Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) hefur sent sveitarfélögum landsins bréf til áminningar um ábyrgð sína þegar kemur að skipulagningu byggðar á þekktum hættusvæðum. Borið hefur á því að byggð hafi verið skipulögð á slíkum svæðum og tjón á nýbyggingum hefur aukist þess vegna.
Bréfið var sent á sveitarfélög landsins þann 10. september síðastliðinn þar sem þau voru minnt á ábyrgð sína við skipulag. Vísað var til lagagreinar sem takmarkar bótarétt þegar byggt er á svæðum þar sem náttúruvá er fyrir fram þekkt. Til dæmis vegna vatns- og sjávarflóða.
„Sveitarfélög eru hvött til að uppfæra áhættumat, tryggja varnir áður en framkvæmdir hefjast, upplýsa leyfishafa og kaupendur um áhættu og bótarétt og leita samráðs við viðeigandi stjórnvöld,“ segir NTÍ. „NTÍ bætir tjón af völdum náttúruhamfara, en bætur geta skerst eða jafnvel fallið alveg niður ef mannvirki reist á þekktum hættusvæðum eða ef ekkert hefur verið gert til að auka varnir gegn frekari tjónum á stöðum þar sem tjón hafa endurtekið átt sér stað.“
Greint hefur verið frá málum sem þessum í fjölmiðlum. Meðal annars hefur Reykjanesbær samþykkt að byggja fjölbýlishús nærri mögulegu flóðasvæði við Hafnargötu.
Veðurstofa Íslands hefur gert athugasemdir við skipulagið og bent hefur verið á landsig á svæðinu og flóð sem urðu í óveðri í febrúar árið 2020.
Fyrr á árinu var einnig greint frá uppbyggingu sveitarfélagsins Suðurnesjabæjar á þekktu flóðasvæði á jörð Gauksstaða. En þar var um uppbyggingu gistirýma fyrir ferðamenn að ræða.
„Á undanförnum misserum hefur tjón á nýlegum mannvirkjum aukist á svæðum þar sem hætta af náttúruvá hefur lengi verið þekkt, samhliða umræðu um frekari framkvæmdir á slíkum svæðum,“ segir í tilkynningu NTÍ.
Bent er á að NTÍ bæti tjón af völdum náttúruhamfara samkvæmt sérstökum lögum um stofnunina. Á þessu eru hins vegar takmarkanir.
„Eigendur fasteigna geta því ekki gengið að því sem vísu að bætur verði greiddar fyrir tjón á mannvirkjum sem byggð eru á þekktum hættusvæðum,“ segir NTÍ. „Ábyrgð á skipulagi byggðar og leyfisveitingum á slíkum svæðum hvílir hins vegar hjá skipulagsyfirvöldum og sveitarstjórnum.“
Að lokum er nefnt að mikilvægt sé að við gerð skipulags sé ávallt tekið tillit til nýjustu og bestu upplýsinga um náttúruvá og þær skýrlega tilgreindar í uppdráttum og greinargerðum, að ráðast beri í forvarnir og gerð varnarmannvirkja áður en framkvæmdir hefjast, að byggingaleyfishafar séu upplýstir um þekkta áhættu og takmarkanir á bótarétti og að leitað sé samráðs við viðkomandi stofnanir. Svo sem HMS, Vegagerðina, Veðurstofuna og Skipulagsstofnun.