Verið er að leggja gangstíg nánast alveg upp við blokkinar við Árskóga þrátt fyrir mótmæli íbúa. Kemur þetta ofan á áfallið sem var græna gímaldið sem byrgir útsýni íbúa.
„Þegar borgin ákveður að leggja gangstíg í örfárra sentimetra fjarlægð frá heimilum fólks, án þess að hlusta á íbúana – þá er eitthvað mikið að,“ segir Ásgeir Þór Árnason, íbúi við Árskóga í færslu á samfélagsmiðlum sem hefur vakið mikla athyglil. Ásgeir Þór er einn af þeim íbúum sem hafa staðið í stappi við borgaryfirvöld út af hinu svokallaða græna gímaldi, stóru grænu húsi sem reis við blokkinar við Árskóga og hefur svipt marga íbúana öllu útsýni.
Nú er það hins vegar gangstígur sem veldur íbúum óánægju. En verið er að leggja stíginn í átt frá græna gímaldinu fram hjá Árskógum, það er í innan við 70 sentimetra fjarlægð frá húsunum.
Ásgeir Þór segir þetta ekki aðeins tákn um skort á samráði heldur ósvífna vanvirðingu gagnvart fólki sem býr við Árskóga.
„Íbúar hverfisins hafa aftur og aftur reynt að fá áheyrn – sent athugasemdir, ritað bréf, mætt á fundi. En borgaryfirvöld virðast loka eyrunum,“ segir hann. „Hver er tilgangurinn með skipulagi sem þvælist svo nærri einkalífi að fólk getur ekki opnað gluggann sinn án þess að horfa í augun á gangandi vegfaranda?“
Segir hann að þetta sé ekki einstakt tilfelli í Reykjavík. Þvert á ákall íbúa hafi borgarstjórn haldið áfram að taka ákvarðanir sem grafi undan lífsgæðum fólks, hvort sem um sé að ræða ónóga leikvelli, lélega þjónustu eða skipulagsákvarðanir sem virðist byggðar á skrifborðsteikningum frekar en raunveruleikanum sem fólk búi við.
„Íbúar borgarinnar eiga skilið virðingu. Þeir eiga skilið öruggt og mannvænt umhverfi. Reykjavíkurborg á að vinna með fólkinu – ekki gegn því,“ segir hann.
Taka margir undir að um sé að ræða frekju og óvirðingu í garð fólksins við Árskóga. Fjörlegar umræður hafa skapast um málið. Athuga þurfi lóðasamninga því það hafi komið fyrir að verktakar hafi fengið að byggja út fyrir byggingareiti.
„Margumtalað samráð við borgara er bara marklaust orðagjálfur,“ segir ein kona. „Þetta er bara ekki hægt. Hverskonar rugl er þetta nú,“ segir einn maður.