Frétt DV um lokun gistiheimilisins Langahlíð Guesthouse og hremmingar konu sem hafði tekið húsið á leigu fyrir sextugsafmæli sitt um næstu helgi vöktu mikla athygli. Núna er búið að leysa málið farsællega.
Konan bókaði gistinguna í janúar en rekstraraðili er Berglind Saga Bjarnadóttir, öðru nafni Saga B, þekktur áhrifavaldur og rappari. Samkvæmt heimildum DV hefur hún boðið upp á bókanir beint í gegnum sig á hagstæðari kjörum en fást í gegnum Booking.com. Konan greiddi helming verðsins fyrirfram eða 280 þúsund krónur. Ætlaði hún að halda upp á sextugsafmæli sitt á staðnum og bókaði gistinguna fyrir afmælisgesti. Gerðist þetta í gegnum tölvupóstsamskipti sem gengu greiðlega. Þegar konan hafði síðan samband við Sögu aftur í lok maí bárust engin svör. Slökkt var á farsíma Sögu og Reykjavík Guesthouse og hún svaraði ekki tölvupóstum.
Þegar konan náði ekki sambandi við neinn ók hún að gistiheimilinu til að kanna aðstæður og sá þá að fest hafði verið tilkynning utan á það þess efnis að húsinu hefði verið lokað af óviðráðanlegum aðstæðum. Tilkynningin var á ensku.
Saga B hafði samband við DV eftir birtingu fréttarinnar og lýsti óviðráðanlegum erfiðleikum sem leitt hefðu til lokunarinnar og sambandsleysisins í kjölfarið. Hún vildi hins vegar ekki tjá sig um málið frekar í frétt en einhenti sér í það að hafa samband við konuna og bæta henni skaðann.
Tryggingagjaldið, 280 þúsund krónur, var síðan millifært í dag inn á reikning konunnar sem hafði tekið húsið á leigu. Konan lýsir í samtali við DV ánægju með þessi málalok og segist einnig hafa upplifað sterk viðbrögð við fréttinni:
„Ég er snortin af mætti fjölmiðla. Fréttin vakti gífurleg viðbrögð og margir höfðu samband og vildu hjálpa okkur í þessum aðstæðum. Ég er líka ánægð með framkomu Berglindar sem var mjög elskuleg og endurgreiddi trygginguna fúslega. Ég óska henni alls hins besta.“