fbpx
Laugardagur 02.ágúst 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Höfundur hrunsins toppar sjálfan sig – kallar Kristrúnu og Þorgerði Katrínu „fermingarstúlkur“

Eyjan
Fimmtudaginn 31. júlí 2025 10:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að ritstjóri Morgunblaðsins hafi toppað sjálfan sig í ósmekklegheitum með leiðara blaðsins í gær. Þarf þó mikið til vegna þess að leiðararnir hafa margir verið ærið steiktir, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Má sem dæmi nefna leiðarann sem birtist á þriðjudag þar sem leiðarahöfundur tók undir samsæriskenningar villta hægrisins í Bandaríkjunum um Obama fyrrverandi forseta.

Orðið á götunni er að enginn vafi leiki á því að leiðarahöfundurinn bæði á þriðjudag og í gær sé Davíð Oddsson, sem í leiðaranum í gær kallaði Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra, „fermingarstúlkur“ og lýsti í löngu máli fyrirlitningu sinni á þeim tveimur og augljóst að Davíð Oddssyni misbýður að þær skuli réttkjörnar til valda hér á landi.

Leiðarinn segir raunar meira um þann sem hann ritar en þær sem honum er ætlað að niðurlægja. Það er reyndar gömul saga og ný að Davíð talar inn í hóp innvígðra og innmúraðra fordómagikkja sem dýrka manninn og dá en nær ekki til annarra, jafnvel fælir frá. Um það vitnar árangur Sjálfstæðisflokksins í kosningum og sneypuför Katrínar Jakobsdóttur í forsetakosningunum í fyrra, en hún var rækilega studd af Morgunblaði Davíðs Oddssonar.

Orðið á götunni er skrif Davíðs missi fullkomlega marks. Einkennileg sé innréttingin á efri hæðinni hjá manni sem kallar 37 ára gamla manneskju sem stigið hefur inn á sviðið af reisn og glæsibrag og tekið sér stöðu meðal Þjóðarleiðtoga „fermingarstúlku“. Ekki síður sé undarlegt að vísa til reynslubolta með langa ráðherrareynslu, manneskju sem verður sextug í haust, sem „fermingarstúlku“.

Orðið á götunni er að Davíð sé vísast búinn að gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn gerði hann að borgarstjóra 34 ára gamlan, árið 1982, embætti sem gjarnan var jafnað við ráðherrastól, jafnvel forsætisráðherrastól. Hafði hann það þá helst sér til frægðar unnið, utan Útvarps Matthildar, að hafa gegnt starfi skrifstofustjóra Sjúkrasamlags Reykjavíkur og síðar framkvæmdastjórn, stöður sem Sjálfstæðisflokkurinn skákaði honum í – flokksskírteinið dugði Davíð eins og svo mörgum bæði fyrr og síðar. Óhætt er að segja að mjög hallar á Davíð þegar ferill hans fram að því að hann tók við miklu pólitísku embætti er borinn saman við feril bæði Kristrúnar og Þorgerðar Katrínar.

Orðið á götunni er að vel megi rifja það upp að borgarstjórnin hjá Davíð gekk ekki betur en svo að Reykjavíkurborg þurfti bráðahjálp ríkisins til að forða ógjaldfærni um 1990. Bjargvættur hans reyndist vera Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, sem veitti borginni neyðarlán.

Orðið á götunni er að ekki megi heldur gleyma því að Davíð Oddsson er höfundur hrunsins. Hann stýrði ríkisstjórn í þrettán ár sem skapaði aðstæður hrunsins og var svo seðlabankastjóri í aðdragandi þess. Það var seðlabanki Davíðs sem kom í veg fyrir að íslensku bankarnir fengu að gera reikninga sína upp í evrum sem reyndist örlagaríkt vegna þess að sá gjörningur felldi íslensku krónuna, en það var fall krónunnar sem öðru fremur skóp hið algera íslenska efnahagshrun.

Orðið á götunni er að ekki megi gleyma því að Davíð startaði sjálfu hruninu hér á Íslandi þegar hann ætlaði að nýta sér þá neyð sem Íslandsbanki var kominn í, m.a. vegna þess að seðlabanki Davíðs þurrkaði upp lánalínur til Íslands í erlendum bönkum og stóð þar með í vegi fyrir endurfjármögnun Glitnis á láni í erlendum banka. Þegar Glitnir leitaði til Seðlabankans um aðstoð hélt Davíð að hann gæti tekið léttan snúning og í einu vetfangi fellt Íslandsbanka og þar með gert út af við eigendur hans, sem hann lagði hatur á, og komið bankanum fyrir slikk í hendur vina sinna í Landsbankanum. Þessi aðgerð hratt af stað atburðarásinni sem felldi alla stóru íslensku viðskiptabankana á þremur sólarhringum.

Afglöp Davíðs í Seðlabankanum voru slík og afleiðingarnar svo hræðilegar að vitaskuld var það fyrsta sem ný ríkisstjórn gerði að reka manninn, koma honum út úr Seðlabankanum, sem hann hafði í raun gert gjaldþrota að svo miklu leyti sem hægt er að gera seðlabanka gjaldþrota í ríki sem hefur sína eigin mynt. Gjaldeyrisvaraforðinn var horfinn.

Orðið á götunni er að við lestur hótfyndni og aulabrandara í leiðurum Davíðs Oddssonar sé hollt að rifja upp þann sviðna akur sem eftir þann mann liggur, enda er hann eini Íslendingurinn sem Time Magazine útnefndi sem einn af höfuðpaurum alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem aðeins á Íslandi varð að algeru efnahagshruni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Tollasamningur ESB og Bandaríkjanna: Sterkur leikur hjá Ursulu von der Leyen að veita bandarískum vörum tollfrelsi í Evrópu

Tollasamningur ESB og Bandaríkjanna: Sterkur leikur hjá Ursulu von der Leyen að veita bandarískum vörum tollfrelsi í Evrópu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stefán horfir til baka – „Við vorum alltaf að slást hvert við annað“

Stefán horfir til baka – „Við vorum alltaf að slást hvert við annað“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Fólk er ekki fífl – það skilur sérhagsmunina þegar það sér þá

Svarthöfði skrifar: Fólk er ekki fífl – það skilur sérhagsmunina þegar það sér þá
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Mikill meirihluti Íslendinga ánægður með beitingu kjarnorkuákvæðisins

Mikill meirihluti Íslendinga ánægður með beitingu kjarnorkuákvæðisins