Þremenningarnir greindu svokallaðar bælifrumur (e. regulatory T cells), frumur sem gegna því lykilhlutverki að halda ónæmiskerfi okkar í jafnvægi og koma í veg fyrir sjálfsofnæmissjúkdóma.
Í tilkynningu nefndarinnar er rifjað upp að rannsóknir Sakaguchi á tíunda áratug liðinnar aldar hafi sýnt að ónæmiskerfið byggir ekki eingöngu á því að eyða hættulegum frumum, heldur einnig á virku eftirliti af hálfu sérstakra frumna sem bæla ónæmissvörun þegar þess þarf.
Síðar, árið 2001, fundu Brunkow og Ramsdell genið Foxp3, sem stjórnar starfsemi þessara frumna. Stökkbreytingar í þessu tiltekna geni geta valdið alvarlegum sjálfsofnæmissjúkdómum, bæði í mönnum og dýrum.
Að sögn Nóbelsverðlaunanefndarinnar hefur samspil þessara uppgötvana opnað nýja möguleika í læknisfræði. Þekkingin er nú notuð við þróun nýrra meðferða gegn krabbameini og sjálfsofnæmissjúkdómum, en þar að auki gæti hún skilað betri árangri þegar kemur að líffæraígræðslum.
„Uppgötvanir þeirra hafa verið lykilatriði í að skilja hvernig ónæmiskerfið forðast að ráðast á sjálfan líkamann,“ sagði Olle Kämpe, formaður Nóbelsnefndarinnar, við tilkynninguna í dag.