Kanadískur skemmtigarður vill endilega losna við 30 mjaldra í sinni eigu. Hóta forsvarsmenn hans að slátra þeim öllum en áður höfðu kanadísk stjórnvöld komið í veg fyrir flutning dýranna til Kína.
Garðurinn heitir Marineland og er í Ontario héraði. Í umfjöllun BBC kemur fram að ætlunin hafi verið að senda dýrin í sambærilegan garð í Zhuhai í Kína. Kanadíski garðurinn hefur glímt við fjárhagserfiðleika og ásakanir um að hann gæti ekki að dýravelferð.
Kanadísk stjórnvöld sögðu að í Kína myndu dýrin standa frammi fyrir sams konar meðferð og vera nýtt til skemmtana. Óskaði garðurinn þá eftir styrk frá stjórnvöldum til að fjármagna umönnun mjaldranna en því var hafnað.
Starfsemi Marineland verður hætt og forsvarsmenn garðsins segja engan annan valkost eftir en að láta svæfa mjaldranna svefninum langa. Ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi verið tjáð að reksturinn væri kominn í þrot og garðurinn hafi einfaldlega ekki efni á að sjá um mjaldrana.
Stjórnvöld segja hins vegar að þeim beri engin skylda til að greiða þennan kostnað þótt að forsvarsmenn Marineland hafi ekki getað ný heimili fyrir mjaldrana sem séu viðunandi. Beiðninni um flutningana til Kína hafi verið hafnað á grundvelli laga frá 2019 um að bannað sé að nota hvali og höfrunga í afþreyingarskyni.
Marineland hefur verið undir smásjá yfirvalda í Kanada síðan 2020 en þá var hafin rannsókn eftir að í ljós kom að 12 hvalir höfðu drepist í garðinum á tveimur árum. Frá 2019 hafa 20 hvalir drepist þar.
Gestum í garðinum hefur fækkað mjög með tilheyrandi tekjutapi. Garðinum tókst að veðsetja sína eigin landareign og nota það fjármagn til að flytja dýrin á meðan leitað var að kaupendum.
Dýraverndarsamtök segja hótanir forsvarsmanna garðsins um slátra mjöldrunum fyrirlitlegar og hvetja yfirvöld í Manitoba til að leggja hald á dýrin til að forða þeim frá dauða.