Sautján ára piltur sem hlaut átta ára fangelsi fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps á Menningarnótt árið 2024 áfrýjaði ekki dómi héraðsdóms til hærra dómsstig. Guðmundur St. Ragnarsson, lögmaður og verjandi piltsins, staðfestir það við Mbl.is. Ákæruvaldið áfrýjaði ekki dómnum.
Pilturinn var 16 ára þegar hann framdi árásina, en hann veittist með hnífi að þremur ungmennum sem sátu í bifreið við Skúlagötu. Bryndís Klara Birgisdóttir, 17 ára, lést af sárum sínum viku eftir árásina. Önnur stúlka og drengur hlutu töluverða áverka í árásinni.
Sjá einnig: 17 ára piltur fær 8 ára fangelsi fyrir að bana Bryndísi Klöru
Pilturinn var ákærður í nóvember í fyrra fyrir manndráp, tvær tilraunir til manndráps og eignaspjöll á bifreiðinni. Hann var viðstaddur dómsuppkvaðningu Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl. Þinghald í málinu var lokað vegna ungs aldurs brotaþola og hins ákærða. Vegna ungs aldurs hans hefur hann ekki verið nafngreindur.
Óheimilt er samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga að dæma mann sem ekki er fullra 18 ára á verknaðarstundu til þyngri refsingar en átta ára fangelsis.