Orðið á götunni er að andrúmsloftið í þingflokksherbergi Sjálfstæðismanna í Smiðju Alþingis sé í súrara lagi. Þeir halda nú uppi miklu málþófi í þágu stórútgerðarinnar og virðast sumir þingmenn keppast við að tala sem oftast þó að þeir hafi ekkert að segja á meðan aðrir þingmenn flokksins reyna að spara raddböndin betur og hafa eitthvað málefnalegt til málanna að leggja.
Orðið á götunni er að í þingflokki Sjálfstæðismanna sé harðsnúin klíka sem beiti sér leynt og ljóst gegn nýkjörnum formanni flokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Þessi andspyrnu- eða uppreisnarhópur er sagður staðráðinn í því að stýra málum með þeim hætti í þingstörfum að formanninn nýja steyti á skeri og hrökklist frá ekki síðar en á næsta landsfundi, sem að líkindum verður haldinn haustið 2027.
Dæmi um þetta er að andspyrnuhópurinn kom í veg fyrir að Guðrún Hafsteinsdóttir gæti skipt um formann þingflokksins eins og hún vildi gera, enda hafði Hildur Sverrisdóttir barist af hörku gegn kjöri Guðrúnar. Enn sem komið er, hið minnsta, hefur Guðrún engin tök á þingflokknum og er þar í minnihluta.
Andspyrnuhópurinn fylgir línu sem lögð er af harðlínuliðinu innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Sú lína er að engar breytingar megi gera á veiðigjöldum og að óviðunandi sé að formaður Sjálfstæðisflokksins sé einhver sem ekki er 100 prósent handgenginn stórútgerðinni í landinu.
Orðið á götunni er að SFS og andspyrnuliðið í þingflokki Sjálfstæðismanna hyggist að sjá til þess að Jens Garðar Helgason, núverandi varaformaður flokksins og fyrrverandi formaður SFS, verði næsti formaður flokksins og það ekki síðar en á næsta landsfundi.
Orðið á götunni er að innan þingflokksins sé Jón Gunnarsson í fylkingarbroddi andspyrnuliðsins og fram hefur komið að honum er mjög í nöp við Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Hann réðst harkalega gegn henni með Facebook færslu að kvöldlagi er landsfundur Sjálfstæðisflokksins var að hefjast og sakaði hana um að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Margir eru á því að sú færsla hafi mögulega verið kornið sem fyllti mælinn og tryggði Guðrúnu nauman sigur í formannskjörinu, enda kunnu margir Sjálfstæðismenn lítt að meta árás Jóns, sem talin var högg undir belti.
Meðal annarra í andspyrnuliðinu innan þingflokks Sjálfstæðismanna eru sagðir vera Hildur Sverrisdóttir, Jens Garðar Helgason, Njáll Trausti Friðbertsson, Rósa Guðbjartsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir. Þá er Morgunblaðið hluti andspyrnuliðsins í flokknum. Skemmst er að minnast nýlegs bjórkvölds á vegum Þjóðmála, þar sem nokkrir Morgunblaðsdrengir fóru mikinn og toppuðu mögulega sjálfa sig í kvenfyrirlitningu, þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir fékk harða gagnrýni og var sögð þurfa að gyrða sig í brók, hún hefði ekki tök á starfi sínu. Bjórrausið var tekið upp og er aðgengilegt á Spotify.
Orðið á götunni er að forsprakkar andspyrnuliðsins séu fullmeðvitaðir um að málþófið og tafaleikirnir muni kosta Sjálfstæðisflokkinn nokkur prósentustig í skoðanakönnunum. Þeir vita líka fullkomlega að hvað sem öllu málþófi líður verður veiðigjaldafrumvarpið samþykkt enda hefur ríkisstjórnin ríflegan meirihluta á Alþingi.
Orðið á götunni er að þetta breyti engu fyrir andspyrnuliðið vegna þess að málþófið beinist í raun ekki nema að hluta til gegn ríkisstjórninni og veiðigjaldafrumvarpinu. Raunverulegur tilgangur þess er að veikja stöðu Guðrúnar Hafsteinsdóttur sem mest með það að markmiði að hrekja hana úr formannsembætti og hleypa Jens Garðari Helgasyni að.