Fyrr í sumar var fjölskylda manns að James O´Neill, sem var 63 ára gamall og bjó í borginni Lakewood í Colorado í Bandaríkjunum, farinn að óttast um hann en þurfti einnig að komast í samband við hann til að tilkynna honum um að hann hefði fengið peninga í arf. Samband O´Neill við fjölskylduna hafði verið stirt og þó nokkur tími hafði liðið síðan fjölskyldumeðlimir höfðu talað við hann svo að lengi vel voru ekki miklar áhyggjur uppi um velferð hans en nú lok júní þótti fjölskyldunni nóg komið. Það gekk ekkert að ná í O´Neill og lögreglan í borginni var loks beðinn um að athuga með hann. Það sem lögreglan átti að eftir að komast á endanum að var að James O´Neill hlaut örlög sem geta vart talist annað en viðurstyggileg og nú sitja þess vegna í fangelsi hjón á sextugsaldri sem halda því fram að þau hafi átt í fjölkæru ástarsambandi við hinn látna.
Fjölkær sambönd eru orðin æ algengari en þau geta meðal annars falist í að hjón eða par býður þriðja aðila að verða hluti af sambandinu og á þá viðkomandi í ástarsambandi við báða aðila í einu.
Fjallað hefur verið nokkuð vestan hafs um þetta meinta fjölkæra samband James O´Neill við hjónin James David Agnew, sem er 55 ára og Suzanne Agnew sem er 57 ára.
O´Neill fannst látinn á heimili hjónanna í byrjun júlí en fjölmiðlar vestan hafs komust ekki á snoðir um málið fyrr en nýlega og birtust fréttir af því nú í vikunni.
Hjónin höfðu falið lík O´Neill á heimilinu í um eitt og hálft ár, miðað við þeirra eigin frásögn, og líkið hafði því rotnað verulega og heimilishundarnir höfðu þar að auki nartað í það. Þau voru í kjölfarið handtekin m.a. vegna gruns um illa meðferð á líki en hafa ekki enn verið ákærð og hvort þau eru grunuð um að hafa orðið O´Neill að bana virðist ekki liggja fyrir.
Hjónin tjáðu lögreglunni að O´Neill hefði verið þriðji aðilinn í hjónabandinu í mörg ár.
Þegar lögreglan komst að því að líklega væri O´Neill á heimili hjónanna fór hún þangað til að kanna ástand hans eins og fjölskyldan hafði óskað eftir.
Þegar þangað var komið varð James Agnew fyrir svörum og mun þá hafa kynnt sig sem O´Neill og sagt að hann vildi ekkert með fjölskyldu sína hafa. Lögreglumenn yfirgáfu vettvanginn en þegar þeir sögðu bróður O´Neill hvað hafði farið þeim á milli við manninn sem þeir hittu sýndu þeir bróðurnum um leið upptökur úr búkmyndavélum, af samskiptunum. Bróðirinn greindi þá lögreglunni frá því að maðurinn á upptökunni væri ekki bróðir sinn.
Lögreglumenn fóru þá aftur á vettvang og ræddu í þetta sinn við bæði hjónin. Þau sögðu fyrst að O´Neill hefði aldrei búið á heimilinu en svo breyttu þau frásögn sinni og sögðu hann hafa búið hjá þeim en hefði flutt út.
Nú var lögreglan orðin full grunsemda og rannsakaði málið frekar. Í ljós kom að James Agnew hafði aðgang að bankareikningi O´Neill og þau hjónin höfðu eytt peningum hans megnið af þeim tíma sem talið er að hann hafi verið látinn. Einu tekjur O´Neil munu hafa verið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur úr bandaríska almannatryggingakerfinu (e. Social Security) sem hann átti rétt á vegna aldurs.
Einnig kom upp úr krafsinu að O´Neill hringdi í neyðarlínuna í desember 2023 og tilkynnti að einstaklingur sem hann sagði vera meðleigjanda sinn hefði hótað honum en hins vegar afþakkaði hann aðstoð lögreglunnar.
Þetta þótti nóg til að fá heimild til að leita á heimili hjónanna og í byrjun júlí síðastliðins fannst rotnandi lík sem talið var þá víst að væri af O´Neill. Suzanne Agnew tjáði lögreglunni að tveimur vikum eftir að O´Neill hringdi í neyðarlínuna í desember 2023 hefði hún komið að honum látnum. Þau hjónin hafi hins vegar ákveðið að tilkynna ekki um andlátið af því hún hafi ekki viljað missa O´Neill sem hún kallaði Jim. Hvort að þráin eftir lífeyri hans hafi ekki skipt þau hjónin meira máli á væntanlega eftir að skýrast þegar málið fer fyrir dóm.
Sagði hún Suzanne O´Neill hafa dáið vegna veikinda en það liggur ekki fyrir hvers eðlis hin meintu veikindi voru. Hún segir þau hjónin hafa ákveðið að fela líkið undir vindsæng þar sem smáhundar hennar, af tegundinni chihuahua hafi verið byrjaðir að narta í það.
Hjónin eiga yfir höfði sér að minnsta kosti ákærur fyrir illa meðferð á líki og þjófnað en mál þeirra verður að sögn tekið fyrir í næsta mánuði á fyrsta dómstigi. Leitt er að því líkum í umfjöllun bandarískra fjölmiðla, meðal annars í ljósi áðurnefnds símtals O´Neill í neyðarlínuna og þess að hjónin höfðu komist yfir aðgang að bankareikningi hans, að O´Neill hafi verið á valdi hjónanna og þolandi heimilisofbeldis. Hvort sú var raunin og hvort að eitthvað meira en veikindi liggja að baki dauða O´Neill mun væntanlega skýrast frekar.
Óhætt er hins vegar að segja að þetta fjölkæra samband hafi endað á máta sem vart er hægt að kalla annað en viðurstyggilegan.