Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, greindi frá því í pallborðsumræðum um Evrópumál á Landsþingi Viðreisnar í gær að í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir SA komi fram að 56 prósent félagsmanna samtakanna séu andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu en aðeins 27 prósent hlynntir. Könnunin tók til fleiri þátta en einungis afstöðu til aðildar að ESB
Fram kom hjá Sigríði Margréti að andstaða við aðild meðal félagsmanna hafi aukist mikið frá því það var síðast kannað árið 2023. Þá voru 45 prósent svarenda andvíg aðild en 35 prósent hlynnt.
Orðið á götunni er að þessum niðurstöðum beri að taka með miklum fyrirvara vegna þess að könnunin sé í raun og veru alls ekki marktæk. Innan SA eru um 2000 aðildarfyrirtæki en fram kemur að alls hafi 363 svör borist við könnuninni í heild en 279 svarendur svöruðu spurningunni um aðild að ESB. Þetta þýðir að einungis milli 13 og 14 prósent félagsmanna tóku afstöðu til spurningarinnar. Út frá þessari könnun vitum við því ekkert um afstöðu þorra félagsmanna SA til aðildar Íslands að ESB.
Orðið á götunni er að áreiðanleiki þessarar könnunar sé áþekkur því sem tíðkast í netsmellikönnunum Útvarps Sögu þar sem niðurstöður eru jafnan mjög á skjön við það sem kemur út úr hefðbundnum skoðanakönnunum. Jafnáreiðanlegt væri eflaust að efna til könnunar meðal presta Þjóðkirkjunnar og spyrja þá hvort þeir trúi á sólkonunginn.
SA virðast hafa áttað sig á að þátttökutölurnar draga vægast sagt mjög úr áreiðanleika könnunarinnar vegna þess upplýsingar um þátttökuna komu fram í fréttinni sem birtist á vef samtakanna í morgun en nú upp úr hádeginu voru þær fjarlægðar.
Orðið á götunni er að ítök sjávarútvegsins og fjármálafyrirtækja séu nú orðin yfirgnæfandi innan SA, svo mjög að mörgum almennum félagsmönnum þykir lítið hlustað á sig og sín sjónarmið – SA sé í raun hagsmunabandalag hinna stóru og sterku en ekki hinna sem er smærri eða kannski meðalstórir.
Orðið á götunni er að sjávarútvegurinn og fjármálafyrirtækin séu einmitt áberandi meðal þeirra félagsmanna SA sem eru andsnúnir aðild Íslands að ESB. Sjávarútvegurinn er hættur að nota íslensku krónuna. Hann gerir upp í erlendri mynt, jafnan í evrum, og fjármagnar sig þar af leiðandi í evrum og borgar evruvexti en ekki íslenska, sem litlu og meðalstóru fyrirtækin innan SA neyðast til að greiða sem og heimilin í landinu. Þess vegna hafa útgerðirnar og eigendur þeirra gríðarlegt samkeppnisforskot á íslenskum markaði, sem sést vel af því að sægreifarnir hafa verið að kaupa upp flest fyrirtæki á Íslandi undanfarin ár. Hæg eru heimatökin hjá þeim sem getur fjármagnað sig á miklu lægri vöxtum en þeir sem keppt er við.
Fjármálafyrirtækin vilja svo fyrir alla muni halda í íslensku krónuna vegna þess að bankarnir græða á tá og fingri á hávaxtastefnunni sem fylgir íslensku krónunni og þeim mikla vaxtamun sem hér er í krónuhagkerfinu. Þá njóta bæði bankar og tryggingafélög krónuverndarinnar, sem felst í því að engin alþjóðleg fjármálafyrirtæki eru tilbúin að koma hingað í hið óstöðuga krónuhagkerfi. Fyrir vikið sitja bankarnir og tryggingafélögin ein að íslenska markaðnum og haga verðlagningu sinni að eigin vild án þess að eiga utanaðkomandi samkeppni á hættu.
Orðið á götunni er að stuðningur félagsmanna SA við aðild að ESB sé miklum mun meiri en hægt er að lesa úr þessari könnun sem er svo marklaus að jafnvel SA fyrirverða sig fyrir hana – og kalla þau ágætu samtök nú ekki allt ömmu sína.
Skjáskot af vef SA eftir að þátttökutölur voru fjarlægðar.