Óskar Borgþórsson er genginn í raðir Víkings. Tíðindin hafa legið í loftinu en eru nú staðfest af félaginu.
Óskar, sem er 21 árs gamall, kemur frá Sogndal í Noregi og skrifar hann undir þriggja og hálfs árs samning í Fossvoginum.
Óskar fór út í atvinnumennsku eftir að hafa slegið í gegn með Fylki fyrir um tveimur árum síðan.
Tilkynning Víkings
Knattspyrnudeild Víkings og norska knattspyrnufélagið Sogndal hafa náð samkomulagi um kaup Víkings á Óskari Borgþórssyni sem skrifað hefur undir samning við Víking út leiktíðina 2028. Óskar fór til Sogndal árið 2023 frá Fylki þar sem hann kom upp úr unglingastarfi félagsins. Óskar hefur leikið 9 leiki fyrir U-21 árs landslið Íslands og skorað í þeim 1 mark.
Gefum Kára Árnasyni yfirmanni knattspyrnumála orðið:
Óskar er leikinn kantmaður með mikinn kraft og áræðni. Hann er leikinn, með frábæran skotfót og getur leyst fleiri stöður á vellinum. Óskar er gríðarlega spennandi leikmaður og við búumst við miklu af honum. Við teljum hann smellpassa í hópinn okkar og eins og sjá má á myndunum frá undirritun samningsins fylgir honum mikil gleði og hann er eitt stórt bros þessi gæi. Ég er hrikalega ánægður að fá hann í hópinn og hlakka til að sjá hann í þeim rauða og svarta. Takk.
Knattspyrnudeild Víkings býður Óskar hjartanlega velkominn í Hamingjuna!