fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fréttir

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 17. ágúst 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íris Alma Vilbergsdóttir ræðir í hlaðvarpi sínu, Krónusögurnar mínar; sannar sögur úr veskinu, um fjármál, basl og bata. DV hefur áður fjallað um námslán sem Íris tók fyrir BA-námi og síðan fyrir mastersnámi í Skotlandi. 

Sjá einnig: Íris hefur greitt af námsláni í 17 ár – Lánið er 800 þúsund hærra í dag:  „Námslánið kæfir þig“

Sjá einnig: Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“

Og einnig um sparnaðarreynslu Írisar sem segir erfitt að tilheyra sér nýja hugsun og byrja að spara þegar maður er vanur blankheitum og þurfa að velta hverri krónu fyrir sér.

Sjá einnig: Íris segir erfitt að losna við blankheitahugsun og byrja að spara: „Peningurinn rennur ekkert út, hann myglar ekkert, hann verður þarna og þú getur bara geymt hann“

Í fjórða þætti hlaðvarpsins er komið að stærstu fjárfestingu okkar flestra, íbúðakaupum. Íris segir frá sínum fyrstu íbúðarkaupum og því að selja of snemma. Hún deilir lærdóminum sem hún dró af því, fasteignaviðskiptum eftir hrun og hvernig hún forðast að láta lánin gleypa ráðstöfunartekjur sínar. Hún ræðir einnig um þá sem eiga peninga líkt og Haraldur Ingi Þorleifsson og Bjarni Benediktsson, og segir ekkert aðdáunarvert við að eiga fullt af peningum, heldur hvernig viðkomandi fór að því að eignast þá.

Átti engan pening en keypti íbúð á 100% láni með smá svindli 

Árið 2003 bjó Íris í Reykjavík ásamt dóttur sinni, vann á leikskóla og leigði íbúð. Hún ákvað að kaupa sér íbúð og tók 80% lán og einnig lán fyrir innborgun, án þess að eiga pening.

„Það var ekkert mál. Ég fékk lánaðan pening til að leggja inn í bankann til þess að sýna fram á að ég ætti innborgun, fékk svo lán og svo tók ég heimild til þess að borga manneskjunni sem lánaði mér til baka. Ég gat keypt mér íbúð og ég keypti mér íbúð í Rauðarárstíg. Ég var með heimild upp á níu hundruð þúsund sem var innborgunin.

Íris flutti til Akureyrar í háskólanám og leigði íbúðina út. Heimildin fór að naga hana. 

Mér fannst óþægilegt að vera með þessa heimild, mér fannst ég vera á skuldum vafin, þetta voru bara einhver kvíðaviðbrögð hjá mér þar sem að þar sem ég var í rauninni að búa til var vanlíðan út af einhverju sem ég hefði ekki þurft að gera og ég hefði getað átt þessa íbúð.

Þrátt fyrir að móðir hennar ráðlagði henni að selja ekki þá seldi Íris íbúðina. Hún tapaði hvorki né græddi á sölunni, greiddi upp heimildina og lánið. Ári síðar tvöfaldaðist íbúðin í verði.

Þetta er fyrsta stóra tapið mitt. Þetta er öðruvísi tap heldur en námslánstapið mitt sem við ræddum í fyrstu tveimur þáttunum. Vegna þess að það er tap náttúrulega á raunverulegum peningum.

Íris var 26 ára og telur að hún hefði grætt 10 milljónir á íbúðinni hefði nú beðið með að selja hana. Veltir hún fyrir sér hvað hún hefði getað gert við þann pening. 

Dóttirin greiddi útborgun í næstu íbúð

Árið 2010 þegar hún flutti heim frá Skotlandi, þar sem hún var í mastersnámi, vegna andláts í fjölskyldunni var íbúð laus til leigu í sama húsi og móðir hennar bjó í. Íris leigði hana fyrir um 100 þúsund á mánuði. Bankinn hafði eignast íbúðina á nauðungarsölu og tveimur árum seinna kom að því að bankinn vildi selja.

Og þá náttúrlega gerði ég tilboð í íbúðina. Og þarna gerði ég mín fyrstu virkilega góðu fjárhagslegu ákvörðun. Ég tók myndir af öllu sem var að íbúðinni. Það var ýmislegt að. Það þurfti að skipta um parket, mála hana, það þurfti helst að skipta um eldhúsinnréttingu og svolítið að gera hana upp. Og svo var ég leigjandi þannig að mitt tilboð var tekið væntanlega til greina fyrst en hún var aldrei sett held ég formlega á sölu. Ég fór aldrei í neitt verðstríð við neinn, ég bauð bara í íbúðina sem leigjandi. Ég bauð sautján milljónir, lánið var upp fjórtán milljónir.

Dóttir Írisar borgaði útborgunina og var meðeigandi að íbúðinni. Íris segir íbúðina hafa verið frábæra og hún bjó þar í nokkur ár. Síðan flutti hún erlendis og leigði íbúðina á meðan. Þegar hún kom heim ákvað hún að taka íbúðina í gegn og allt var rifið út nema baðkarið. Segir hún framkvæmdirnar hafa verið mjög budduvænar, flestallt úr Ikea og Rúmfatalagernum.

Ég og dóttir mín hönnuðum þetta saman. Þarna var hún orðin átján ára. Þegar framkvæmdin var búin þá endurfjármagnaði ég íbúðina. Þarna var ég komin með alveg svakalega fína íbúð og ég bjó þarna áfram í nokkur ár í viðbót.

Dóttirin átti 20% hlut og Íris hækkaði seinna hlut dóttur sinnar í 40%

„Mér fannst bara einhvern veginn eins og hún ætti það skilið, ég hefði ekki átt íbúðina ef ekki hefði verið fyrir innborganir hennar. Hún hjálpaði mér að kaupa hana þannig að mér fannst bara eins og við ættum báðar að njóta góðs af.

Seinna seldu þær íbúðina, og keyptu sér sitt hvora íbúðina. Íris keypti 60 fm íbúð, sem hún þurfti síðar að taka í gegn, á þrjátíu milljónir. 

Ég hafði ekki efni á því að eyða fimm milljónum í viðbót við íbúð sem var búið að gera upp af því það var svona sirka munurinn á íbúð af þessari stærð. Það sem var í ferli á þeim tíma var arfur og ári eftir að ég keypti íbúðina, 2020, þá gerði ég hana upp og bjó ég í íbúðinni á meðan á framkvæmdinni stóð.

Hefur ekki alltaf lúxus til að hugsa lengra en hér og nú

Í dag býr Íris í íbúð sem hún keypti á 30 milljónir og segist hún myndu fá um 10 milljónir í vasann ef hún myndi selja hana. Tvö lán eru á íbúðinni, um 24 milljónir og segist Íris greiða um 110 þúsund í heild af þeim á mánuði. Íris segist hafa þurft að taka það lán sem var með lægstu afborgunina þegar hún keypti. 

Maður hefur ekki alltaf lúxusinn að velja. Það er alveg sama þó ég væri betur sett eftir tuttugu ár ef ég hefði tekið öðruvísi lán. Það sem skipti máli er það að ég þurfti að fá eins lágar afborganir eins og ég gat og þetta var þá þannig að ég er með lán sem að staðan er 33.122.361 króna. Hitt lánið er upp á 883.945 kr. Þannig að núna er ég með lán upp á 34 milljónir og hugsa að ég gæti fengið allavega 10 milljónir aukalega ef ég sel hana.

Íris segir það þó ekki koma til greina, 10 milljónirnar myndu ekki dekka námslánaskuldina og hún gæti ekki fengið leigt fyrir 110 þúsund krónur á mánuði.

Það eina sem þetta gerir fyrir mig er að ég á eignir umfram skuldir. Það á alltaf að vera takmarkið. Þú þarft ekki alltaf að vera skuldlaus. Þú ert í rauninni ekki virkilega í vandræðum nema þú eigir ekki eignir umfram skuldir. Ég á eignir umfram skuldir vegna þess að ég skulda bara íbúðalán. Og ég á eignina sem er meira virði heldur en lánið. Ég á bíl sem er einnar milljón króna virði og ég skulda ekkert í honum og hef aldrei gert. Og svo skulda ég námslán. Og námslán erfast ekki og þau hækka ekki nema launin þín hækki.  

Ef ég myndi lenda í vandræðum, þá á ég eign til að selja. Og ef ég dett dauð niður, þá á dánarbúið mitt eignir umfram skuldir. Og það er í rauninni eina takmarkið mitt.

Erfitt að koma sér úr skuldahring neyslulána

Íris ræðir neyslulán og hversu hættuleg þau eru. Erfitt sé að koma sér út úr slíkum skuldum.

Auðvitað langar mig að hafa það ennþá betra. Mig langar að eiga líka sparifé. Og eiga kannski enn betri bíl og svo framvegis. En það er í rauninni lúxus, umfram það sem ég get gert. Ég er núna búin að minnka starfshlutfallið mitt af því ég er að koma mínu eigin fyrirtæki á koppinn.

Hver er þinn staðall á því að lifa góðu lífi? Og minn standard byggir á minni persónulegu reynslu, sem er sú að hafa baslað og baslað, oft bara virkilega erfitt. Og þegar ég var yngri og dóttir mín var yngri, þá átti ég kannski fyrir öllum reikningum og svo kannski fimmta hvers mánaðar þá var bara peningurinn búinn.

Íris ræðir hrunið og segir blanka fólkið hafa komist að því að þeir sem áttu flottar fasteignir og bíla hafi verið með eignirnar á fullum lánum og utanlandsferðir á kreditkortum.

Og eftir hrunið þá urðu rosalega mikil viðhorfsskipti hjá mér varðandi það hvað er að vera ríkur og hversu impressív eru eignir. Ég verð ekki impress af því að einhver á bíl vegna þess að það að eignast bíl er enginn dugnaður í rauninni. Af því að ég hef ekki hugmynd um hvernig maðurinn eignaðist þennan bíl. Hún gæti verið með hann á leigu, hún gæti verið með hann á níutíu og fimm prósent láni sem er að drepa manneskjuna. Ef þú ert með Tesluna alla á bullandi láni sem kostar tugþúsundir á mánuði að borga og þú átt ekki einu sinni, þú þarft ennþá að fara heim til mömmu og pabba, það er alveg svo hræðilegt. Þannig að þá vegur svona hallærisleikinn upp á móti því sem er impressive.

Talar Íris um Harald Inga Þorleifsson og það sé aðdáunarvert hvernig hann eignaðist auð sinn, ekki að hann sé auðugur. Hann er bara ofboðslega klár maður sem bjó til vöru sem gekk vel. Hann seldi hana, tók bara mjög góða viðskiptalega ákvörðun og hélt áfram að vinna fyrir fyrirtækið og hélt áfram að rúlla í seðlum. Þetta er impressive, ekki það að hann eigi svona mikinn pening heldur hvernig hann eignaðist þennan pening. 

Íris fer eins yfir stjórnmálamenn og segir ekkert aðdáunarvert við Bjarna Benediktsson, fyrrum fjármálaráðaráðherra, sem alist hafi upp við að rigndi yfir hann peningum.

Hann hefur aldrei þénað neina peninga. Hann hefur aldrei gert neitt impressive til þess að eignast þessa peninga. Hann hefur bara verið stjórnmálamaður. Og hefur svo bara haft endalaust tækifæri til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem var vitað að myndi ganga vel. Og svo hefur hann getað afskrifað lán og slíkt. Þannig að hvað er impressive við það? Bara ekki neitt. Að eiga peninga er ekki impressive.

Ef þú þarft að taka lán fyrir því þá hefurðu ekki efni á því

Bendir Íris á að með því að auka afborganirnar þínar í lán og í neyslu, að þá ertu í rauninni að halda þér blönkum. Margir sem fá hærri tekjur fari og kaupi sér hluti á raðgreiðslum og auki þannig afborganir og lán.

„Hefurðu í rauninni efni á því? Ef þú þarft að taka lán fyrir því þá hefurðu ekki efni á því. Ég hef alltaf keypt mín heimilistæki á raðgreiðslum, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki verið í þeirri aðstöðu í lífinu að geta hent fram hundrað þúsund kalli þegar ísskápurinn bilaði. En ég hef heldur aldrei keypt mér ísskáp vegna þess að mig langaði í nýjan ísskáp. Ég hef bara keypt ísskáp vegna þess að ísskápurinn bilaði sem ég átti og núna þarf ég að kaupa mér nýjan ísskáp, og þá keypti ég mér ódýrustu týpuna sem var samt í góðu lagi.

Þetta er mín lógík í peningamálum, að þú getur ekki í rauninni meðan ráðstöfunin hjá þér sem að þú hefur bara til þess að eyða í nammi, popp og kók, ef að það er alltaf það sama, þá ertu ekki í rauninni neitt ríkari heldur en ég til dæmis. Ef ég bý í þessari litlu íbúð og á minn bíl sem engar afborganir eru af og og hef ákveðið mikinn pening til þess að eyða, þá skiptir engu máli hvort þú átt miklu flottari íbúð, miklu flottari bíl og allt það, ef þú átt ekki jafn mikið á debetkortinu þínu sem að þú mátt eyða eins og ég.

Íris segist ekki hafa stóra drauma um um að eiga rosalega fína hluti. Draumurinn hennar snúist um að þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum. Af því hún hafi oft upplifað það að þurfa að hafa áhyggjur af peningum. Segist hún alltaf vilja vera í lúxusstöðu, en hún sé ekki tilbúin til að fara styttri leið til þess, að taka lán fyrir því, því það þurfi að greiða til baka með miklu hærri greiðslu.

„Ég hef allar fastar afborganir í eins miklu lágmarki eins og ég get til þess að hafa nóg svigrúm. Vegna þess að ef ég er búin að festa alla peningana mína þá hef ég ekkert svigrúm.

Hlusta má á fjórða þáttinn í hlaðvarpi Írisar Ölmu hér:

Íris Alma er eigandi ÍA fjármál og einnig má fylgja henni á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“