Veitustjóra Dalvíkurbyggðar, Höllu Dögg Káradóttur, hefur verið sagt upp störfum og hætti hún í gær.
Samkvæmt óstaðfestum heimildum tengist málið uppákomu á árshátíð starfsmanna bæjarfélagsins sem haldin var í félagsheimilinu Árskógi um síðustu helgi. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, staðfesti uppsögnina í samtali við DV en vildi ekki tjá sig um ástæður hennar.
„Ég get ekki tjáð mig um starfsmannamál, ég get þó sagt þér að það var stjórnandi sem hætti í gær. Ég tjái mig þó ekki um ástæður uppsagnarinnar.“
Aðspurð staðfesti Eyrún að umræddur stjórnandi væri veitustjórinn, Halla Dögg Káradóttir. Hún var ráðin í starfið í nóvember 2023.
DV náði sambandi við Höllu Dögg sem vildi ekki tjá sig um málið. Líkt og Eyrún játaði hún hvorki né neitaði að uppsögnin tengdist áðurnefndri árshátíð.