Ransted þessi átti eitt sinn vafasamt met, en árið 2008 skaut hann óvinahermann til bana úr rúmlega tveggja kílómetra fjarlægð í Afganistan.
Í viðtali við Mail Online fer hann yfir árásina sem varð Charlie að bana í gærkvöldi. Hann segir að aðstæður á vettvangi hafi verið góðar fyrir byssumanninn.
„Það var augljóslega lítil öryggisgæsla og þetta virðist hafa verið öruggur skóli með litla afbrotatíðni. Þannig að menn hafa talið hættuna litla á að eitthvað myndi gerast,“ segir hann.
Hann segir að byssumaðurinn hafi náð að koma sér fyrir á þægilegum stað á þaki byggingar um 200 metrum frá sviðinu þar sem Charlie hélt erindi sitt.
Sjá einnig: Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu
„Það er auðvelt að skjóta niður á við og svæðið var eins og hringleikahús. Hæðarmunur er algjört gull fyrir byssumenn,“ segir hann.
Hann telur ekki að morðinginn sé þrautþjálfaður. „Það geta allir tekið svona skot eftir að hafa farið þrisvar til fjórum sinnum á skotsvæði. Ef ég væri lögreglan myndi ég byrja á að skoða hverjir hafa verið við æfingar á skotsvæðum í nágrenninu síðustu daga.“
Talað hefur verið um að byssumaðurinn hafi notað AR-15 riffil en sjálfur telur Nicholas að hann hafi notað öflugri byssu. Það megi meðal annars greina á hljóðum úr myndböndum sem eru í dreifingu á netinu. „Þetta hljómaði eins og öflugur riffill. Ég heyrði hvellinn og sá þegar kúlan lenti í honum, þannig að líklega var þetta langdrægur riffill.“
Sjá einnig: Er þetta maðurinn sem skaut Charlie?
Sjálfur telur Ransted að byssumaðurinn hafi ætlað að skjóta Charlie í höfuðið en ekki ráðið við aðstæðurnar. „Hann var líklega að miða á höfuðið en tók ekki tillit til vinds þannig að kúlan sveigðist örlítið. Það að hann fékk skot í hálsinn segir mér að hann hafi miðað á höfuðið en adrenalínið hefur sennilega verið í hámarki þegar hann togaði í gikkinn.“
Hann segir að byssumaðurinn hafi líklega verið rétthentur en það megi sjá á því hvar kúlan lenti.
Ransted telur að Charlie hafi látist nærri samstundis. „Ég hef séð blæðingar úr slagæð og þú hefur bara nokkrar sekúndur. Þeir höfðu líklega ekkert til að stöðva bæðinguna sem getur virkað ef maður er mjög snöggur.“
Ransted segist að lokum telja að morðið hafi verið vel skipulagt og morðinginn hafi verið búinn að ákveða flóttaleið eftir að skotið reið af. „Venjulega skjóta brjálaðir menn 30 skotum. Hér var bara eitt skot, ekkert meira. Ég tel að þetta hafi verið vel skipulagt. Hann fór strax og hefur ekki enn náðst.“