fbpx
Mánudagur 15.september 2025
Pressan

Dóttir Ásu og Rex skipti um skoðun áður en heimildarþættirnir fóru í loftið – Þessu trúir hún í dag í ljósi staðreynda málsins

Pressan
Föstudaginn 13. júní 2025 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarþættirnir The Gilgo Beach Killer: House of Secrets hafa vakið mikla athygli. Þættirnir eru á vegum veitunnar Peacock og einn framleiðandi þeirra er rapparinn 50 cent. Það sem skiptir okkur Íslendinga þó meira máli er að þar stígur fram Ása Guðbjörg Ellerup, Bandaríkjakona af íslenskum ættum, sem þar til nýlega var gift manni sem er grunaður um að vera alræmdur raðmorðingi – Gilgo-strandarmorðinginn.

Rex Heuermann hefur verið í haldi lögreglu í um tvö ár. Á þessum tíma hefur hann verið ákærður fyrir morð 7 kvenna sem létust á árunum 1993-2010. Hann og Ása höfðu verið gift í tæp 30 ár, en gengu nýlega frá lögskilnaði. Samkvæmt þáttunum var skilnaðurinn þó til málamynda til að koma eignum hjónanna í skjól frá mögulegum málsóknum aðstandenda þeirra látnu.

Óraunhæft en ekki ómögulegt

Eins stígur fram í þáttunum dóttir hjónanna, Victoria Heuermann. Victoria, ólíkt móður sinni, viðurkennir að faðir hennar sé mögulega sekur. Victoria tók fram að henni þætti erfitt að hugsa um þær þungu sakir sem faðir hennar er borinn, en Rex er sakaður um að hafa myrt fórnarlömb sín á meðan Ása og börnin hennar voru fjarri heimili þeirra, svo sem á Íslandi.

„Á meðan við vorum að skemmta okkur í fríi var hann heima að myrða og sundurlima konur hér heima,“ sagði Victoria í þáttunum, en hún stóð þá ásamt móður sinni í kjallara heimilis fjölskyldunnar á Long Island. Lögreglu grunar að þar hafi morðinginn athafnað sig.

„Segjum sem svo að þetta hafi í raun og veru gerst hérna niðri, þá hlýtur hann að hafa verið eins og ofurmenni, til þess að við tækjum ekki eftir neinu – þetta var svefnherbergið hans þegar hann var barn,“ sagði Victoria.

Herbergið sem þau stóðu í var fullt af æskuminningum Rex, sem ólst upp í húsinu og erfði það svo eftir foreldra sína.

„Að hann hafi gert þetta hér í þessu herbergi er frekar óraunhæft, en ekki ómögulegt,“ sagði Victoria.

Áður hefur verið greint frá því að Ása Guðbjörg standi með fyrrverandi manni sínum. Hún telur hann saklausan enda hafi hún þekkt hann áratugum saman. Þau gengu í hjónaband árið 1996 en þau kynntust fyrst þegar þau voru bæði unglingar.

„Viltu vita hvernig mér líður?“ spurði Ása heimildargerðamenn. „Þau [lögregla og ákæruvald] eru að tína til hitt og þetta og draga ályktanir sem henta þeirra málstað. Ég hef þekkt Rex síðan ég var 18 ára. Ég veit hvernig þetta herbergi var upphaflega nýtt og þetta eru sem stendur bara ásakanir,“ sagði Ása.

„Hann hefur aldrei sagt við mig: Ekki nota tölvuna mína. Hann hefur aldrei sagt: Nei, ég gef þér ekki lykilorðið. Rex hélt engu frá mér.“

Bjó sig undir það versta

Victoria tók fram í fyrsta þættinum að hún ætli ekki að taka afstöðu í málinu fyrr en öll kurl eru komin til grafar í réttarhöldunum.

„Ein manneskja segir hitt, önnur segir þetta, saksóknarar segja annað, en minnið mitt segir sitt. Svo já, það að ég standi með sjálfri mér og finni fyrir þörfinni að sjá sönnunargögnin er það sem heldur mér stöðugri í gegnum þetta.

Jafnvel nú þegar sönnunargögnin hafa safnast saman gegn honum, þá er það þessi tryggð við pabba minn og svo mömmu líka.“

Victoria ræðir í þáttunum við Kerri Rawson sem er dóttir raðmorðingjans Dennis Rader, eða BTK-morðingjans. Hann myrti minnst 10 manns á árunum 1974-1991. Victoria sagði við Kerri að hún sé að upplifa erfiðar tilfinningar og sveiflist milli þunglyndis og reiði.

„Það er til fólk þarna úti sem vill mig feiga,“ sagði Victoria og bætti við að hún hafi aðeins einu sinni heimsótt föður sinn í fangelsið.

„Það er svo erfitt að trúa að hann sé þessi sjúki morðingi. En á sama tíma, því ég var svo ung á þessum tíma, er ég ekki sannfærð um að hann sé ekki þessi sjúki morðingi.“

Victoria sagðist búa sig undir það versta.

„Eins og staðan er í dag er ég að undirbúa mig andlega, eða verja mig, frá endanlegri niðurstöðu“

Var óviss en er viss í dag

Victoria er spurð hreint út í þáttunum hvort faðir hennar sé sekur.

„Hvort sem ég trúi því að faðir minn sé sekur eða ekki þá er ég á báðum áttum með það. Hluti af mér telur að hann geti ekki hafa gert þetta, en á sama tíma er ég óviss, hann gæti alveg hafa lifað tvöföldu lífi.“

Í lok fyrsta þáttar birtust skilaboð frá framleiðendum þar sem sagði:

„Viku áður en þættirnir voru sýndir sagði Victoria Heuermann framleiðendum að í ljósi þeirra gagna sem hafa verið birt opinberlega og eins og þau hafa verið kynnt henni trúir hún í dag að faðir hennar sé líklega Gilgo-strandar morðinginn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Telja að myndbandsræða Trump hafi verið búin til af gervigreind

Telja að myndbandsræða Trump hafi verið búin til af gervigreind
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fékk ekki hlutverkið sem hann sóttist eftir – Leikstjórinn vildi ekki „Luke Skywalker“

Fékk ekki hlutverkið sem hann sóttist eftir – Leikstjórinn vildi ekki „Luke Skywalker“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Morðið á Charlie Kirk: Telja sig hafa borið kennsl á sakborning

Morðið á Charlie Kirk: Telja sig hafa borið kennsl á sakborning
Pressan
Fyrir 3 dögum

Myrti börnin sín – Líkin fundust fjórum árum síðar í ferðatöskum keyptum á netuppboði

Myrti börnin sín – Líkin fundust fjórum árum síðar í ferðatöskum keyptum á netuppboði
Pressan
Fyrir 4 dögum

Er þetta maðurinn sem skaut Charlie?

Er þetta maðurinn sem skaut Charlie?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Nýbirt skjöl varpa ljósi á ástæður þess að hann sviðsetti eigið andlát

Nýbirt skjöl varpa ljósi á ástæður þess að hann sviðsetti eigið andlát
Pressan
Fyrir 5 dögum

Á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi eftir að hún skráði hundinn sinn á kjörskrá

Á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi eftir að hún skráði hundinn sinn á kjörskrá
Pressan
Fyrir 5 dögum

Trump brjálaður út í Ísrael eftir árásina í gær – „Ég er ekki ánægður“

Trump brjálaður út í Ísrael eftir árásina í gær – „Ég er ekki ánægður“