Í maí síðastliðnum ferðaðist Reuben Waithaka rúmlega 13 þúsund kílómetra frá Kenýa til Bandaríkjanna til að vera viðstaddur útskrift elsta barnabarns síns í Alabama-fylki. Með í farteskinu var gömul ljósmynd af syni hans sem dreng og afrískar skyrtur fyrir Reuben, soninn og barnabarnið. Ætlunin var að þrír ættliðir skyldu standa saman í skyrtunum litríku.
En af því varð aldrei.
Daginn eftir að Reuben og eiginkona hans, Elizabeth Barua, komu til bæjarins Calera í Alabama hvarf hann sporlaust. CNN greinir frá.
Síðast sást til hins 72 ára Waithaka á dyrabjöllumyndavél sonars hans þann 15. maí klukkan 11:08 að morgni þar sem hann gekk út í rólegheitunum út heimreiðina. Um hálftíma síðar náðist hann á öryggismyndavél bensínstöðvar í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð. Hann veifaði starfsfólki, fór inn á salerni og gekk svo út um bakdyrnar. Síðan hefur enginn séð tangur né tetur af honum.
„Hann var rétt kominn – og svo var hann farinn,“ segir barnabarnið Byron Barua, sem útskrifaðist fimm dögum síðar án afa síns.
Sjö vikur eru liðnar frá hvarfi Waithaka og enn hefur ekkert komið í leitirnar þrátt fyrir umfangsmikla leit með hjálp dróna, þyrlna, hitamyndavéla, sporhunda og sjálfboðaliða í skógarsvæðum í kringum Calera – borg með tæplega 19.000 íbúa, um 50 km suður af Birmingham.
„Stundum iðrast ég þess að hafa boðið foreldrum mínum að koma,“ segir sonur hans, Willington Barua. „Kannski væri pabbi enn á lífi ef ég hefði ekki gert það.“
Fjölskyldan hefur leitað að öryggismyndavélum um alla borg í leit að vísbendingum án þess að nokkuð hafi fundist. Þau velta því meðal annars fyrir sér hvort Waithaka hafi verið að kljást við ógreinda heilabilun eða aðra heilsubresti sem versnuðu í nýju og ókunnu umhverfi.
Ýmislegt bendir að minnsta kosti til þess. Hann varð órólegur og virkaði hálfringlaður í fluginu yfir Atlantshafið og við komuna slasaði hann sig lítillega þegar hann féll í rúllustiga á flugvellinum í Alabama. Stutt rannsókn eftir slysið benti þó til þess að allt væri í lagi.
Waithaka húkkaði sér tvisvar far þennan örlagaríka morgun. Fyrst fékk hann far frá konu í hverfinu sem skutlaði honum stutta leið og svo fékk hann aftur far hjá öðrum bílstjóra og óskaði eftir því að fara niður í bæ. Sá bílstjóri hleypti Waithaka út við áðurnefnda bensínstöð þar sem hann hvarf.
Aðeins ein haldbær vísbending hefur borist og það er að vitni fullyrðir að hún hafi séð mann, sem svipaði til Waithaka, skríða undir hlið inn í skógarsvæði í grennd við bensínstöðina. Þar hefur þó ekkert fundist þrátt fyrir ítarlega leit.
Lögreglustjórinn í Calera, David Hyche, segir málið eitt það flóknasta sem hann hafi tekið þátt í. Sími Waithaka virðist enn vera á flugstillingu eftir ferðalagið og hann var ekki með nein skilríki né peninga á sér þegar hann hvarf.
Eins og gefur að skilja er fjölskylda hins horfna í sárum og samfélagið allt í Calera. Útskrift barnabarnsins, Byron, fór fram með pompi og prakt á áætluðum degi en sorgin á athöfninni var allt að því áþreifanleg. Viðstaddir klöppuðu sérstaklega af umhyggjusemi fyrir því sem pilturinn var að ganga í gegnum. „Ég reyndi að láta þetta ekki draga mig niður. Ég bið til Guðs að afi minn sé öruggur,“ hefur CNN eftir honum.
Þá var ætlunin að fagna afmæli Waithaka með stórfjölskyldunni í Alabama en af því varð aldrei.
Eiginkona Waithaka sneri aftur til Kenýa þann 20. júní, algerlega niðurbrotin og treysti sér ekki til að ræða málið við fjölmiðla. Enn lifir þó von um að Waithaka sé á lífi og finnist og ástvinir hans munu ekki gefast upp á leitinni.
Willington heldur áfram að dreifa bæklingum á ferð sinni með vörubílum. Hann hægir alltaf þegar hann keyrir fram hjá skógi – vonar og óttast að næsta símtal gefi loks svör við þeirri spurningu sem hefur ásótt fjölskylduna síðan í maí: