Íslenskur faðir á fimmtugsaldri var í júnílok handtekinn á Schiphol-flugvelli, í nágrenni Amsterdam, grunaður um umfangsmikinn innflutning á kókaíni. Með í för var sonur mannsins á táningsaldri sem þurfti að horfa upp á handtöku föður síns.
Feðgarnir voru að millilenda í Hollandi eftir sumarfrí á fjarlægari slóðum. Samkvæmt heimildum DV var maðurinn stöðvaður við komuna til Hollands og reyndist hann hafa um 6 kílógrömm af kókaíni í fórum sínum.
Sonur mannsins þurfti síðar að fljúga einn heim á leið til Íslands.
Í svari við fyrirspurn DV til saksóknaraembættis Norður-Hollands, sem fer með málið, kemur fram að faðirinn hafi setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn. Ráðgert er að hann verði fljótlega leiddur fyrir þarlendan dómara þar sem málið gegn honum verður þingfest. Dagsetning liggur þó ekki fyrir.
Fyrirspurnir DV til íslenskra yfirvalda hafa leitt í ljós að málið hefur ekki enn ratað á þeirra borð. Reikna má með því að það breytist á seinni stigum málsins.
DV hefur ekki upplýsingar um að maðurinn hafi áður komið við sögu lögreglu.