Enn á ný er Heimildin gagnrýnd fyrir umfjöllun í síðasta tölublaði um áhrif ferðaþjónustunnar á samfélagið, einkum á Suðurlandi. Sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir um pólitíska aðför að ræða og með umfjölluninni sé vegið að börnum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórinn getur þess þó ekki að þau orð sem honum virðist misbjóða svo mjög eru höfð eftir íbúa í sveitarfélaginu.
Eins og DV greindi frá í gær gagnrýndi Bjarnheiður Hallsdóttir fyrrum formaður Samtaka í ferðaþjónust umfjöllunina og leiddi að því líkum að um aðför að greininni væri að ræða.
Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Heimildarinnar svaraði þessum fullyrðingum fullum hálsi og sagði eðlilegt að fjölmiðlar fjölluðu á gagnrýninn hátt um eina af umfangsmestu atvinnugreinum landsins og það lægi ekkert annað að baki en það.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri Heimildarinnar svaraði einnig fyrir sig í Facebook-færslu nú fyrr í dag. Þar gerir hún ítarlega grein fyrir þeirri miklu vinnu sem lögð var í umfjöllunina:
„Eitt er að vera ósáttur við efnistök eða áherslur miðilsins, annað að saka blaðamenn sem þar starfa að ósekju um léleg vinnubrögð, hatur eða annarlega hagsmuni. Hér var einfaldlega gerð tilraun til að staldra við og skoða áhrifin af fjöldaferðamennsku á því svæði sem er undir hvað mestu álagi, á þeim tíma sem álagið er mest. Niðurstaðan var skýr: Þarna er svæði sem er komið að þolmörkum. Eins og fram kom í umfjöllun Heimildarinnar þá hefur ferðaþjónustan gefið mikið – en hún hefur líka tekið.“
Þessi andsvör hafa þó ekki dugað til að sefa gagnrýnisraddirnar. Sveitarfélagið Mýrdalshreppur kemur mikið við sögu í umfjölluninni enda er ferðaþjónusta helsta atvinnugreinin þar. Flestir íbúar þar starfa við greinina og hlutfall íbúa af erlendum uppruna er mun hærra en á landsvísu.
Sveitarstjórinn í Mýrdalshreppi Einar Freyr Elínarson skrifar harðorða grein á Vísi þar sem hann segir umfjöllunina óvandaða og ekki sannleikanum samkvæma:
„Í besta falli tilfinningadrifinn skáldskapur – og í versta falli meðvituð tilraun til að draga heilt samfélag niður í svaðið. Þar er vegið að atvinnugreininni sem heldur byggðinni á lífi og ýjað að því að samfélagið í Vík sé í upplausn.“
Sveitarstjórinn heldur því fram að það alvarlegasta í umfjölluninni sé hvaða mynd sé dregin upp af börnum í sveitarfélaginu:
„Börnum sem fæðst hafa og alist upp á Íslandi. Börnum sem eru ekkert minna íslensk en sá sem skrifar greinina. Að halda því fram opinberlega að börn í Vík „tali ekki íslensku“ þótt þau hafi búið hér allt sitt líf, gengið í leik- og grunnskóla og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi, er ekki bara röng staðhæfing. Hún er siðlaus. Slík ummæli skapa þá hættulegu ímynd að þessi börn tilheyri ekki alveg. Að þau séu eitthvað annað – eitthvað minna.“
Það sem Einar minnist hins vegar ekki á er að þessi orð eru í umfjölluninni höfð eftir íbúa í sveitarfélaginu. Eftirfarandi er haft eftir íbúanum, sem er innfæddur Íslendingur, í umfjöllun Heimildarinnar:
„„Þetta er til skammar fyrir okkur öll að það séu börn hérna í þorpinu sem hafa fæðst hérna og búið hérna og þau tala ekki íslensku. Þetta verður svo erfitt fyrir þau. Þau detta úr námi og eiga engan séns. Mér finnst það rangt og mér finnst við öll bera ábyrgð á þessu.““
Það virðist því sem að Einar sé að beina reiði sinni í garð Heimildarinnar vegna ummæla sem íbúi viðhafði. Það er ekki í fyrsta sinn sem að einhver ræðst að fjölmiðli vegna ummæla viðmælanda.
Hvort að með greininni sé sveitarstjórinn að setja ofan í við íbúann með óbeinum hætti skal ósagt látið.
Einar lofar síðan áhrif ferðaþjónustunnar á sveitarfélagið og segir greinina hafa skapað þar fjölda starfa. Ferðamenn séu engin plága eins og haldið sé fram í umfjölluninni. Hann tekur undir að annarleg sjónarmið hljóti að liggja að baki og varpar fram órökstuddum getgátum um hver þau geti verið. Sveitarstjórinn ítrekar að lokum þá skoðun sína að með umfjölluninni sé vegið að börnum í sveitarfélaginu en horfir algerlega framhjá því að um er að ræða skoðanir og upplifun íbúa í hreppnum sem hann er ráðinn til að stýra dags daglega:
„Slík framganga gengur ekki aðeins gegn öllu sem heilbrigð samfélagsumræða á að standa fyrir – hún vegur að sjálfri samkenndinni sem samfélagið okkar á að byggja á. Við í Vík höfum þar fyrir utan ekki sett það fyrir okkur að taka á móti börnum sem ekki tala íslensku og viðhöfum ekki sleggjudóma um þau eða foreldra þeirra. Markmiðið er að þau og fjölskyldur þeirra fái menntun við hæfi og stuðning til að verða þátttakendur í samfélaginu.“
Hvort Einar sé með þessum orðum að gagnrýna Heimildina beint eða óbeint íbúann sem viðhafði þau orð að það væru börn sem hefðu búið alla ævi í Mýrdalshreppi en töluðu ekki íslensku verða lesendur að meta sjálfir. Grein hans virðist hins vegar ekki að öllu leyti bregða upp réttri mynd af viðhorfum að minnsta kosti sumra íbúa í Mýrdalshreppi.