Karl Héðinn Kristjánsson, formaður ungliðahreyfingarinnar Sósíalistaflokksins, átti í stuttu ástarsambandi við 16 ára austurríska stúlku árið 2017, þegar hann sjálfur var 22 ára gamall. Þetta kemur í fram í færslu Karls Héðins á Facebook en þar segir hann Gunnar Smára Egilsson, fyrrum formann framkvæmdastjórnar flokksins, hafa ýjað að málinu og krafið hann um svör. Hann hafi því ákveðið að gangast við því fyrir opnum tjöldum og upplýsa um málavexti. Sambandið varð til þess að hann varð við beiðni þess efnis að segja sig úr stjórn Ungra Pírata vegna málsins.
„Þegar ég var 22 ára, árið 2017, var ég í sumarbúðum Pírata í Evrópu í Svíþjóð þar sem ungliðar víðast hvar úr Evrópu hittust. Þar kynntist ég stelpu frá Austurríki sem var þá 16 ára og við féllum hvor fyrir öðru. Við erum enn góðir vinir í dag. Ég talaði við hana síðast fyrr í dag vegna stöðunnar sem er uppi. Fyrir nokkrum árum spurði ég hana hvort, eftir á, hún hefði haft slæma upplifun af kynnum okkar og hvort hún sæi eftir þeim. Hún fullvissaði mig um að svo væri ekki, að hún sæi ekki eftir neinu og þakkaði mér fyrir að spyrja. Hún sagði það sama áðan,“ skrifar Karl Héðinn.
Segir hann Dóru Björt Guðjónsdóttur, sem þá var formaður Ungra Pírata, hafa beðið hann um að segja sig frá stjórn Ungra Pírata vegna málsins á sínum tíma.