Fjölskylda bresku stúlkunnar Madeleine McCann sem hvarf í fjölskylduferð í Portúgal árið 2007 var í um þrjú ár ofsótt af eltihrelli, konu sem segist vera Madeleine. Bréf sem hún sendi þeim hefur nú verið opinberað en þar kallaði hún meðal annars móður Madeleine, Kate, mömmu og fullyrti að hún viti full vel að konan sé dóttir hennar.
Umrædd kona er pólsk og heitir Julia Wandelt og er 24 ára gömul en Madeleine fæddist í maí árið 2003 og væri því í dag 22 ára. Réttarhöld standa yfir í Bretlandi í máli Wandelt og 61 árs gamallar breskrar konu, Karen Spragg, sem sökuð er um þátttöku í umsáturseineltinu.
Fram kemur í umfjöllun Daily Mail að Wandelt hafi einkum beint sjónum sínum að Kate McCann en þó einnig reynt að hafa samband við systkini Madeleine. Í réttarhöldunum kom fram að Wandelt og Spragg hafi bankað upp á á heimili fjölskyldunnar á síðasta ári en þegar þeim hafi verið vísað burt hafi Wandelt skrifað Kate bréf og sent henni. Mun bréfið hafa komið Kate í mikið uppnám en þar stóð meðal annars:
„Kæra mamma (Kate), mér þykir mjög leitt að hafa komið þér í svona mikið uppnám en þegar ég hitti þig í gær voru tilfinningar mínar svo sterkar. Ég fann fyrir nánum tengslum við þig og finnst ekki gott að sjá þig í uppnámi.“
Sagði Wandelt í bréfinu að hún hefði safnað að sér umfangsmiklum gögnum til að sanna mál sitt og að Kate vissi nákvæmlega hver hún væri. Undirritaði hún bréfið með nafninu Madeleine.
Við réttarhöldin, í dag, báru Kate og maður hennar og faðir Madeleine, Gerry, vitni og sögðu að Wandelt væri sannarlega ekki dóttir þeirra. Eftir vitnisburð Kate öskraði Wandelt hástöfum á hana og spurði af hverju hún væri að gera sér þetta og var þá leidd út úr dómssalnum.
Gerry sagði tárvotur að þau hjónin vonuðust enn til að Madeleine væri á lífi og þau myndu aftur sjá hana. Segir hann að hegðun Wandelot torveldi leitina að Madeleine.
Málið hefur vakið, allt frá því að Madeleine hvarf úr íbúð sem fjölskyldan dvaldi í þegar hún var í fríi í Portúgal árið 2007, heimsathygli. Sagði Gerry að málið hafi allan þennan tíma reynt mikið á fjölskylduna. Ljót og ósönn orð í þeirra garð hafi reglulega birst á samfélagsmiðlum og þau hjónin hafi mikið reynt að vernda yngri systkini Madeleine, tvíburana, Sean og Amelie. Þau vilji ekki vera í sviðsljósinu og kjósi að lifa lífinu á eigin forsendum og ekki vera eingöngu þekkt sem systkini Madeleine.
Wandelt hringdi einnig stöðugt á heimilið og sagðist Gerry hafa loks krafist þess að hún hætti því.
Aðspurð um áhrif bréfsins á hana sagði Kate að það hafi reynst sér mjög erfitt að lesa ávarpið „kæra mamma“ þar sem hún þráði að heyra Madeleine kalla sig þetta aftur.
Segir Gerry að eftir að Wandelt reyndi að hafa samband við Amelie hafi hjónin loks fengið nóg og haft samband við sérstakan hóp innan lögreglunnar í Bretlandi sem hefur hvarf Madeleine til rannsóknar.
Kate viðurkenndi þó fyrir dómi að hún hafi hugleitt að verða við beiðni sem henni barst, með talskilaboðum frá Wandelt, um DNA-rannsókn í þeirri von að losna loksins við hana. Hún sagði að Spragg hefði gengið harðar fram en Wandelt þegar þær hafi bankað upp á en játaði því að hafa ekki óttast að þeir myndu vinna henni mein. Sagðist Kate hafa tekið það skýrt fram að hún vildi að þær færu og að hún hafi síðan þá verið með mikinn kvíða vegna hegðunar Wandelt og Spragg en hafi róast loks eftir handtöku þeirrar fyrrnefndu.
McCann og Wandelt eru einnig sakaðar um að hafa rætt það að stela úr rusli McCann hjónanna til að nýta til DNA-rannsóknar.
Ofsóknir Wandelt og Spragg stóðu yfir frá því í júlí 2022 og fram í febrúar á þessu ári þegar sú fyrrnefnda var handtekinn. Réttarhöldin munu halda áfram en báðar konurnar lýsa sig saklausar af ákærum um umsáturseinelti.