fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Sigþór svartsýnn og ómyrkur í máli: „Það eru því allar líkur á því að ástand vegakerfisins muni versna áfram“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. október 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland, segir allt benda til þess að ástand vegakerfisins hér á landi muni halda áfram að versna á næstu árum.

Sigþór hefur skrifað mikið um vegakerfið undanfarin misseri og í grein á Vísi í febrúar síðastliðnum sagði hann að vegakerfið væri að hruni komið þar sem sárlega vantar fé til að viðhalda því.

Í grein sem birtist á vef Vísis í morgun ítrekar hann þessar áhyggjur sínar og segir að viðhaldsskuldin sem safnast hefur upp frá hruni sé metin á 250 til 300 milljarða króna á núvirði.

Sjá einnig: Sigþór með skilaboð til reiða fólksins:„Forgangsröðunin verður að breytast núna ef ekki á illa að fara“

Erfitt gæti orðið að snúa þróuninni við

„Hefði eðlilegu viðhaldi og endurbótum verið sinnt eins og vera ber síðustu tvo áratugina væri upphæðin töluvert lægri. Þess í stað hafa vegirnir versnað verulega á sama tíma og útlit er fyrir að erfiðlega geti gengið að snúa þeirri þróun við,“ segir Sigþór.

Hann segir engum vafa undirorpið að vondir vegir geti skapað stórhættulegar aðstæður fyrir vegfarendur sem eykur líkur á bæði óhöppum og slysum.

Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Colas ómyrkur í máli um íslenska vegakerfið – „Svo er sérfræðingurinn hissa á ástandinu“

„Blæðandi klæðing getur valdið hálku sem getur hæglega orðið til þess að bílstjórar missi stjórn á bílnum með ófyrirséðum afleiðingum. Hið sama gildir um hætturnar sem fylgja því að keyra í holur, sprungur, ójöfnur eða aðrar skemmdir í vegum. Fjölmörg óhöpp og slys – jafnvel banaslys – hafa verið rakin beint til ástands vegar. Það eru slys sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir, að minnsta kosti minnka verulega líkurnar á,“ segir hann.

Hann rifjar upp að þegar langt var liðið á sumarið hafi þriggja milljarða króna viðbótarframlag til viðhalds vega verið samþykkt. Framlagið hafi nýst til verkefna víða, að stórum hluta á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem viðhald var brýnast.

„Þetta viðbótarframlag kom ofan á 10-11 milljarða árlega fjárveitingu til viðhalds er gott og blessað, en þegar heildarviðhaldsþörf vegakerfisins er metin á bilinu 18-20 milljarðar á hverju ári og gefur augaleið að þriggja milljarða viðbótarframlag dugar skammt í stóra samhenginu,“ segir hann og bætir við: „Við erum enn langt, langt undir þeirri fjárfestingu sem nauðsynleg er til að halda vegakerfinu okkar almennilega við og þá heldur vegakerfið okkar áfram að verða heilt á litið verra og verra með hverju árinu sem líður. Einskiptis framlag dugar skammt. Við verðum að auka heildarfjárveitingar til vegagerðar, viðhalds og endurbóta og ráðast í heildstæða enduruppbyggingu vegakerfisins.“

Útlitið svart

Sigþór segir að áformuð framlög til viðhalds vega næstu 15 árin séu talin verða um 256 milljarðar króna, eða sem nemur á bilinu 13–17 milljörðum á ári samkvæmt samantekt Samtaka iðnaðarins.

„Hin 250–300 milljarða viðhaldsskuld mun því líklega ekki lækka mikið yfir sama tímabil, þar sem árleg framlög munu að líkindum ekki anna árlegri árvissri viðhaldsþörf. Þriggja milljarða viðbótarframlag til viðhalds vega á þessu ári nýtist vissulega vel, en kemur því miður ekki til með að hafa mikil áhrif á heildarmyndina til lengri tíma litið. Það eru því allar líkur á því að ástand vegakerfisins muni versna áfram, nema gripið verði rækilega í taumana,“ segir hann.

Útlitið er því ekki gott.

„Vegaspáin gerir því ráð fyrir holum, sprungum, hjólförum og öðrum skemmdum á vegum hringinn í kringum landið á næstu misserum, með örfáum undantekningum. Víðast hvar má búast við hristingi, skrölti, skoppi og öðrum akstursóþægindum.“

Sigþór segir að til að vekja athygli á þessu og svo að vegfarendur geti áttað sig á stöðunni hafi Colas Ísland gefið út Ónýtuvegahandbókina.

„Hún inniheldur greinargóða og yfirgripsmikla lýsingu á ástandi vegakerfisins, tillögur að úrbótum og vegafréttaspá fyrir landið allt. Handbókinni fylgir ýtarlegt holukort af Íslandi, sem vegfarendur geta notað til að leggja lykkju á leið sína þegar þeir ferðast um landið. Útgáfu bókarinnar verður fagnað með útgáfuhófi, fimmtudaginn 2. október kl. 18.30, í verslun Pennans Eymundssonar, Austurstræti 18, Reykjavík.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk
Fréttir
Í gær

Leynd ríkir um fjármögnun maltneska dótturfélags Play – „You can take that to the bank“

Leynd ríkir um fjármögnun maltneska dótturfélags Play – „You can take that to the bank“
Fréttir
Í gær

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“
Fréttir
Í gær

Ertu ekki búin að fá barnabætur í dag? – Þetta er ástæðan

Ertu ekki búin að fá barnabætur í dag? – Þetta er ástæðan