Einstaklingar sem hafa verið virkir í starfi Sósíalistaflokks Íslands gagnrýna harðlega að hægrimanninum Þórarni Hjartarsyni, stjórnanda hlaðvarpsins Ein pæling, hafi verið boðið í fréttatíma Samstöðvarinnar í gærkvöldi. Vilja þeir meina að sjónarmið manns eins og Þórarins eigi ekki heima á Samstöðinni. Ingólfur Gíslason lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, sem verið hefur mjög áberandi, í mótmælum til stuðnings Palestínumönnum hefur sagt áskrift sinni að Samstöðinni upp en Þórarinn hafði kallað eftir því að Ingólfi yrði sagt upp störfum.
Í fréttatíma Samstöðvarinnar eru fréttir dagsins ræddar og greindar. Þórarinn var gestur í gærkvöldi og ræddi helstu fréttamál við fréttamenn Samstöðvarinnar. Björn Þorláksson, fréttamaður á stöðinni, segir á Facebook um komu Þórarins:
„Það voru ansi beitt skoðanaskipti og hreinlega læti á köflum í beinni á Samstöðinni í kvöld! Og beinar fótboltalýsingar. Við Rauða borðið getur allt gerst! Mér fannst gaman.“
Þórarinn Hjartarson er yfirlýstur hægrimaður og varpar reglulega fram slíkum sjónarmiðum í hlaðvarpi sínu. Samstöðin er hins vegar eins og kunnugt er fjölmiðill sem heldur á lofti sósíalískum sjónarmiðum. Á báðum vettvöngum hafa þó verið gestir sem eru ekki sammála umsjónarmönnum og Þórarinn er ekki fyrsti hægrimaðurinn sem er gestur á Samstöðinni.
Áðurnefndur Ingólfur Gíslason fór framarlega í flokki þegar mótmælendur komu í veg að ísraelskur fræðimaður héldi fyrirlestur í Þjóðminjasafninu, í ágúst síðastliðnum.
Þórarinn var meðal þeirra sem gagnrýndu Ingólf harkalega fyrir hans þátt í þessu. Hann skrifaði meðal annars á Facebook:
„HÍ setur sig í ruslflokk ef þessi „kennari“ verður ekki rekinn.“
Þórarinn gerði síðan sérstakan þátt, fyrir hlaðvarpið sitt, þar sem hann tók sérstaklega fyrir störf Ingólfs.
Ingólfur segir í færslu á Facebook að hann hafi sagt upp áskrift sinni að Samstöðinni eftir að Þórarinn var þar gestur í gærkvöldi:
„Þá er ég búinn að segja upp mínum mánaðarlega stuðningi við Samstöðina. Ástæðan er að hún hefur boðið í settið hlaðvarparanum sem hefur dælt út úr sér rætnum atvinnurógi og persónulegu níði um mig á sínu hlaðvarpi og í viðtali við Bylgjuna og reynt að þrýsta á um að ég missti vinnuna. Spara þá 5 þúsund kall á mánuði.“
Einstaklingar sem hafa verið virkir í starfsemi Sósíalistaflokksins en tilheyra þeim armi flokksins sem lenti upp á kant við Gunnar Smára Egilsson, helsta forvígismann Samstöðvarinnar og fyrrum formann framkvæmdastjórnar flokksins, skrifa í athugasemdum við færslu Ingólfs að það sé ótækt að Þórarni hafi verið boðið á stöðina sem hafi upphaflega ekki átt að vera opin fyrir sjónarmiðum eins og hann haldi á lofti.
Andri Sigurðsson skrifar:
Óskar Steinn Gestsson er á sömu skoðun:
„Ég man aðalfundinn þegar Samstöðin var kynnt, þá átti þetta að verða alþýðusjónvarp byggt á róttækri verkalýðsbaráttu, þetta var á þeim tíma sem Smárinn reyndi að hoppa á Sólveigar vagninn en allir sem þekkja hann lengur en þrjá mánuði sjá að hann hoppar á þá vagna sem fleyta honum áfram og ef hann þarf að sparka einhverjum af vagninum svo hann sjálfur haldist uppi þá hikar hann ekki sekúndubrot.“
Sara Stef Hildardóttir sem tilheyrir þeim armi Sósíalistaflokksins sem styður Gunnar Smára og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita flokksins í borgarstjórn, var einnig í fréttatímanum á Samstöðinni í gærkvöldi og færir í athugasemd rök fyrir því af hverju réttlætanlegt hafi verið að bjóða Þórarni:
„Þessi hægrisinnaði hlaðvarpsmaður er með stórt platform þar sem hann er svo sannarlega með dreifingu en enga gagnrýni. Skoðanir hans („mér finnst-skoðanir“) voru gagnrýndar í hvert sinn í þessum stutta fréttaþætti fyrir nú utan að þessi stöð er ekki hans platform-áhangendur hans horfa hvorki né hlusta á Samstöðina en með þessu fá áhorfendur og hlustendur Samstöðvarinnar ávæning af því sem er að gerast á hægrinu. Það hefur lítið upp á sig tala bara við þá sem við erum sammála eða hvað. … Það er ekki skrýtið að vinstrið brotni alltaf svona upp þegar viðbrögðin eru svona við óumflýjanlegri umræðu. Hvernig á annars að stunda gagnrýni eða lýðræði? Mér finnst vegið ómaklega að Samstöðinni hér.“
Óskar Steinn tekur ekki undir að skoðanir Þórarins hafi verið gagnrýndar og afhjúpaðar í þættinum:
„Fyrir utan að það er engin afhjúpun heldur er skoðunum hans gefið gildi með drottningarviðtali.“
Ingólfur segist ekki vera á móti því almennt að hægrimenn fái að koma á Samstöðina en að það eigi ekki við um Þórarinn:
„En ég dreg mörkin við fólk sem hefur ekkert fram að færa nema heimsku og hatur. Og reynir að láta reka fólk.“