Boðaðar breytingar á reglum um ökuskírteini þýða í rauna að allir íslenskir bændur munu þurfa að taka meirapróf. Kostnaðurinn getur numið 700 þúsund krónum.
Bændasamtök Íslands hafa skrifað umsögn varðandi breytinguna á reglugerð um ökuskírteini sem birt er á vef þeirra, bondi.is. Segja samtökin ljóst að allir bændur og þeir sem starfa við landbúnað munu þurfa að taka meirapróf gangi reglurnar eftir.
Meirapróf er bæði bóklegt og verklegt nám, allt að 82 klukkustundir hið bóklega og 19 hið verklega. Beinn kostnaður til að afla réttindanna getur numið allt að 700 þúsund krónum.
Benda samtökin á að auk kostnaðarins hjá viðurkenndum aðila þá fellur annar kostnaður beint á bændur umfram aðrar atvinnugreinar. Það er að óumflýjanlegt sé að bændur muni þurfa að fá afleysingu í sínum bústörfum vegna námsins. Getur slíkur kostnaður numið verulegum fjárhæðum.
„Verði drögin samþykkt mun frumnámskeið til vinnuvélaréttinda ekki nægja nemendum sem eru við það að hefja verknám í búfræði. Þá geta nemendur ekki hafið verknám fyrr en ýmist við 18 ára eða 21 árs aldur – í stað 16 ára aldurs eins og núverandi reglur kveða á um,“ segir á vef samtakanna. „Breytingarnar kveða því á um verulega íþyngjandi kostnað fyrir þá sem starfa eða nema við landbúnað. Bændasamtök Íslands mótmæla boðuðum breytinga harðlega í umsögn.“