fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
Fréttir

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 15. ágúst 2025 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlanefnd hefur sektað Símann fyrir að birta á nokkurra mánaða tímabili á sjónvarpsstöðinni Síminn Sport auglýsingar fyrir erlent veðmálafyrirtæki sem hefur ekki starfsleyfi á Íslandi. Er það niðurstaða nefndarinnar að með þessu hafi Síminn brotið gegn lögum um fjölmiðla.

Það voru Íslenskar Getraunir sem lögðu kvörtun, vegna auglýsinganna, fram í mars 2024 en auglýsingarnar höfðu þá fyrst birst á Síminn Sport í desember 2023. Í kvörtuninni kom fram að í auglýsingunum væri starfsemi vefsíðunnar Rizx auglýst en þar væri boðið upp á ýmsa leiki þar sem spilað væri upp á peninga. Töldu Íslenskar getraunir þetta brjóta í bága við ákvæði fjölmiðlalaga en samkvæmt þeim er fjölmiðlum ekki leyfilegt að auglýsa veðmálafyrirtæki sem hafa ekki starfsleyfi á Íslandi.

Við skoðun málsins kom í ljós að auglýsingarnar snerust um að auglýsa vefsíðuna Rizk.fun en Íslenskar getraunir töldu þá vefsíðu stofnaða til málamynda til að fara framhjá ákvæðum laganna og verið væri með óbeinum hætti að auglýsa Rizk.com þar sem væri boðið upp á veðmál. Bentu Íslenskar getraunir á að auglýsingarnar hefðu birst um 300 sinnum á þessu þriggja mánaða tímabili á Síminn Sport.

Andmæli

Síminn andmælti þeim orðum Íslenskra getrauna að um villandi auglýsingar væri að ræða og einnig því að auglýsingarnar gengju út á að auglýsa veðmálastarfsemi. Væri auglýsing villandi bæri hins vegar viðkomandi auglýsandi ábyrgð á því og málið ætti þá heima hjá Neytendastofu. Vildi Síminn meina að hvergi á Rizk.fun væri að finna neitt sem snerist um veðmálastarfsemi heldur leiki sem væru ókeypis. Þar með væri í þessu tilfelli verið að auglýsa löglega starfsemi. Ekkert í auglýsingunum hafi vísað til veðmálasíðunnar Rizk.com/is. Taldi Síminn því fyrirtækið ekki hafa brotið gegn ákvæðum fjölmiðlalaga.

Fjölmiðlanefnd taldi hins vegar ljóst að auglýsingarnar væru í raun viðskiptaboð fyrir veðmálastarfsemi Rizk. Síminn taldi nefndina ekki færa fullnægjandi rök fyrir þessu eða hafa lagt fram gögn þessari niðurstöðu til stuðnings. Síminn stóð fast á því að auglýsingarnar snerust um leikjasíðuna Rizk.fun en þótt hún væri rekin undir sama vörumerki og veðmálasíðan þá væri um ólíka starfsemi að ræða. Tók Síminn ekki undir að verið væri að auglýsa vörumerkið sem slíkt en ekki eingöngu leikjasíðuna.

Röksemdir Símans dugðu þó ekki til að sannfæra Fjölmiðlanefnd um að fyrirtækið hefði ekki með birtingu auglýsinganna brotið gegn áðurnefndum ákvæðum fjölmiðlalaga.

Fram kemur í ákvörðun Fjölmiðlanefndar að vörumerkið Rizk og þar með áðurnefndar veðmálasíða og leikjasíða séu í eigu maltnesks fyrirtækis sem sjálft sé í eigu sænska veðmálarisans Betsson.

Það er niðurstaða nefndarinnar að með auglýsingunum hafi Síminn gerst brotlegur við ákvæði fjölmiðlalaga um bann við auglýsingum frá veðmálafyrirtækjum sem hafi ekki starfsleyfi á Íslandi. Þykir nefndinni við hæfi að sekta Símann um eina milljón króna en við ákvörðun upphæðarinnar var meðal annars tekið mið af því að Síminn hafði ekki áður brotið gegn þessum ákvæðum fjölmiðlalaga.

Ákvörðun Fjölmiðlanefndar er hægt að kynna sér nánar hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt