Tveir karlmenn á þrítugsalddri eru ákærðir fyrir að hafa ruðst inn í íbúð í Akranesi í heimildarleysi. Það hefur hins vegar ekki tekist að hafa uppi á þeim og því er birt fyrirkall og ákæra á hendur þeim báðum í Lögbirtingablaðinu.
Atvikið átti sér stað í september 2024 og eru báðir mennirnir ákærðir fyrir húsbrot en kringumstæðum er ekki lýst nánar og það er því ekki ljóst hvort mennirnir hafi þekkt til íbúa í íbúðinni, talið sig eiga eitthvað sökótt við viðkomandi eða hvort eitthvað annað hafi legið að baki athæfi mannanna.
Mennirnir eru jafnaldrar og báðir skráðir með ótilgreint heimilisfang í þjóðskrá. Það hefur því ekki tekist að hafa upp á mönnunum til að birta þeim ákæruna.
Með fyrirkalli eru þeir kvaddir til að mæta fyrir Héraðsdóm Vesturlands en þess er krafist í ákærunni að þeir verði báðir dæmdir til refsingar.
Mál þeirra beggja verður tekið fyrir á dómþingi í september næstkomandi en mæti þeir ekki má búast við að það verði metið sem ígildi játningar og sakfelling yfir þeim báðum myndi væntanlega fylgja í kjölfarið.