Eins og greint hefur verið frá í dag hefur peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 7,5 prósent, þar sem illa gengur að ná verðbólgu niður en hún var 4 prósent við síðustu mælingu. Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna er eins og margir hugsi yfir tíðindum dagsins og segist vera það ekki síst eftir að hafa kannað hversu há verðbólga og stýrivextir eru í ýmsum löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við. Breki birtir þessar tölur í myndriti á Facebook-síðu sinni. Hann segist hafa valið umrædd lönd af handahófi en óhætt er að segja að tölurnar komi ekki vel út fyrir Ísland.
Í Svíþjóð er verðbólgan 0,80 prósent en stýrivextir 2 prósent. Í Noregi er verðbólgan 3,30 prósent en stýrivextir 4,25 prósent. Í Finnlandi er verðbólgan 1,90 prósent en stýrivextir 2,15 prósent og í Danmörku er verðbólgan 2,30 prósent en stýrivextir 1,60 prósent.
Í Bretlandi er verðbólgan eilítið lægri en á Íslandi, 3,80 prósent en stýrivextir 4 prósent.
Í Bandaríkjunum er verðbólgan 2,70 prósent en stýrivextir 4,50 prósent og loks er verðbólgan á Evrusvæðinu 2 prósent og stýrivextir 2,15 prósent.
Ljóst er af þessari upptalningu að munurinn er í sumum tilfellum ekki mikill en staðreyndin er sú að í öllum þessum löndum er bæði verðbólga og stýrivextir lægri en á Íslandi.
Færsla Breka hefur vakið töluverð viðbrögð en meðal þeirra sem rita athugasemdir eru Páll Valsson rithöfundur og bókaútgefandi:
„Þetta er sturlað!“
Sigmundur Ernir Rúnarsson alþingismaður skrifar:
„Lærdómurinn er enginn.“
Stefán Jón Hafstein fyrrum fjölmiðlamaður og borgarfulltrúi segir:
„Ef eitthvað virkar ekki er um að gera að endurtaka það.“
Þór Saari fyrrverandi alþingismaður er harðorður eins og endranær:
„Ástæðan eru verðtryggingin því stýrivextirnir bíta ekki á verðtryggða lánastarfsemi. Hefur verið vitað alla tíð en fúskmenning hér á landi kemur í veg fyrir að þetta sé lagað.“
Egill Helgason fjölmiðlamaður segir um færslu Breka á sinni Facebook-síðu að það sé ekki annað hægt en að spyrja hvort breytinga sé ekki þörf:
„Gengur ekki svona. Er ekki fullreynt með hagkerfi þar sem almúginn notar íslensku krónuna en stór fyrirtæki erlenda (alvöru) gjaldmiðla?“