Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar um mörk okkar í nýjasta pistli sínum á Facebook. Pistlar Röggu sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda.
„Mörk eru fjarlægðin þar sem ég get elskað þig og mig samtímis.
Mörk eru leiðbeiningar og væntingar um framkomu og hegðun annarra.
Hvað við þurfum til að upplifa öryggi í sambandinu.
Mörk eru EKKI að breyta öðru fólki.
Mörk eru EKKI skipanir og hótanir.
Mörk eru EKKI þagnarbindindi og fýlustjórnun.
Mörk eru EKKI aggressíf samskipti.
Stundum til að vernda orkuna okkar þurfum við að setja öðrum mörk með að nota raddböndin.“
Ragga bendir á þrátt fyrir átta milljarða manna á jörðinni getur ekki ein einasta hræða lesið hugsanir okkar.
„En ef við erum með mörk sem eru hriplek eins og gatasigti þá munu aðrir notfæra sér það til hins ítrasta. Alltof oft eigum við erfitt með að standa með sjálfum okkur og tjá tilfinningar og hvað við viljum frá öðrum. Það er oft afleiðing af að hafa verið gaslýst og ekki fengið öruggt rými fyrir að upplifa allt tilfinningarófið. Oftar en ekki þurfum við að setja okkur sjálfum skýr persónuleg mörk þegjandi og hljóðalaust.
Alltof oft eyðum við of miklum tíma með óþægilegu fólki sem mergsýgur taugakerfið okkar og skilur það eftir á yfirsnúningi í kortisólmarineringu.
Því þau eru nú fjölskylda, gamall vinur, eiga enga vini….“ eða aðrar réttlætingar fyrir að eyða batteríinu í óþægilegar samverustundir.“
Ragga segir að oft tökum við skoðanir og gagnrýni annarra sem heilagan sannleik og missum svefn í kvíðakasti yfir áliti einnar manneskju.
„Við missum okkur í ágreining um ómerkilegan tittlingaskít og orkan okkar fuðrar upp.
Og eigum ekki snefil aflögu fyrir fólkið sem skiptir raunverulega máli.
Alltof oft setjum við okkar eigin sjálfsrækt í saltpækil til að þjónusta aðra.
Marineruð í manneskjugeðjun segjum JÁ við öllum mögulegum verkefnum.
Þó að við höfum ekki nanósekúndu né orkudreitil aflögu.
Hvert einasta JÁ þýðir NEI fyrir okkur sjálf og okkar nánustu.
Og geðheilsan bíður hnekki.“
Við getum sjálf stjórnað hvaða baráttu við veljum, eins og Ragga bendir á.
„Við getum ákveðið hvaða skoðanir og gagnrýni annarra við flokkum sem: „MÉR ER DRULL.“ Við getum lækkað væntingar um framkomu annarra sem hafa ítrekað sýnt okkur vanvirðingu. Við getum dregið úr samskiptum við tilfinningalega vanþroskað fólk sem beitir fýlustjórnun og samviskubitsvæðingu. Þú stútfyllist af valdeflingu með hökuna upp og kassann fram þegar þú hættir að reyna að breyta öðrum og einblínir á hið eina sem þú getur stjórnað sem eru þín eigin mörk.“