Almennt er talað um að ytri áföll sem hafa áhrif á rekstur banka verði á 10-20 ára fresti. Það var því mjög óvenjulegt að fá þrjú áföll á þriggja ára tímabili, þegar Covid reið yfir, eldsumbrot og rýming Grindavíkur og svo stríð. Þessi tími hefur því verið mjög krefjandi. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Benedikt Gíslason - 2
Benedikt starfaði hjá Straumi í hruninu og upp úr því, en Straumur féll síðar en hinir bankarnir, eða í mars 2009. Þá fór hann til starfa hjá slitabúinu við að reyna að koma Straumi aftur á fætur, sem tókst og í dag er Straumur eitt af fyrirtækjunum sem mynda Kviku, Þar kom að Straumur varð aftur fjárfestingabanki.
„Þá hafði ég skipt um starfsvettvang og farið að vinna fyrir MP banka eftir að Skúli Mogensen og fleiri fjárfestar komu inn með nýtt hlutafé. MP banki hafði í rauninni farið í gegnum allan þennan ólgusjó án þess að skila bankaleyfinu eða skella í lás. Þaðan fer ég síðan eftir svona tveggja ára starf að vinna fyrir stjórnvöld og verð í raun verktaki fyrir fjármálaráðuneytið í að leysa fjármagnshöft og ég vinn í því í tvö ár, starfa í tveimur hópum. Seinni hópurinn er framkvæmdahópur sem að vann markvisst að því að losa um þessi höft og ganga frá nauðasamningum við kröfuhafa.“
Þessum frægu samningum.
„Já, sem skiluðu auðvitað töluvert miklum fjárhagslegum ávinningi inn í ríkissjóð, en fyrst og fremst gerðu það kleift að það var hægt að losa um fjármagnshöftin hratt án þess að gengi krónunnar félli og koma af rauninni bara á eðlilegum viðskiptum aftur sem voru ekki til staðar. Það snerust, allir viðskiptafundir um það hvað mætti innan þessara hafta og hvernig væri hægt að tryggja það ef erlendir fjárfestar kæmu hérna þá gætu þeir tekið peningana út aftur og svo framvegis. Þetta var mjög óskilvirkt og við höfum náttúrlega áratuga reynslu af höftum á Íslandi.“
Má segja að við séum enn í höftum? Ég meina, lífeyrissjóðirnir eru í höftum.
„Já, að vissu leyti. Þeir hafa reyndar fjárfestingarheimildir nokkuð rúmar.“
Jú, jú. En er það ekki, það er í kringum 50 prósent sem þeir mega vera með?
„Ja, það er að hækka um 1,5 prósent á ári og held að enginn þessara sjóða sé nálægt því marki og þeir geta í rauninni fjárfest eins og þeir vilja erlendis. Eftir þessa vinnu fór ég að vinna fyrir Kaupþing. Ég varð stjórnarmaður í Kaupþingi og ráðgjafi í söluferlinu á Arion banka og tek þátt í undirbúningi skráningar Arion banka á hlutabréfamarkað sem klárast í júní 2018 og tek sæti í stjórn þá um haustið, ef ég man rétt, sem háður stjórnarmaður af því að Kaupþing var áfram stærsti hluthafinn en hafði það markmið að selja sig á endanum út og koma á eðlilegu eignarhaldi.“
Svo gerist það að Höskuldur Ólafsson, sem hafði verið bankastjóri Kaupþings, hættir í mars eða apríl 2019. „Fljótlega í ráðningarferlinu ákveð ég að sækja um, tilkynni stjórnarformanni, Brynjólfi Bjarnasyni, það og auðvitað stíg úr stjórninni þegar kom að þessum ákvörðunum. og það var gengið frá ráðningu minni seint í júní og ég byrjaði 1. júlí, sem er stofndagur Búnaðarbankans, ég komst seinna að því. 1. júlí 1930 var Búnaðarbankinn settur á laggirnar.“
Já, Búnaðarbankinn er náttúrulega einn af forverunum. Þetta er árið 2019. Já. Síðan eru liðin sex ár. Það er nú aldrei þannig að það sé alltaf bara lygn sjór á Íslandi. Það var reyndar ekkert séríslenskt þetta Covid. Þetta var náttúrlega alheimsfaraldur.
„Nei, nei. Og stríð.“
Og stríð. Og jarðhræringar.
„Jarðhræringar sem er séríslenskt, eldsumbrot.“
Það var alveg okkar. Þetta er jafnvægislist, er það ekki, að stýra banka?
„Jú, jú, það er það og ég held að það sé kannski dálítið óvanalegt að fá einmitt svona þrjá stóra atburði á svona stuttum tíma. Kannski í bankarekstri, þá er talað um svona ytri áföll sem að hafa verið, að geta haft veruleg áhrif á rekstur, sem gerist kannski 10 eða 20 ára fresti. Þannig að þetta er búið að vera dálítið óvenjulegur tími.“
Þetta er bara ár eftir ár eftir ár.
„En auðvitað hefur leyst vel úr þessu og þar verður náttúrlega að þakka ríkissjóði og ríkinu fyrir hvernig, og eins og var gert svo sem annars staðar á Vesturlöndum. Það var verulegur ríkisstuðningur við hagkerfið sem í rauninni tryggði rekstur fyrirtækja og heimila í gegnum þennan tíma.
Já, ef það hefði ekki komið til er nokkuð ljóst að það hefði ansi mikið fallið í fang bankanna.
„Klárlega.“
Og það má segja það náttúrlega um bæði, bæði Covid og auðvitað Grindavík.
„Já, já, það er rétt. Þar stígur ríkið mjög öflugt inn og tryggir í rauninni tækifæri fólks til þess að finna sér húsnæði annars staðar án þess að bera af því fjárhagslegt tjón.“
Má ekki bara segja að ríkið hafi ákveðið að stíga inn sem nokkurs konar tryggingafélag?
„Jú, nákvæmlega. Já, það er vel orðað.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.