fbpx
Mánudagur 13.október 2025
Fréttir

Áminning Ómars stendur óhögguð – Ofrukkaði skjólstæðing og hringdi í pabba hennar þegar hún hætti að svara honum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 10. október 2025 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áminning sem úrskurðarnefnd lögmanna veitti lögmanninum Ómari R. Valdimarssyni þann 3. desember 2024, stendur óhögguð eftir að málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Þar þurfti Ómar að stefna fyrrum skjólstæðingi sínum, sem hafði kvartað undan honum til úrskurðarnefndarinnar, fyrir dóm til að freista þess að fá áminninguna fellda úr gildi. Úrskurðarnefndin er nefnilega sjálfstæð og því þurfa lögmenn að fara þessa leið að lögum til að leita réttar síns vegna úrskurða hennar.

Hringdi í pabba hennar

Þetta tiltekna mál á sér þó nokkurn aðdraganda, en kona hafði fengið Ómar til að gæta hagsmuna sinna í forsjármáli. Áður en málinu lauk skipti konan þó um lögmann, enda fannst henni Ómar hafa þvert brotið allar kurteisisvenjur þegar hann hótaði að segja sig frá málinu skömmu fyrir aðalmeðferð nema hún myndi greiða 1.000.000 krónur. Konunni þótti hann líka í heildina hafa reiknað sér heldur rausnarlegt endurgjald fyrir þjónustu sína, einkum í ljósi þess að hann kláraði ekki einu sinni málið.

Hún leitaði því til úrskurðarnefndar sem tók undir með henni að endurgjaldið væri of hátt. Hæfilegt endurgjald væri 2.480.000 krónur og gerði nefndin Ómari að endurgreiða konunni 2.172.821 krónu.

Konan leitaði svo aftur til úrskurðarnefndarinnar og kvartaði undan hegðun Ómars. Lýsti hún því svo að hann hafi verið síhringjandi í hana eftir að fyrri kvörtunin var lögð fram og upplifði hún þrýsting á að falla frá kvörtuninni. Eins hafi Ómar og einhver á hans vegum haft samband við föður hennar til að reyna að ná tali af henni. Þar með hafi Ómar upplýst föður hennar um að hún hafi verið með lögmann á mála og að hún stæði í málsrekstri fyrir dómi. Þetta væri brot gegn þagnarskyldu lögmanna. Eins hefði Ómar komið sér í samband við aðila sem þekkir vel til hans og lítillega til konunnar, sem sagt sameiginlega kunningjakonu, og reynt að fá hana til að koma skilaboðum áleiðis. Fyrir þetta var Ómar áminntur.

Nefndarmenn í beinni samkeppni við Ómar

Ómar sætti sig ekki við áminninguna og fór með málið fyrir Héraðsdóm. Meðal annars hélt hann því fram að konan hefði notið góðs af því að úrskurðarnefndin hafi gengið alltof langt í að veita konunni leiðbeiningar. Vissulega beri aðilum innan stjórnsýslunnar að sinna leiðbeiningarskyldu en það séu þó takmörk. Nefndin hafi gefið konunni ítarlegar leiðbeiningar um hvaða gögn hún ætti að leggja fram. Þó að það komi ekki berum orðum fram í dómi Héraðsdóms má ætla að Ómar haldi því fram að konan hafi bara haft betur fyrir úrskurðarnefndinni því hún fékk aðstoð frá nefndinni sjálfri við að leggja málið fram.

Hvað varðaði framkomu sína vildi Ómar meina að hann hafi komið eðlilega fram. Hann hafi aðeins haft samband við föður hennar og sameiginlega kunningjakonu til að koma skilaboðum áleiðis um að hann væri að reyna að ná í konuna. Hann hafi ekkert sagt um hvers eðlis þeirra viðskiptasamband væri.

Ómar setti svo spurningarmerki við getu úrskurðarnefndarinnar til að áminna lögmenn yfirhöfuð. Nefndarmenn séu starfandi lögmenn í beinni samkeppni við aðra lögmenn eins og Ómar. Fór hann fram á að nefndarmenn vikju sæti við meðferð málsins en á það var ekki fallist.

Vítavert skeytingarleysi

Konan gerði athugasemd við að þurfa að taka til varna í málinu, enda ætti það að beinast að nefndinni sjálfri. Hún ítrekaði það sem fram kom í kvörtunum hennar til nefndarinnar og í úrskurðum nefndarinnar sjálfrar. Ómar hafi brotið þagnarskyldu þegar hann hafði samband við óviðkomandi, föður hennar og kunningjakonu. Skipti þá engu hvort hann hafi upplýst um hvers vegna hún hefði ráðið sér lögmann. Hann hefði engu að síður komið því á framfæri að hún hefði fengið sér lögmann og það eitt og sér hefði brotið þagnarskylduna.

Eins gerði hún athugasemd við að Ómar hafi hótað að segja sig frá máli hennar skömmu fyrir aðalmeðferð í máli sem varðaði hagsmuni barns og þar sem hann vissi þegar að hún hafði takmörkuð fjárráð, enda hafi hann hjálpað henni að sækja um gjafsókn. Þetta hafi verið vítavert skeytingarleysi.

Hún bætti svo við að fyrir Héraðsdómi hafi Ómar afhent lögmanni hennar 729 blaðsíðna gagnapakka, ekki sundurliðaðan með nokkrum hætti og þar sem sum gögn virðast hafa verið lögð fram tvisvar eða oftar. Þessi gögn hafi Ómar svo notað takmarkað í málinu. Konan taldi að þetta gæti varla staðist lög um meðferð einkamála.

Dómari tók undir með úrskurðarnefndinni og þótti verðskuldað að endurgjald Ómars var lækkað. Eins hafi nefndin ekki gengið of langt í að sinna leiðbeiningarskyldu. Dómari tók svo sérstaklega fram að Ómar hafi veitt nefndinni rangar upplýsingar. Hann þóttist eiga í virku sáttasamtali við konuna bara til að kaupa sér tíma til að leggja fram greinargerð. Hið rétta hafi verið að konan svaraði engum símtölum frá honum. Faðir konunnar bar vitni fyrir dómi og tók fram að Ómar hafi verið mjög ýtinn. Kunningjakonan lýsti því einnig að hún þekki Ómar vel en varla þekki konuna. Dómara þótti þetta ekki eðlileg framkoma.

Áminningin stendur því óhögguð.

Óteljandi áminningar

Þetta er ekki fyrsta áminning Ómars en úrskurðarnefndin áminnti hann á síðasta ári vegna tölvupósta sem hann sendi dómara og dómstjóra við Héraðsdómur Reykjavíkur og 26 kollegum sínum. Þar kvartaði hann undan því að dómari hefði ákvarðað of lága málsvarnarþóknun. Héraðsdómur Reykjavíkur neitaði í sumar að fella þá áminningu úr gildi.

Sjá einnig: Ómar áminntur af úrskurðarnefnd lögmanna – Spurði dómara hvaða starfsmann hann ætti að reka

Ómar hefur átt í stormasömu sambandi við úrskurðarnefndina undanfarin ár og í október á síðasta ári skrifaði hann harðorða grein þar sem hann kallaði nefndina Úrskurðargraut lögmanna og tók fram að áminningarnar sem hann hafi hlotið séu orðnar fleiri en hann geti talið.

Sjá einnig: Ómar segist aðeins vera götulögmaður og hraunar yfir „úrskurðargraut lögmanna“ og „fínilögmennina“ – „Það liggur bara við að ég fari að gráta“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Villi Birgis eys Kristján Loftsson lofi – „Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag“

Villi Birgis eys Kristján Loftsson lofi – „Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag“
Fréttir
Í gær

Fékk símann aldrei til baka úr viðgerð en var allt of seinn að gera eitthvað í því

Fékk símann aldrei til baka úr viðgerð en var allt of seinn að gera eitthvað í því
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Ég hef ekkert sérstaklega vinsælar skoðanir en ég reyni að setja það í grínbúning“

„Ég hef ekkert sérstaklega vinsælar skoðanir en ég reyni að setja það í grínbúning“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2025 – Jafnrétti er ákvörðun

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2025 – Jafnrétti er ákvörðun