fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Ráðgátan um síðasta geirfuglsparið loksins leyst – DNA rannsókn svaraði 180 ára spurningu

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 2. október 2025 19:30

DNA rannsókn var gerð á haminum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vísindamenn hafa komist að því hvar síðasti geirfuglsparið er niðurkomið, það er hamir síðasta karldýrsins og síðasta kvendýrsins. Þau eru ekki í sama landi, ekki einu sinni í sömu heimsálfu.

Sorglegur endir tegundar

Almennt er talið að tveir síðustu geirfuglarnir hafi verið drepnir í Eldey, suðvestur af landinu, þann 3. júní árið 1844. Segir að veiðimennirnir Jón Brandsson, Sigurður Ísleifsson og Ketill Ketilsson hafi sótt fuglana fyrir danskan náttúrugripasafnar að nafni Carl Siemsen. Sneru þeir fuglana og brutu eggin. Hefur tegundin verið útdauð síðan.

En hvað varð um þessa tvo fugla, karldýr og kvendýr, hefur verið ráðgáta í langan tíma. Apótekari í Reykjavík hamfletti fuglana og sendi líffærin til Kaupmannahafnar. En í um 180 var ekki vitað hvar hamirnir væru niðurkomnir eins og segir í nýútkominni vísindagrein í tímaritinu Zoological Journal of the Linnean Society.

Rofaði til árið 2017

Árið 2017 rofaði til þegar staðfest var að hamur annars fuglsins væri geymdur í Náttúrugripasafninu í Brussel. Tókst það með því að bera saman erfðaefni úr vélinda karldýrsins við fjóra hama, sem eru geymdir í Belgíu, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. En alls eru um 80 uppstoppaðir geirfuglar til í heiminum.

Á þeim tíma voru vísbendingar um hvar kvenfuglinn væri að finna, það er í borginni Cincinnati í Bandaríkjunum. Ýmislegt gaf það til kynna, svo sem pappírar úr uppboði, kvittanir, úrklippur úr dagblöðum, dagbókarfærslur og fleira. Nú hefur það fengist staðfest með rannsóknum á erfðaefni.

Sagan er sú að á áttunda áratug nítjándu aldar keypti breskur fuglaáhugamaður að nafni George Dawson Rowley báða hamina. Sonur hans erfði gripina en setti þá á uppboð árið 1934.

Uppboðshaldarinn ruglaðist

Annar breskur fuglaáhugamaður, Vivian Vaughan Davis Hewitt, keypti þá á uppboðinu en hann átti fyrir um 100 þúsund hami og uppstoppaða fugla sem og hátt í eina milljón fuglsegg. Eftir dauða hans var parið, ásamt tveimur öðrum geirfuglum, boðið upp í London árið 1974. Þar keypti Náttúrugripasafn Cincinnati einn haminn og eitt eggið á 25 þúsund dollara.

Hins vegar hefur komið í ljós að uppboðshaldarinn hefur ruglað saman gripum. Bandaríkjamennirnir töldu sig vera að kaupa síðasta karldýrið en í rauninni var þetta kvendýrið. Ekki er hægt að kyngreina geirfugla út frá hamnum einum saman.

Ráðgátan leyst

Eftir að ljóst var að síðasta karldýrið væri að finna í Brussel var ákveðið að gera rannsókn á haminum í Cincinnati. Nú hefur það verið staðfest að þetta sé síðasta kvendýrið og þar með er hin 180 ára ráðgáta leyst.

„Parið sem var drepið í Eldey í júní árið 1844 er einstakt og dauði þeirra er stór hluti af sögunni um endalok geirfuglsins,“ segir í rannsókninni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sameiningarviðræðum HA og Bifrastar slitið eftir um tveggja ára þreifingar

Sameiningarviðræðum HA og Bifrastar slitið eftir um tveggja ára þreifingar
Fréttir
Í gær

Stefán Einar hjólar í Bubba: „Hýenurnar vakna snemma“ – Býður Andra Snæ í þáttinn sinn

Stefán Einar hjólar í Bubba: „Hýenurnar vakna snemma“ – Býður Andra Snæ í þáttinn sinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hópi Norðlendinga ógnað með kindabyssu – Snerist snarlega til varnar

Hópi Norðlendinga ógnað með kindabyssu – Snerist snarlega til varnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Innbrot í snyrtistofu og hárgreiðslustofur – Lokaði gatnamótum með því að leggja bílnum

Innbrot í snyrtistofu og hárgreiðslustofur – Lokaði gatnamótum með því að leggja bílnum