fbpx
Sunnudagur 10.ágúst 2025
Fréttir

Slasaðist þegar rafhlaupahjól stöðvaðist skyndilega en fær engar bætur

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 9. ágúst 2025 18:00

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hefur staðfest synjun tryggingafélags á kröfu einstaklings um greiðslu úr ábyrgðartryggingu fyrirtækis sem leigir út rafhlaupahjól. Féll viðkomandi af rafhlaupahjóli fyrirtækisins, sem hann var með á leigu, og slasaðist þegar það stöðvaðist skyndilega vegna bilunar.

Enginn af aðilum málsins er nefndur á nafn í opinberri útgáfu úrskurðarins.

Í apríl 2023, varð umræddur einstaklingur fyrir líkamstjóni þegar rafhlaupahjól sem hann ók stöðvaðist skyndilega með þeim afleiðingum að hann fór í kollhnís af hjólinu og lenti illa. Var varanleg örorka hans vegna þessa slyss metin 7 prósent. Kröfu sína um bætur úr ábyrgðartryggingu leigusala rafskútunnar, sem tryggingafélagið hafnaði, byggði hinn slasaði á að vanbúnaður rafhlaupahjólsins hafi leitt til þess að það stöðvaðist skyndilega. Skynjari í því hafi verið bilaður og vitneskja hafi verið til staðar hjá leigusalanum varðandi það að ýmiss konar vandamál hafi verið með skynjarana og hafi viðgerð á þeim verið innleidd nokkrum mánuðum fyrir slysið.

Tölvupósturinn

Sagði hinn slasaði þetta koma fram í tölvupósti til hans frá starfsmanni fyrirtækisins sem leigði honum rafhlaupahjólið. Sagði hann ótækt að ekki hafi verið brugðist fyrr við og viðgerðir framkvæmdar á umræddum skynjurum, enda hafi vitneskja um vanbúnað þeirra legið fyrir í nokkra mánuði. Tryggingafélagið hafi byggt höfnun sína á því að hugbúnaður hafi verið bilaður og að fyrtækið sem leigði honum hjólið hafi ekki haft neina vitneskju um þá bilun. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu tryggingafélagsins  þessu til stuðnings

Í bréfi tryggingafélagsins til nefndarinnar kom fram að við skoðun á rafhlaupahjólinu eftir slysið hafi komið í ljós bilun í hugbúnaði sem hafi valdið því að það stöðvaðist. Slíkt hafi ekki gerst áður og hafi leigusalinn enga vitneskju haft um þessa bilun en hafi brugðist strax við og uppfært búnaðinn, en þessi bilun geti hafa átt við um örfá tæki í eigu fyrirtækisins, og hafi engin önnur tilvik átt sér stað vegna sömu bilunar. Þau vandamál sem hafi áður verið þekkt hafi tengst því að rafhlaupahjólin færu ekki stað og væri því annars eðlis en sú bilun sem olli þessi slysi. Þar með hafi ekki verið sýnt fram á saknæma háttsemi af hálfu fyrirtækisins sem leitt hafi til slyssins.

Sanna

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum er minnt á að samkvæmt sönnunarreglum skaðabótaréttar beri hinum slasaða að sanna að líkamstjón hans megi rekja til saknæmrar háttsemi af hálfu fyrirtækisins sem leigði honum rafhlaupahjólið.

Segir nefndin það óumdeilt að slysið sem hinn slasaði varð fyrir megi rekja til þess að rafhlaupahjólið sem hann var á stöðvaðist skyndilega, og að þá stöðvun sé að rekja til bilunar í búnaði þess. Í þeim tölvupósti sem hinn slasaði vísi til, á milli hans og starfsmanns fyrirtækisins sem leigði honum hjólið, komi fram að um bilun í skynjara hjólsins hafi verið að ræða og hafi þetta aldrei gerst áður. Þá segi í póstinum að viðgerð á skynjurum hjólanna standi yfir til að losna við alls konar vandamál sem hafi valdið því að hjólin færu ekki af stað. Hafi starfsmaðurinn sagst hafa sterkan grun um að þessi bilun hafi orðið vegna þess að skynjarar hafi byrjað að vera lélegir og ekki búið að gera þá upp enn.

Vissu ekki

Nefndin segir þetta sýna fram á að fyrirtækinu hafi verið kunnugt um vandamál sem ollu því að rafhlaupahjól þess færu ekki af stað við leigu. Þó slík vandamál séu vissulega hvimleið verði ekki séð að þau feli í sér slysahættu. Verði því ekki litið svo á að það að uppfærslu allra skynjara hafi ekki verið lokið þegar slysið varð feli í sér saknæma vanrækslu af hálfu fyrirtækisins. Það hafi heldur ekki verið sýnt fram á að vitneskja um að hjólin gætu bilað með þeim hætti að þau stöðvuðust skyndilega hafi verið til staðar fyrir slysið. Engin gögn um umræddan skynjara, gerð hans, virkni eða ástand, hafi heldur verið lögð fyrir nefndina.

Kröfu hins slasaða um bætur vegna slyssins, sem hann varð fyrir vegna skyndilegrar stöðvunar rafhlaupahjólsins, var því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Múslimum bannað að halda trúarhátíðir á opinberum stöðum

Múslimum bannað að halda trúarhátíðir á opinberum stöðum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi