Á síðasta fundi umhverfis og byggingarráðs Akureyrar var rætt um framkvæmdir við lagningu göngustígs á Glerárdal. Meirihlutinn segir úttekt Náttúruverndnarstofnunar sýna að vel hafi tekist til en minnihlutinn segir þvert á móti að gera verði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin og að Umhverfisstofnun hafi sýnt linkind við eftirlit með framkvæmdunum.
Í bókun meirihluta L-listans, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins kom fram að sérfræðingar Náttúruverndarstofnunar hefðu farið yfir framkvæmdina og niðurstaðan verið sú að við þessa stígagerð hafi í flestum tilfellum vel til tekist og muni allt rask gróa upp með tímanum. Með framkvæmdinni sé unnið að stíg sem hafi það meginmarkmið að bæta aðgengi sem flestra að svæðinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem eru í minnihluta í ráðinu, líta málið hins vegar gerólíkum augum. Þeir segja í sinni bókun að framkvæmdin hafi staðið undanfarin ár hefur Akureyrarbær. Frá upphafi hafi verið gengið fram með þeim hætti að það sé ekki hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin. Lítil virðing hafi verið borin fyrir ósnortinni náttúru Glerárdals og stígurinn verið gerður beinni og meira áberandi en ástæða sé til. Vilji og fyrirmæli umhverfis- og mannvirkjaráðs um stígagerðina hafi ítrekað verið virt að vettugi og brotið gegn skilmálum framkvæmdaleyfis nær samfellt á framkvæmdatímanum með ýmsum hætti, sérstaklega hvað varði breidd stígsins sjálfs og heimild til breiddar raskaðs svæðis við framkvæmdina.
Saka fulltrúarnir Umhverfisstofnun, sem um áramótin sameinaðist Orkustofnun, um eftirlitsleysi og linkind í málinu en stofnunin hafi þó ekki komið að málinu fyrr en skaðinn hafi verið skeður nú í haust.
Hvetur minnihlutinn stjórnendur Akureyrarbæjar til að fara kyrfilega yfir þetta mál til að læra af því og koma í veg fyrir að sömu vinnubrögð verði ástunduð á þeim kafla stígsins sem eftir sé að leggja af fram að skálanum Lamba. Gagnrýnir minnihlutinn einnig að ekki hafi verið orðið við beiðni þeirra um að leggja ýmis gögn málsins fyrir fundinn þar á meðal skoðunarskýrslu fulltrúa Náttúruverndarstofnunar.
Með fundargerð fundarins fylgja tvö skjöl. Annað er bréf forstöðumanns umhverfismála Akureyrabæjar til Náttúruverndarstofnunar þar sem er viðurkennt að við framkvæmdina hafi verið farið út fyrir veitt framkvæmdaleyfi. Fram kemur að víða sé breidd stígsins meiri en leyfið kveði á um. Það er hins vegar útskýrt með því að aðstæður á svæðinu séu um margt erfiðar. Það hafi reynst torsótt að eiga við brattlendi og votlendi á framkvæmdasvæðinu. Það sé að mati verktakans og bæjarins ekki þorandi að vera með mjórri gröfur vegna bratta og þar sem símasambandslaust sé inn á afrétt dalsins. Umsókn bæjarins um framkvæmdaleyfi hafi ekki endurspeglað nógu vel ástandið á svæðinu.
Segir einnig í bréfinu að önnur aðferð hafi verið notuð við gerð stígsins en lýst sé í framkvæmdaleyfinu. Hún felist í að allur gróður sem tekinn hafi verið upp hafi verið notaður í undirlag en enginn gróður tekinn til hliðar til að loka rofasárum. Þetta hafi skýrst einna helst af því að jarðvegurinn sé laus í sér og rifni í sundur við gröft. Beint verði til verktaka að taka gróður sem hægt sé að ná ofan af stígnum til að fylla í jaðra hans.
Einnig kemur fram í bréfinu að grófari malarsalli hafi verið notaður en leyfið kvað á um en það hafi reynst nauðsynlegt það sem sallinn hafi horfið fljótt ofan í jarðveginn. Segir í bréfinu að allt rask vegna stígsins muni gróa. Tilkynna hafi átt stofnuninni að raskið yrði meira en áætlað var. Er þess óskað að lokum að Náttúruverndarstofnun heimili frávik frá þeirri breidd stígsins sem framkvæmaleyfið heimili.
Svar Náttúruverndarstofnunar er einnig birt með fundargerðinni. Stofnunin heimilar þau frávik frá breidd stígsins sem bærinn óskaði eftir að yrðu leyfð og telur skýringar bæjarins fullnægjandi. Áréttað er þó mikilvægi þess að framkvæmdaaðili fylgi skilyrðum útgefins starfsleyfis í hvívetna og upplýsi stofnunina um frávik.