Erling Haaland hefur breytt nafninu sem prýðir treyju hans með norska landsliðinu og fylgir þar með hefð sem margir Norðmenn tileinka sér.
Framvegis mun standa „Braut Haaland“ á treyju númer níu, í stað einfaldlega „Haaland“.
25 ára gamli framherjinn hjá Manchester City er þekktur sem Erling Braut Haaland á samfélagsmiðlum og hefur verið það síðan hann vakti heimsathygli með níu mörkum í einum leik á U20 heimsmeistaramótinu árið 2019.
Í Noregi er algengt að fólk noti bæði föðurnafn og móðurnafn sem eftirnafn. Í tilfelli Haalands kemur nafnið „Braut“ frá móður hans, Gry Maritu Braut.
Faðir hans, Alfie Haaland, lék með Manchester City á árunum 2000 til 2003, en móðir hans á einnig íþróttaferil að baki. Hún var margfaldur meistari í sjöþraut og keppti meðal annars í grindahlaupi, hástökki, kúluvarpi, langstökki, spjótkasti og 800 metra hlaupi.
Með þessari breytingu heiðrar Haaland bæði foreldra sína og rótgróna nafnhefð í heimalandi sínu.