fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Mikil óánægja meðal foreldra með Kópavogsmódelið – Saka bæjaryfirvöld um að fegra stöðuna

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. október 2025 14:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

BSRB, áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, segir nýja rannsókn sýna mikla óánægju meðal foreldra með svokallað Kópavogsmódel í leikskólamálum. Þetta kemur fram í frétt á vef samtakanna.

Viðtalsrannsóknin var unnin af Sunnu Símonardóttur, lektor við Háskólann á Akureyri, fyrir Vörðu Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins.

Kópavogsmódelið vísar til breytinga á leikskólakerfinu sem ráðist var í haustið 2023. Breytingin fólst í að sex tíma vistun er nú gjaldfrjáls í leikskólum bæjarins en vistun umfram það felur í sér meiri kostnað en áður. Margir viðmælendur rannsóknarinnar upplifa að þessi kerfisbreyting hafi fyrst og fremst verið gerð út frá fjárhagslegum hvötum Kópavogsbæjar og ekki með velferð barna, starfsfólks og foreldra að leiðarljósi.

Óánægja sé með fyrirkomulag skráningadaga og safnskóla en á skráningardögum þurfa foreldrar sérstaklega að skrá börnin sín, sem sækja ekki leikskóla eins og venjulega, heldur er safnað saman í tvo leikskóla í sveitarfélaginu sem eru opnir á þessum dögum. Margir foreldrar senda börnin sín ekki í leikskólann á þessum dögum nema í neyð og lýsa því að börnin upplifi streitu og óöryggi við að fara í ókunnugt umhverfi.

Kópavogsmódelið henti sérstaklega illa foreldrum sem eru í verri félagslegri- og efnahagslegri stöðu og auki bæði almennt og fjárhagslegt álag hjá þeim hópum. Módelið gangi út frá því að foreldrar hafi gott félagslegt bakland og sveigjanleika í starfi sem sé ekki raunveruleiki allra.

Viðmælendur  töluðu um að breytingarnar hefðu meiri áhrif á mæður en feður þar sem þær beri í meiri mæli ábyrgð á að bregðast við styttri vistunartíma. Eins lýstu foreldrar togstreitu vegna álags á ömmur sem hlaupa undir bagg með fjölskyldum vegna breytinganna. Eins lýstu foreldrar mikilli tímapressu og streitu við að samræma vinnu og fjölskyldulíf, en þessar breytingar hafi aukið á álagið. Foreldrar sem búa við sveigjanleika í vinnu finna samt sem áður fyrir auknu álagi.

Foreldrar telja bæinn hafa byrjað á vitlausum enda – þ.e. ráðist í breytingar meðal annars á grundvelli vinnutímastyttingar þó svo að slíkt sé ekki orðið að raunveruleika hjá stórum hluta vinnumarkaðarins. Foreldrar kvörtuðu einnig undan samráðsleysi og telja að sparnaðarmarkmið hafi ráðið för frekar en velferð bæjarbúa.

Kópavogsbær hafi lýst góðri reynslu af nýja módelinu með því að vísa í eigin skoðanakannanir. Foreldrar sem rætt var við gagnrýndu þetta sérstaklega. Spurningar í könnuninni hafi verið mjög leiðandi og allt sett upp gagngert til að fá jákvæðar niðurstöður. Bæjarfélagið hafi svo neitað að breyta könnuninni þrátt fyrir gagnrýnina.

„Ég held að þetta hafi alltaf byrjað sem leið til sparnaðar og svo fegrað með hvað er best fyrir börnin. Þannig eru bara bæjarfélögin rekin,“ sagði ein móðirin. Önnur sagði: „Þetta er ekkert annað en […] yfirhylming yfir að reyna að ná inn tekjum.“

Foreldrarnir tóku fram að leikskólastarfsmenn hafi ekki fengið hærri laun, en það sé forsendan fyrir því að halda í gott starfsfólk. Ný stefna um að forðast leikskólalokanir hafi leitt til þess að þegar mannekla sé til staðar séu börnin send út að leika frekar en að loka leikskólanum. Allnokkrir viðmælendur telja að Kópavogsbær sé að forðast lokanir með öllum tiltækum ráðum til að fegra stöðuna.

Viðmælendur telja útfærslu bæjarins stuðla að ójafnrétti og ýta undir félagslega mismunun.

Viðtalsrannsóknina má lesa hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Langflestir Evrópubúar telja að aðild hafi verið jákvæð – Jákvæðnin mest í norðurhluta álfunnar

Langflestir Evrópubúar telja að aðild hafi verið jákvæð – Jákvæðnin mest í norðurhluta álfunnar
Fréttir
Í gær

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“