Samkvæmt könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 14. til 21. júlí eru 65 prósent landsmanna ánægð með ákvörðun forseta Alþingis um að beita svokölluðu „kjarnorkuákvæði“ í 71. gr. þingskapalaga til að ljúka annarri umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Um er að ræða neyðarhemil sem finna má í þingskapalögum sem gerir forseta Alþingis kleift að stöðva málþóf. Deilt hefur verið um viðurnefið:„kjarnorkuákvæði“ sem mun vera innflutt frá Bandaríkjunum, en þar sem Prósent notaði umdeilda gælunafnið í könnun sinni verður það notað hér.
Aðeins 22 prósent sögðust óánægð og 14 prósent voru hvorki ánægð né óánægð.
Karlar voru maktækt óánægðari með beitinguna en konur, en 25% karla voru óánægðir á meðan aðeins 18% kvenna sögðust óánægðar. Hlutfall ánægðra var þó áþekkt milli kynja, 65% karla og 64% kvenna.
Ánægðasti aldurshópurinn voru þeir sem eru 65 ára eða eldri en 75% svarenda úr þeim hóp voru ánægðir og aðeins 18% óánægð. Minnst ánægðir voru ungir svarendur á aldrinum 18-24 ára en aðeins 49 prósent þeirra sögðust ánægðir. Fjöldi ánægðra eykst með hækkandi aldri en óánægðastir voru þó 35-44 ára þar sem 27% voru óánægðir en næst óánægðast var unga fólkið með 26% óánægju.
Hvað varðar búsetu þá voru 68% svarenda á höfuðborgarsvæðinu ánægðir en 59% svarenda á landsbyggðinni. 27% voru óánægð á landsbyggðinni en 19% á höfuðborgarsvæðinu.
Kjósendur Samfylkingarinnar voru ánægðastir en þar voru 95% ánægja. Næst kom Viðreisn með 88% og svo Flokkur fólksins með 81%. Aðeins 6% Sjálfstæðismanna voru ánægðir á meðan 69% voru óánægðir. 15% kjósenda Miðflokksins voru ánægðir en 69% óánægðir. Kjósendur annarra flokka voru 73% ánægðir og 16% óánægðir.r.