Umræða er í FB-hópnum „Tjaldsvæði – umræðuvettvangur“ um þrengsli á tjaldsvæðinu Hamrar á Akureyri. Málshefjandi skrifar:
„Hamrar Akureyri. Ég spyr, ætlar rekstraraðili bara að hleypa endalaust inná svæðið sem er löngu sprungið? Fólk er farið að parkera hjólhýsum á vegunum inná svæðinu. Ég væri til í að sjá hvort að lögreglan eða slökkviliðið myndi ekki setja aðeins út á hversu þétt er orðið og samt áfram hleypt inná svæðið. Það er kannski bara kominn tími á að tilkynna þetta til viðeigandi aðila. Hvað ætlar þeir að gera ef kveiknar nú í einsog einu hjólhýsi eða fellihýsi og þar með hætt við að ansi mörg önnur hljóti sömu örlög einsog þetta er þétt? Það eru amk engir 4m á milli.“
Svokölluð fjögurra metra regla sem þarna er vísað til var sett sumarið 2020 vegna Covid og er viðmiðunarregla sem HMS hefur gefið út. Kona sem svarar færslunni og er núna stödd að Hömrum skrifar:
„Þetta er smá eins og villta vestrið hérna. Þurftum að biðja fólk að færa hjólhýsi þar sem þau voru að leggja því fyrir framan beislið á okkar og hefði ekki verið séns fyrir okkur að fara af svæðinu og í dag er ég ekki viss um að við komumst af okkar svæði vegna þrengsla. En að öðru leyti er aðstaðan góð og flestir tillitssamir og reyna að njóta blíðunnar í samlyndi.
Það mætti víðar taka upp svona “stæðis” fyrirkomulag líkt og á Vík og Hólmavík t.d. Þá eru bara afmörkuð númeruð stæði og auðvelt að segja til hvenær svæði er fullt. Varðandi börn og hunda þá er gott að vera vakandi fyrir því að hér er margt fólk og fara varlega.“
Rekstrarfélag tjaldsvæðisins er „Hamrar – útilífsmiðstöð skáta“ og er Ásgeir Hreiðarsson þar framkvæmdastjóri. Hann ræddi stöðuna við DV og greindi frá því að verið væri að bregðast við vandanum:
„Það er orðið vel þétt hjá okkur, það er alveg rétt. Við erum hins vegar búin að opna meira svæði og það er alveg pláss þar, en hins vegar hvort fólk fer eftir því sem tjaldverðirnir reyna að beina þeim er önnur Ella. Það eru í sjálfu sér engin lög til um þessar fjarlægðir sem fólk er að tala um en það eru viðmiðunarreglur sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur sem ráðlagt en það er svolítið undir fólki komið að virða það. Svo getur verið erfitt að eiga við Íslendinga sem eru í hópum saman en við erum að vinna að því að koma upp skipulagi og merkingum. Svo erum við að opna fleiri svæði sem eru að verða tilbúin en voru það ekki vegna bleytu í jarðvegi.“
Viðbótarsvæðið sem opnað var um helgina er dálítið út úr og margir sem taka ekki eftir því og kjósa frekar að koma sér fyrir á þéttari svæðum. Hins vegar segir Ásgeir að verið sé að taka í notkun nýtt svæði í dag sem blasi betur við ferðalöngum.
„Erum akkúrat eins og er að láta slá fyrir okkur aukatún hérna fyrir norðan hjá okkur,“ segir Ásgeir og bendir á að margir sem tjölduðu í nótt séu ekki búnir að borga fyrir næstu nótt og ekki liggi fyrir hvort þetta fólk verði áfram.
„En við erum búin að loka fyrir sölu inn á svæðið þar til búið er að opna inn á meira svæði,“ segir hann ennfremur. Hann segir gott að veðurspá framundan sé góð víða um land og því muni álagið dreifast.