fbpx
Fimmtudagur 14.ágúst 2025
Eyjan

Sjálfstæðisflokkurinn: Innistæðulausir frasar – ætti heldur að hlusta en tala

Ólafur Arnarson
Fimmtudaginn 14. ágúst 2025 17:21

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öllum er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn má muna fífil sinn fegurri. Ekki eru mörg ár síðan hann tróndi sem turn yfir íslenskri pólitík og gat verið nokkuð öruggur um að stjórnarmyndun án hans væri illmöguleg, oftast ómöguleg. Flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn í 70 ár frá lýðveldisstofnun, 1944, og því aðeins verið utan stjórnar í 11 ár á þeim tíma. Hingað til hefur aldrei liðið meira en eitt kjörtímabil milli þess sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn.

Í gegnum tíðina hefur flokkurinn tamið sér nokkurt yfirlæti gagnvart öðrum flokkum og gagnvart kjósendum í landinu. Smám saman hefur jarðsambandið dofnað og nú má líta svo á að það hafi nánast rofnað. Ástæðan kann að vera sú að Sjálfstæðisflokkurinn talar ekki við fólkið í landinu, hann talar til þess og jafnvel niður til þess. Flokkurinn hlustar ekki á aðra en þá sem hann telur verðuga og verðugir eru einungis þeir sem Morgunblaðið hefur í hávegum og í þeim hópi eru einungis eigendur blaðsins og viðhlæjendur þeirra. Svona var þetta ekki alltaf.

Í gegnum tíðina hefur Sjálfstæðisflokkurinn mikið notað slagorð, sem alls ekki er óalgengt þegar um stjórnmálaflokka ræðir. Frægt er þegar flokkurinn keyrði slagorðið „Báknið burt!“ eins og enginn væri morgundagurinn. En báknið hvarf ekki, síður en svo. Það þandist út og festi sig æ betur í sessi. Erfitt er að draga einn flokk til ábyrgðar fyrir það annan en þann sem hefur stjórnað landinu nær sleitulaust frá lýðveldisstofnun.

Árið 2007 var yfirskrift landsfundar Sjálfstæðisflokksins „Nýir tímar á traustum grunni.“ Við munum hve traustur sá grunnar var sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði lagt. Við munum hvernig fór um sjóferð þá. Svo sannarlega komu nýir tímar.

Árið 2009 var yfirskrift landsfundar „Göngum hreint til verks“. Það var á þessum fundi sem Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður flokksins og brottrekinn seðlabankastjóri kom í ræðustól og kyrjaði reiðilestur yfir landsfundarfulltrúum, fann naflaskoðunarskýrslu í kjölfar hrunsins sem unnin hafði verið undir forystu Vilhjálms Egilssonar allt til foráttu og sópaði henni undir teppi, jós Vilhjálm fúkyrðum. Þar var gengið mjög hreint til verks til að drepa gagnrýna umræðu innan flokksins, umræðu sem ekki var vanþörf á. Enn þann dag í dag hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert upp hrunið og sinn veigamikla þátt í því. Líkast til á það sinn þátt í því að flokkurinn ráfar nú um sem stefnulaust rekald sem berst í raun ekki fyrir neinu nema hagsmunum eigenda sinna og Morgunblaðsins. Endurspeglast það í dvínandi fylgi hans.

Árið 2010 mun yfirskrift landsfundar hafa verið „Frelsi – ábyrgð – umhyggja.“ Frelsi hverra til hvers? Ábyrgð hverra? Ekki ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þeirri stjórnarstefnu sem endaði með efnahagshruni hér á landi. Umhyggju fyrir hverju? Í seinni tíð hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki sýnt sig að vera mjög umhyggjusamur nema e.t.v. um sérhagsmuni hinna ríkustu, og þá aðeins að auðurinn stafi af nýtingu sameiginlegrar þjóðarauðlindar.

Árið 2011 var landsfundur undir yfirskriftinni „Nýtum tækifærin.“ Um það er fátt að segja annað en að þá var flokkurinn í stjórnarandstöðu, aldrei þessu vant, og hafði engin áhrif á stjórn landsins. Ekki var að sjá í þingmálalista flokksins með hvaða hætti hann hygðist „nýta tækifærin.“

Fyrir kosningarnar 2013 lofuðu allir foringjar Sjálfstæðisflokksins að á kjörtímabilinu fengi þjóðin á ákveða framhalda aðildarumsóknarinnar að ESB. Það var svikið eftirminnilega og formaður flokksins taldi loforð sitt og sinna manna léttvægt þar sem „pólitískur ómöguleiki“ væri að halda áfram með ESB umsóknina vegna þess að ekki væri meirihluti fyrir aðild á þingi. Kom þar vel í ljós að flokkurinn talar ekki við fólkið í landinu heldur talar hann niður til þess. Afrakstur þessara svika var stofnun Viðreisnar sem nú situr í vinsælli ríkisstjórn með Samfylkingu og Flokki fólksins á meðan Sjálfstæðisflokkurinn skreppur æ meira saman. Sennilega hafa Valhallarbændur talið að Viðreisnarfólk þyrfti bara aðeins að fá útrás og svo kæmi það þægt og undirgefið aftur á sinn bás í Valhallarfjósinu.

Yfirskrift síðasta landsfundar var „Á traustum grunni til framtíðar.“ Kjósendur mátu það svo að grunnurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hreykti sér af væri alls ekki traustur og breyta þyrfti um kúrs til að skapa bjartari framtíð. Kjósendur sögðu upp þjónustusamningnum við Sjálfstæðisflokkinn og kölluðu valkyrjurnar að ríkisstjórnarborðinu. Eftirleikurinn er vel þekktur. Ekki hefur Sjálfstæðisflokkurinn bætt stöðu sína frá kosningum.

Kjósendur eru í vaxandi mæli farnir að átta sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn er í raun ekkert nema frasaflokkur. Hann gubbar upp úr sér fallegum frösum sem engin innistæða er fyrir, enginn vilji til að standa við. Vilji flokkurinn snúa við dæminu þarf hann að loka þverrifunni og fara að hlusta. Eins og sagt er þá gaf guð okkur einn munn en tvö eyru. Í því felast skilaboð sem Sjálfstæðisflokkurinn, hinn guðhræddi, hefur enn ekki meðtekið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Könnun – Ísland og Evrópusambandið

Könnun – Ísland og Evrópusambandið
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Össur segir Guðlaug Þór hafa farið viljandi með rangt mál – „Bókstaflega skrældur í tætlur eins og hýði af gamalli kartöflu“

Össur segir Guðlaug Þór hafa farið viljandi með rangt mál – „Bókstaflega skrældur í tætlur eins og hýði af gamalli kartöflu“