fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Fréttir

Geirfinnsmálið: Valtýr segir skrif Soffíu vera sjúkleg og að skýrsla sérstaks saksóknara hreinsi hann

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 28. ágúst 2025 12:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari og fulltrúi bæjarfógeta í Keflavík á dögum hvarfs Geirfinns Einarssonar árið 1974, segir skrif Soffíu Sigurðardóttur um hlut hans í rannsókn Geirfinnsmálsins vera sjúkleg. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið en vísar í skýrslu sérstaks sakóknara, Láru V. Júlíusdóttur, frá árinu 2003, um tildrög þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns og látinn sæta gæsluvarðhaldi.

DV hefur umrædda skýrslu ekki undir höndum en sótti um aðgang að henni til dómsmálaráðuneytisins 20. janúar á þessu ári. Erindinu hefur ekki verið svarað fyrir utan vélrænt svar þar sem staðfest er að erindið hafi verið móttekið.

Hins vegar eru í Morgunblaðinu 6. febrúar árið 2003 helstu þættir skýrslunnar endursagðir. Í skýrslu Láru segir að ekkert hafi komið fram í rannsókn hennar sem bendi til þess að lögreglumenn í Keflavík sem önnuðust rannsókn á hvarfi Geirfinns hafi ætlað að láta leirmynd af manni sem talinn var tengjast málinu líkjast Magnúsi Leópoldssyni. Í skýrslunni er rakin nokkuð flókin atburðarás sem leiddi til gerðar leirstyttunnar en styttan átti að vera af manni sem á að hafa hringt heim til Geirfinns að kvöldi 19. nóvember 1974 og fengið hann til fundar við sig. Í bókinni Leitin að Geirfinni eru færð rök fyrir því að umræddur maður, sem fékk að nota símann í Hafnarbúðinni þetta kvöld, hafi ekki verið að hringja í Geirfinn, hafi ekkert vitað um hann og hafi verið í allt öðrum erindagerðum í Keflavík, en um var að ræða aðkomumann.

Í skýrslunni er farið yfir helstu þætti rannsóknar Keflavíkurlögreglunnar og í stuttu máli sagt ekki gerðar alvarlegar athugasemdir við hana. Í það minnsta er meginrannsóknartilgáta lögreglu ekki véfengd.

Í grein Soffíu er hins vegar farið hörðum orðum um rannsókn Keflavíkurlögreglunnar, Valtýr sagður hafa stýrt henni einn, og að rannsóknin hafi í raun verið yfirhylming á því sem raunverulega gerðist er Geirfinnur hvarf. Soffía segir:

„Opinbera sagan um hvarf Geirfinns í Keflavík þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974, fyrst í Keflavíkurrannsókninni og síðar í hinu fáránlega Guðmundar- og Geirfinnsmáli í Reykjavík, er svona: Geirfinnur hvarf af því hann fór að hitta vonda menn við Hafnarbúðina í Keflavík og þeir óku með hann á brott og skiluðu honum aldrei aftur. Ástæða þess er sú að þeir voru glæpamenn sem stunduðu smygl og Geirfinnur var á einhvern óskiljanlegan hátt flæktur í það athæfi þeirra.

Ekkert af þessu gerðist.“

Geirfinnur hafi verið myrtur í bílskúr við heimili sitt

Soffía vísar til bókarinnar Leitin að Geirfinni um raunveruleg örlög Geirfinns þetta kvöld. DV hefur mikið fjallað um efni bókarinnar. Samkvæmt niðurstöðum aðstandenda bókarinnar var atburðarásin eitthvað á þessa leið (endursögn DV):

Geirfinnur fór í Hafnarbúðina til að kaupa sér sígarettur, síðla kvölds. Á heimleiðinni tók maður sem Geirfinnur þekkti hann upp í bíl og ók honum heim. Sá maður er nátengdur eiginkonu Geirfinns. Maðurinn kom með Geirfinni inn en þar voru fyrir Guðný eiginkona Geirfinns og Svanberg, ástmaður hennar. Brutust þá út átök sem lyktaði með dauða Geirfinns. Banamaður Geirfinns var ekki Svanberg heldur maðurinn sem varð samferða Geirfinni heim. 

Sjá einnig: Fór ekki til fundar við mann í Hafnarbúðinni og „Leirfinnur“ hringdi ekki í hann

Í grein Soffíu segir: „Það sem henti Geirfinn var ofur einfalt, það var ekkert samsæri, bara stutt atburðarás sem átti sér einfalda skýringu og endaði með ósköpum. Það sem var flókið var að afhjúpa yfirhylminguna sem þar tók við. Slóðin sem við röktum var slóð þeirra sem í ákafa sínum við afvegaleiðingar og yfirhylmingar, tröðkuðu út vettvanginn. Þeir skyldu nefnilega eftir sig slóð.“

Heldur Soffía því fram að rannsókn Keflavíkurlögreglunnar hafi í raun verið kerfisbundin yfirhylming Valtýs á því sem raunverulega gerðist og hafi persónulegar ástæður Valtýs verið að baki þeim athöfnum.

Sem fyrr segir vill Valtýr ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að skrif Soffíu séu sjúkleg og að sannleikann um rannsókn lögreglu sé að finna í áðurnefndri skýrslu sérstaks saksóknara.

Meintur banamaður Geirfinns, samkvæmt kenningu bókarinnar Leitin að Geirfinni, er enn á lífi. Hið sama má segja um lykilvitni, ekkju Geirfinns og Svanberg Helgason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Rússar réðust grimmilega á Úkraínu í nótt

Rússar réðust grimmilega á Úkraínu í nótt
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Carol handleggsbrotnaði á fyrsta degi Íslandsheimsóknar – Bjargvætturinn Þór bar hana af fjallinu

Carol handleggsbrotnaði á fyrsta degi Íslandsheimsóknar – Bjargvætturinn Þór bar hana af fjallinu
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Björgunarsveitir kallaðar út í gærkvöldi: Villtur í óbyggðum og rafhlaðan við það að tæmast

Björgunarsveitir kallaðar út í gærkvöldi: Villtur í óbyggðum og rafhlaðan við það að tæmast
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Segir Valtý hafa ætlað að fela sannleikann í stærsta sakamáli Íslandssögunnar – „Banamaður Geirfinns hafði hreðjatak á þér“

Segir Valtý hafa ætlað að fela sannleikann í stærsta sakamáli Íslandssögunnar – „Banamaður Geirfinns hafði hreðjatak á þér“
Fréttir
Í gær

Þorsteinn sendir Snorra væna pillu: „Hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins“

Þorsteinn sendir Snorra væna pillu: „Hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins“
Fréttir
Í gær

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig