Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið boðað til fundar þingflokksformanna til að semja um þinglok. Sigmar segir að stjórnarliðar eigi erfitt með að fara í miklar samningaviðræður þar sem þeim finnist lýðræðið sjálft vera undir á Alþingi núna. Það sé lýðræðismál að mál séu afgreidd með atkvæðisgreiðslum í þingsal þegar upp kemur ágreiningur. Vísar Sigmar þar meðal annars til veiðigjaldafrumvarpsins, en stjórnarandstaðan stundar nú málþóf og krefst þess að frumvarpið verði tekið af dagskrá eða málamiðlanir gerðar. Sigmar segir að fyrir hans leyti sé ekki útilokað að kjarnorkuákvæði þingskapalaga, 71. gr., verði beitt á málþófið en honum finnst þó ákjósanlegast að semja um þinglok.