JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hefur sætt háðulegri gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir að hann hélt því ranglega fram að síðari heimsstyrjöldinni hafi lokið með „samningaviðræðum“.
Í viðtali á MSNBC-þættinum Meet the Press á sunnudag var Vance spurður út í stefnu forsetans Donalds Trump í stríðinu í Úkraínu. Hann útskýrði að forsetinn væri einungis að reyna að miðla málum milli Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, og Volodymyr Zelenskys, forseta Úkraínu.
„Ef þú lítur til baka til síðari heimsstyrjaldarinnar, fyrri heimsstyrjaldarinnar eða annarra helstu átaka í mannkynssögunni, þá enda þau öll á einhvers konar samningaviðræðum,“ sagði Vance.
Samfélagsmiðlar loguðu eftir að ummælin voru birt og bentu fjölmargir á að varaforsetinn væri út á þekju varðandi heimssöguna. Síðari heimsstyrjöldinni hefði lokið árið 1945 með skilyrðislausri uppgjöf Þýskalands og Japans, ekki samningaviðræðum. „Það er áhyggjuefni að varaforsetinn og líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins 2028 viti ekki að stríðinu lauk á vígvellinum,“ skrifaði einn notandi.
Annar sagði: „Í þessu ótrúlega myndbroti heldur JD Vance því fram að Bandaríkin hafi ekki unnið síðari heimsstyrjöldina heldur samið við Þýskaland og Japan. Hann virðist halda að Karþagó hafi ekki verið sigrað af Róm heldur samið um frið.“
Hafa margir einnig viðrað þá skoðun sína að orð Vance geri lítið úr fórnum hermanna bandamanna sem knúðu andstæðinginn til uppgjafar í blóðugum bardögum og loftárásum.
„Hættu að endurskrifa söguna til að þrýsta fram undanlátsstefnu,“ skrifaði einn notandi, á meðan annar bætti við að „ef við hefðum haft mann með hugarfar JD Vance við völd í síðari heimsstyrjöldinni hefði Hitler fengið helming Evrópu“.
Myndbrotið úr þættinum var tímabundið merkt með athugasemd frá samfélaginu vegna rangfærslunnar.
Sumir hafa þó tekið hanskann upp fyrir Vance og bent á að tæknilega hafi öxulveldin undirritað uppgjafarskilmála sem bandamenn hafi fallist á og það gæti talist vera „samningur“.
Fyrir utan tæpar söguskýringar í viðtalinu þá lagði Vance áherslu á að Donald Trump, Bandaríkjafoseti, vildi að Pútín og Zelensky settust niður við samningaborðið og freistuðu þess að ná samkomulagi um endalok stríðsins.
Það er í takt við fullyrðingar Trump sem lýsti því yfir á dögunum að hann hygðist reyna að koma á fundi milli leiðtoganna tveggja innan tveggja vikna. Hótaði hann jafnframt „gríðarlegum refsiaðgerðum“ eða tollum ef fundurinn yrði ekki að veruleika.