Héraðssaksóknari hefur ákært sjö menn fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Austurvelli í Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 21. ágúst 2022.
Eru þeir ákærðir fyrir að hafa ráðist á mann í kjölfar þess að hann kom öðrum árásarþola til varnar eftir að einn af mönnunum hafði ráðist á hann.
Eru þeir sagðir hafa slegið brotaþola nokkur högg í höfuð og búk, sparkað tvívegis í afturhluta hans og tekið hann hálstaki, og eftir að hann féll í jörðina, slegið og sparkað margendurtekið í höfuð hans og búk.
Brotaþoli hlaut mélbrot í vinstra kinnbeini, mar yfir vinstra kinnbeini og báðum gagnaugum, skynskerðingu og dofa á vinstri kinn og áfallastreituröskun.
Einn af mönnunum er síðan ákærður fyrir árásina þar sem ofannefndur brotaþoli reyndi að koma til hjálpar. Hlaut brotaþolinn í þeirri árás heldur vægari áverka en sá fyrrnefndi, en þó tvo skurði við vinstri augabrún og væga bólgu yfir vinstra kinnbeini, meðal annars.
Fyrrnefndi brotaþolinn krefst 2,5 milljóna króna í miskabætur og 47.000 króna í skaðabætur. Síðarnefndi brotaþolinn krefst 700 þúsund króna í miskabætur.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 25. september næstkomandi.