fbpx
Fimmtudagur 18.september 2025
Fréttir

Bæjarfulltrúi segir líklega best að kljúfa Reykjanesbæ – Mikil óánægja vegna þrákelkni félags í eigu ríkisins

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 18. september 2025 07:00

Á myndinni má sjá hluta Ásbrúar í Reykjanesbæ en Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi í bænum, segir stöðuna orðna þannig að líklega sé best að kljúfa hverfið frá bænum og gera það að sérstöku sveitarfélagi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag þar sem fram koma vangaveltur um hvort ekki væri réttast að kljúfa Ásbrú frá Reykjanesbæ og stofna þar sjálfstætt sveitarfélag. Snýr óánægja Margrétar, Umbótar og raunar fleiri bæjarfulltrúa ekki síst að því að félag í eigu íslenska ríkisins hefur neitað að fella niður byggingarréttargjöld vegna uppbyggingar Brynju leigufélags á íbúðum fyrir fatlaða á Ásbrú.

Margrét Þórarinsdóttir á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Ásbrú er nafn á hverfi í Reykjanesbæ þar sem áður var aðsetur bandaríska varnarliðsins á Íslandi en þar var meðal annars byggður fjöldi fjölbýlishúsa. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar búa 4.385 af 22.499 íbúum Reykjanesbæjar á Ásbrú.

Þegar varnarliðið yfirgaf Ísland árið 2006 voru flestar eignir á svæðinu, sem fékk í kjölfarið nafnið Ásbrú, afhentar íslenska ríkinu en um eignirnar var stofnað sérstakt félag, Kadeco en skráð heiti þess í fyrirtækjaskrá er Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Félagið átti að sjá um eignirnar og síðan selja að minnsta kosti hluta þeirra. Þegar sölunni var lokið var hlutverki félagsins breytt og nú er, samkvæmt heimasíðu Kadeco, helsta verkefni þess að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll. Félagið er að fullu í eigu íslenska ríkisins

Samkvæmt heimasíðu Kadeco úthlutar félagið lóðum á Ásbrú sem eru í eigu ríkisins en í október á síðasta ári undirrituðu Kadeco, ríkið og Reykjanesbær samkomulag um uppbyggingu á Ásbrú en í því felst meðal annars uppbygging 800 nýrra íbúða á svæðinu.

Brynja

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku var rædd umsókn leigufélagsins Brynju um lóð á Ásbrú til að byggja raðhús með sjö íbúðum fyrir fatlaða einstaklinga. Í sameiginlegri bókun allra fulltrúa í bæjarráði var lýst yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu Kadeco að fella ekki niður byggingarréttargjöld vegna umsóknar Brynju. Miðað við heimasíðu Kadeco innheimtir það helst lóðaleigu vegna lóða sem úthlutað er en vísar að öðru leyti á gjaldskrá Reykjanesbæjar en á síðasta ári seldi það t.d. byggingarrétt til byggingarfélagsins Stofnhúss fyrir 150 milljónir króna til að byggja upp 150 íbúðir. Árið 2023 leitaði Kadeco tilboða fyrir byggingarrétt á Ásbrú. Það virðist því ekki vera nein föst verðskrá hjá Kadeco fyrir byggingarrétt á Ásbrú á lóðum sem eru í eigu íslenska ríkisins heldur er leitað tilboða.

Á síðasta ári var Kadeco rekið með 121,7 milljóna króna tapi en árið 2023 með 118,3 milljóna króna tapi.

Áðurnefnt samkomulag ríkisins, Reykjanesbæjar og Kadeco er ekki aðgengilegt í heild sinni og því liggur ekki fyrir hvort sérstök ákvæði gildi um íbúðir sem byggðar eru af félögum eins og Brynju sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það hlutverk að útvega tekjulægstum hópum samfélagsins húsnæði. Miðað við neitun Kadeco virðist svo ekki vera.

Bærinn fellir niður en ríkið ekki

Þessi liður í fundargerð bæjarráðs var ræddur á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður bæjarráðs greindi frá því í ræðu sinni að Brynja, Reykjanesbær og ríkið hefðu verið í samstarfi um uppbyggingu raðhússins á lóðinni og stefnt væri að byggingu slíkra búsetuúrræða víðar í sveitarfélaginu. Reykjanesbær hefði vegna slíkrar uppbyggingar fellt niður gatnagerðargjöld, byggingarréttargjöld, innviðagjöld og gjöld byggingarfulltrúa. Það væri framlag bæjarins til uppbyggingar á búsetuúrræðum fyrir fatlaða. Í þessu tilfelli sé hins vegar ríkið eigandi lóðarinnar og Kadeco sjái um umýslu lóða ríkisins á Ásbrú.

Halldóra sagði að óskað hefði verið eftir því að ríkið með aðkomu Kadeco færi að fordæmi Reykjanesbæjar og felldi niður byggingarréttargjöld sín megin til að halda byggingarkostnaði og þar með leigu, sem hinir fötluðu íbúðar þyrftu að greiða, niðri. Það væru vonbrigði að ekki hafi orðið við þessu. Uppbygging á Ásbrú myndi þar af leiðandi tefjast á meðan lausna væri leitað.

Sérstakt sveitarfélag

Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Umbótar var mun harðorðari í garð ríkisins og Kadeco en Halldóra og lagði fram bókun vegna synjunarinnar. Segir í bókuninni að Umbót fordæmi ákvörðun Kadeco um að fella ekki niður byggingarréttargjöld vegna uppbyggingarinnar en um sé að ræða hóp sem búi nú þegar við mikinn húsnæðisskort. Að hafna slíku verkefni á grundvelli tekjuöflunar sé einfaldlega ósanngjarnt og óásættanlegt.

Segir enn fremur að Reykjanesbær hafi árum saman borið alla kostnaðarliði við þjónustu innviða á Ásbrú á meðan Kadeco virðist fyrst og fremst sækjast eftir tekjum. Slík vinnubrögð gangi ekki lengur upp. Leggur Margét fram að lokum sínar róttæku hugmyndir um framtíð Ásbrúar:

„Það er kominn tími til að segja hlutina eins og þeir eru. Ef ríkið og Kadeco ætla að stjórna svæðinu með þessum hætti þá er eðlilegt að þau taki einfaldlega yfir alla ábyrgð og reki þar sjálfstætt sveitarfélag. Reykjanesbær getur ekki borið ábyrgð á öllum kostnaði á sama tíma og aðrir hirða tekjurnar. Umbót leggur til að bæjarfélagið einblíni hér eftir á uppbyggingu á þeim svæðum sem það á sjálft í stað þess að una lengur við ósanngjarna og skaðlega aðkomu Kadeco að málefnum Ásbrúar.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sæþór segir að Sanna sé ekki vinsæl innan Sósíalistaflokksins – „Ekki hægt að hafa fulltrúa sem vinnur ekki með flokknum“

Sæþór segir að Sanna sé ekki vinsæl innan Sósíalistaflokksins – „Ekki hægt að hafa fulltrúa sem vinnur ekki með flokknum“
Fréttir
Í gær

Ríkisendurskoðandi tilkynntur til lögreglu fyrir að árita reikninga án þess að vera löggiltur endurskoðandi

Ríkisendurskoðandi tilkynntur til lögreglu fyrir að árita reikninga án þess að vera löggiltur endurskoðandi
Fréttir
Í gær

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót
Fréttir
Í gær

Sturlaðist í Veiðivötnum og framdi rán

Sturlaðist í Veiðivötnum og framdi rán
Fréttir
Í gær

Sviplegt fráfall – Söngvari At the Gates látinn aðeins 52 ára að aldri

Sviplegt fráfall – Söngvari At the Gates látinn aðeins 52 ára að aldri
Fréttir
Í gær

Segir engan áhuga vera á Ómari á vinnustað hans til áratuga

Segir engan áhuga vera á Ómari á vinnustað hans til áratuga