Vísindamenn í Suður-Afríku hafa hrundið af stað byltingarkenndu verkefni gegn veiðiþjófnaði þar sem örlitlu magni af geislavirkum efnum er sprautað í horn nashyrninga. Tilgangurinn er sá að torvelda ólöglegan útflutning veiðiþjófa og smyglara. BBC greinir frá.
Aðferðin er hluti af svokölluðu Rhisotope-verkefni háskólans í Witwatersrand, sem kynnt var formlega á föstudag eftir sex ára rannsóknir og prófanir. „Með þessari tækni viljum við vernda ekki aðeins nashyrninga heldur líka hluta af náttúruarfleifð Afríku,“ segir Jessica Babich, verkefnastjóri Rhisotope.
Í tilraun sem náði til tuttugu nashyrninga sýndu niðurstöður að geislavirka efnið skaðar hvorki dýrin né horn þeirra. Hins vegar verður það sýnilegt í skynjurum tollayfirvalda – jafnvel inni í lokuðum sex metra gámum. James Larkin prófessor við Wits-háskóla segir þetta geta orðið tímamót í baráttunni gegn nashyrningaveiði: „Við höfum sýnt fram á, án nokkurs vafa, að þetta er bæði öruggt og áhrifaríkt.“
Rhisotope-verkefnið var unnið í samvinnu við Alþjóðakjarnorkustofnunina (IAEA).
Yfir 400 nashyrningar eru drepnir árlega í Suður-Afríku, samkvæmt samtökunum Save the Rhino. Suður-Afríka er heimili stærsta nashyrningastofns heims. Horn þeirra eru eftirsótt í Asíu – þar sem þau eru notuð í hefðbundna lækningar eða sem stöðutákn á svörtum markaði.
Hvítu nashyrningarnir eru taldir „í útrýmingarhættu“, en svörtu nashyrningarnir eru „í bráðri útrýmingarhættu“.