Bergvin Oddsson stjórnmálafræðingur veltir fyrir sér hlutverki RÚV í aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni Þegar almannaútvarpið útilokar hluta samfélagsins, eftir að honum var boðið í viðtal á RÚV, en síðan tilkynnt að ekkert yrði af því vegna skilorðsbundins dóms sem hann hlaut í fyrra.
Segist Bergvin hafa heimsótt 30 lönd í átta vikna ferðalagi um Evrópu í sumar ásamt sextán ára syni sínum. „Það sem gerði ferðina sérstaka var að hvorugur okkar er með bílpróf, hann er aðeins 16 ára og ég er lögblindur. Það reyndi á útsjónarsemi, skipulag og þolinmæði, en gaf okkur einnig ógleymanlega reynslu.“
Bergvin segir þáttastjórnendur Mannlega þáttarins og Sumarmála á Rás 1, Gunnar Hansson og Guðrúnu Gunnarsdóttur, hafa haft samband við hann og boðið feðgunum í viðtal til að segja frá ferðinni.
„Við vorum tilbúnir að deila sögunni, en síðan var mér tilkynnt að áhugi væri horfinn. Ástæðan: Ég hef áður hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðislega áreitni.“
Í maí á þessu ári staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms frá maí 2024 yfir Bergvini fyrir kynferðislega áreitni gegn þremur konum sem störfuðu á veitingastað hans. Brotin framdi hann á árunum 2020, 2021, og 2022, annars vegar á gistiheimili og hins vegar á veitingastað, sem hann rak ásamt eiginkonu sinni í Vestmannaeyjum. Hlaut hann sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og var dæmdur til að greiða konunum miskabætur
Bendir Bergvin í grein sinni á að RÚV er í almannaeigu, þó ágreiningur sé um hvað það hlutverk feli í sér, „og ekki hlutvek þess að útiloka fólk úr samfélagsumræðunni á grundvelli mistaka sem það hefur þegar tekið út refsingu fyrir,“ segir Bergvin og heldur áfram:
„Flestir eru þó sammála um að RÚV eigi að veita trausta fréttaþjónustu, geta rofið útsendingar þegar alvarlegir atburðir eða náttúruvá steðja að, og fyrst og fremst speglað allt samfélagið. Það þýðir að varpa ljósi á reynslu og sjónarmið allra – hvort sem fólk er ríkt eða fátækt, svart eða hvítt, karlar, konur, trans eða þeir sem skilgreina sig utan kynja. Börn, innflytjendur og óteljandi aðrir hópar eiga líka að fá að koma að borðinu.“
Segir Bergvin reynslu sína hafa vakið sig til umhugsunar.
„Það er ekki hlutverk almannaútvarps að útiloka fólk úr samfélagsumræðunni á grundvelli mistaka sem það hefur þegar tekið út refsingu fyrir. Margir halda að þyngst sé að hljóta dóm fyrir dómi héraðs eða Landsréttar. En ég segi af eigin reynslu: það er miklu þyngra að vera dæmdur af „dómstól götunnar“ að vera hafnað af fjölskyldu, vinum, fjölmiðlum, opinberum stofnunum eða sveitarfélögum. Að fá ekki aðgang að námi, starfsreynslu eða samfélagslegri þátttöku.
Grein mín er ekki aðeins um mig. Hún er áminning til okkar allra. Því þú gætir verið næstur, eða næst, í röðinni til að gera mistök eða hljóta dóm. Samfélaginu er enginn greiði gerður með því að „slaufa“ fólki. Þeir sem útilokaðir eru úr starfi, félagslífi og fjölmiðlum eru líklegri til að detta út af vinnumarkaði, lenda í félagslegum vandamálum eða í sjálfsvígshættu. Hver er þá raunverulegur ávinningur samfélagsins?“
Segir Bergvin í lokaorðum greinar sinnar alla eiga tilverurétt, „hvort sem við erum Valsarar, Framsóknarmenn, Eyjamenn, fangar eða annað. Þeir sem hafa gert mistök eiga líka að fá að
vera hluti af samfélaginu. Það er grundvallarspurning um mannréttindi, en líka spurning um það hvernig samfélag við viljum byggja.“