fbpx
Sunnudagur 05.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Er ekki bara komið nóg af Framsókn?

Eyjan
Sunnudaginn 5. október 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, er með böggum hildar og segist vera orða vant vegna þess sem hann kallar „grímulausa aðför“ að landbúnaðinum í landinu. Tilefnið er frumvarp til breytinga á búvörulögum sem atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Það sem Sigurður finnur frumvarpinu helst til foráttu er að í því er dregið úr undanþágu afurðastöðva frá samkeppnislögum sem atvinnuveganefnd setti inn á síðasta ári og kennd hefur verið við Kaupfélag Skagfirðinga, enda stökk KS til og keypti Kjarnafæði-Norðlenska um leið og undanþágan var lögfest og orðið á götunni er að ríkisstjórnarmeirihlutinn í atvinnuveganefnd hafi beinlínis gengið erinda KS er stjórnarfrumvarpi var gerbreytt í þágu kaupfélagsins í nefnd milli 2. og 3. umræðu.

Orðið á götunni er að það skjóti skökku við að Sigurður Ingi skuli trompast með þessum hætti þegar breytingarnar sem hann setur sig upp á móti snúast um það að breyta búvörulögunum til þess horfs sem upphaflegt stjórnarfrumvarp gerði ráð fyrir – stjórnarfrumvarp frá ríkisstjórninni sem Sigurður Ingi sat í.

Nú verður dregið úr undanþágunni, sem afurðastöðvar hafa frá samkeppnislögum og mun hún einungis ná til fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu og undir stjórn bænda. Þetta er í samræmi við frumvarpið sem ríkisstjórnin sem Sigurður sat í lagði fram. Einnig verður lagt til að ákvæði um heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að sameinast verði fellt á brott.

Orðið á götunni er að þetta upphlaup Sigurðar Inga sé í besta falli kjánalegt. Hvaða aðför felst í því að öflugar greinar milliliða, milli framleiðenda og neytenda, skuli þurfa að lúta eftirliti Samkeppnisyfirvalda – rétt eins og aðrar atvinnugreinar? Það er þá meiri aðförin!

Orðið á götunni er að nær væri að horfa vel á það hvers vegna ríkisstjórnin sem Sigurður Ingi sat í gerði breytingar á búvörulögum á síðasta ári beinlínis til þess að Kaupfélag Skagfirðinga gæti sölsað undir sig Kjarnafæði-Norðlenska og þannig rutt úr vegi allri samkeppni í greininni á Norðurlandi. Samkeppniseftirlitið hefði aldrei samþykkt þau kaup. Ekkert mál, þá bara tók Sigurður Ingi & co. Samkeppniseftirlitið út úr leiknum. Kjósendur gáfu Sigurði Inga & co. einkunn fyrir m.a. þennan gjörning í kosningunum í nóvember og hreinlega ráku þá öfuga út úr stjórnarráðinu. Enginn virðist sakna þeirra!

Orðið á götunni er að undanþága Sigurðar Inga & co. frá samkeppnislögum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga hafi verið grímulaus aðför að neytendum á Íslandi. Neytendur, sem Framsóknarflokknum væri hollt að læra að eru líka kjósendur, sáu þetta og fengu að gefa sitt álit í kjörklefanum í nóvember – nokkuð sem Sigurður Ingi & co. hafa ekki enn áttað sig á eða sætt sig við.

Orðið á götunni er að Framsókn, sem gjarnan fær sérfræðinga til að litgreina frambjóðendur sína til að hægt sé að velja rétt bindi eða réttan klút fyrir frambjóðendur fyrir kosningaauglýsingarnar eða slengir út innihaldslausum slagorðum, ætti nú að láta fara fram greiningu á því hvers vegna flokknum var hafnað með öllu í kosningunum í nóvember. Það gæti mögulega forðað flokknum frá sömu örlögum og VG mætti í síðustu kosningum.

Orðið á götunni er að Sigurður Ingi & co. muni án efa fara í skotgrafirnar og berjast með öllum ráðum gegn því að búvörulögum verði breytt í þágu bænda og neytenda eins og atvinnuvegaráðherra leggur nú til. Gefi Þórólfur, kaupfélagsstjóri, skipunina mun Sigurður Ingi & co. – öll stjórnarandstaðan – leggjast í málþóf og tafaleiki fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. Stjórnarandstaðan hlýðir skilyrðislaust þegar Þórólfur og aðrir stórútgerðarmenn gefa út skipun. Engu máli skiptir hvort það snýst um að verja gjafakvótann eða gefa skotleyfi á neytendur almennt.

Orðið á götunni er ríflega aldarlöng saga Framsóknar sé mögulega fullskrifuð fái Sigurður Ingi áfram að beita flokknum gegn hagsmunum almennings á Íslandi. Þetta gekk í meira en hundrað ár en er ekki bara komið nóg af Framsókn?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Daði Már Kristófersson: Ábatinn meiri fyrir Ísland ef við göngum lengra í Evrópusamvinnunni

Daði Már Kristófersson: Ábatinn meiri fyrir Ísland ef við göngum lengra í Evrópusamvinnunni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Andri Snær gefur lítið fyrir boð Stefáns Einars – „Á ég að mæta í viðtal til að rangfærslurnar verði viral?“

Andri Snær gefur lítið fyrir boð Stefáns Einars – „Á ég að mæta í viðtal til að rangfærslurnar verði viral?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórkatla skilar 18 milljarða tapi – Endurskoðendur segja óvissu ríkja um rekstrarhæfi félagsins

Þórkatla skilar 18 milljarða tapi – Endurskoðendur segja óvissu ríkja um rekstrarhæfi félagsins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kristrún Frostadóttir á lista með Lamine Yamal og Becky G

Kristrún Frostadóttir á lista með Lamine Yamal og Becky G
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ólíkt hafast þeir að Guðmundur í Brim og Binni blanki

Orðið á götunni: Ólíkt hafast þeir að Guðmundur í Brim og Binni blanki
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Daði Már Kristófersson: Samsköttun hjóna vinnur gegn jöfnuði og nýtist fáum

Daði Már Kristófersson: Samsköttun hjóna vinnur gegn jöfnuði og nýtist fáum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásmundur Einar hættur í stjórnmálum

Ásmundur Einar hættur í stjórnmálum