krappan síðastliðið föstudagskvöld þegar fluga fór að abbast upp á hann:
„Mér var því ekki skemmt þegar ég var að fara í háttinn að kvöldi síðastliðins föstudags og var áreittur af flugu sem settist þrisvar fyrir framan mig til að ögra mér. Ég náði henni ekki en hafði orð á því að hún liti út eins og moskítófluga. Næsta morgun vaknaði ég með fimm bit á sama bletti.“
Flugan er á bak og burt og því fæst ekki skorið úr tegundinni en Sigmundur Davíð veltir því fyrir sér hvort hann hafi orðið fyrir fyrstu stungu moskítóflugu á Íslandi:
„Það sannast ekki úr þessu en það væri óskemmtileg kaldhæðni örlaganna ef ég reyndist fyrsti maðurinn til að vera stunginn af moskítóflugu á Íslandi.“
Nokkuð líflegar umræður eru í athugasemdum við færslu Sigmundar Davíðs. Sumar eru nokkuð alvarlegar og þar er bent á að líklegur sökudólgur séu skip sem komið hafi til hafnar á Grundartanga en eins og í þessu tilfelli hafi lúsmý fyrst fundist í Hvalfirði. Sumir standast þó ekki mátið og gera grín að Sigmundi Davíð. Hallgrímur Helgason rithöfundur skrifar til að mynda:
„Afleiðing umræðunnar um ESB aðild… bara byrjunin.“
Tvær konur setja síðan í sínum athugasemdum þessa færslu í samhengi við pólitískar áherslur Sigmundar Davíðs:
„Já, en ekki gleyma öllum tækifærunum fyrir Ísland til að græða, vegna hlýnunar jarðar.“
„Þær sjá hvað þú ert viðkvæmur fyrir útlendingum.“